Halastjarna og norðurljós yfir Íslandi

18. mars 2013

  • PANSTARRS, halastjarna
    Halastjarnan PanStarrs og norðurljós. Mynd: Gísli Már Árnason

Í síðustu viku birtist halastjarnan PanStarrs á stjörnuhimninum yfir Íslandi. Þótt halastjarnan sé aðeins daufari en vonast var eftir, hafa stjörnuáhugamenn fylgst grannt með og margir náð fínum myndum af henni. Sunnudagskvöldið 17. mars var himininn einstaklega glæsilegur skreyttur dansandi norðurljósum, halastjörnu og mánaðarlegu stefnumóti tunglsins og Júpíters.

Mynd vikunnar hér að ofan tók Gísli Már Árnason, félagsmaður í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness þann 17. mars . Halastjarnan sést vel á myndinni í ljósaskiptunum innan um norðurljósin. Haddurinn er mest áberandi en daufur halinn liggur skáhallt upp frá honum í stefnu frá sólinni.

Tæplega 300 manns komu saman í Gróttu á Seltjarnarnesi þar sem Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness stóð fyrir stjörnuskoðun. Þar tók Hilmar Þór Guðmundsson þessar myndir:

PANSTARRS, halastjarna
Vaxandi tungl í nautsmerkinu og norðurljós sunnudagskvöldið 17. mars. Bjarta stjarnan fyrir ofan tunglið er Júpíter en lengra til hægri sést Sjöstirnið vel. Í neðra hægra horninu sést halastjarnan PanStarrs. Mynd: Hilmar Örn Guðmundsson
PANSTARRS, halastjarna
Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness stóð fyrir stjörnuskoðun við golfskála golfklúbbsins Ness. Þangað komu um 300 manns. Mynd: Hilmar Örn Guðmundsson

Fólk kom líka saman í Vestmannaeyjum, bæði á föstudags- og sunnudagskvöld. Þessa mynd tók Óskar Elías Sigurðsson föstudagskvöldið 15. mars af halastjörnunni PanStarrs á vesturhimninum.

PANSTARRS, halastjarna
Halastjarnan PanStarrs (vinstra megin) séð úr Vestmannaeyjum. Horft er í vesturátt: Lengst til vinstri sést halastjarnan í ljósaskiptunum en lengra til hægri eru smáeyjarnar Hæna, Hani og Hrauney. Mynd: Óskar Elías Sigurðsson
PANSTARRS, halastjarna
Halastjarnan PanStarrs. Mynd: Óskar Elías Sigurðsson
norðurljós, tunglið, Vestmannaeyjar
Norðurljósin og tunglið lýsa upp hafið við Vestmannaeyjar. Bjarta stjarnan fyrir ofan tunglið er Júpíter. Mynd: Óskar Elías Sigurðsson

Um 20 manns komu saman í halastjörnuskoðun á Þingeyri sunnudagskvöldið 17. mars undir leiðsögn Jón Sigurðssonar, stjörnuáhugamanns. Jón segir: „Tók smá tíma að finna hana [halastjörnuna] en eftir að hún var fundin setti ég tölvustýrða sjónaukann á hana og týndum henni ekki eftir það. Þegar myrkur var orðið meira sáu hana allir með berum augum, stórir sem smáir. Skemmtileg upplifun fyrir alla.“

PANSTARRS, halastjarna
Halastjarnan PanStarrs í ljósaskiptunum við Arnarnúp, séð úr Dýrafirði. Mynd: Jón Sigurðsson

Jón náði einnig þessari mynd af halastjörnunni í gegnum sjónauka:

PANSTARRS, halastjarna
Halastjarnan PanStarrs. Ef þessi mynd er borin saman við mynd Óskars Elíasar Sigurðssonar fyrir ofan, sést greinilega að halastjarnan hefur færst milli þess sem myndirnar voru teknar. Mynd: Jón Sigurðsson

Matthías Ásgeirsson tók svo þessa stórkostlegu mynd af dansandi norðurljósum innan um Vetrarþríhyrninginn með Óríon í broddi fylkingar undir vökulu auga tunglsins og Júpíters.

norðurljós, tunglið
Mynd: Matthías Ásgeirsson

Halastjarnan PanStarrs er enn sýnileg á himninum. Nauðsynlegt er að nota handsjónauka til að finna hana og góðan skammt af þolinmæði. Horfðu lágt á vesturhimininn um klukkustund eftir sólsetur og skannaðu himininn með handsjónaukanum. Þú ættir að koma auga á fyrirbæri sem líkist stjörnu en hefur augljósan hala.

Sjá má fleiri glæsilegar myndir á Facebook síðu Stjörnufræðivefsins.

Við þökkum þeim sem sendu okkur myndir kærlega fyrir!

Höfundur: Sævar Helgi Bragason

Tengt efni

Ummæli