Dvergvetrarbraut

  • Dvergvetrarbrautin í Fönixnum, Fönix, Dvergvetrarbraut
    Dvergvetrarbrautin í Fönixnum liggur í um 1,4 milljóna ljósára fjarlægð

Dvergvetrarbrautir eru mikilvægir hlekkir í þróunarsögu alheimsins og eru oft á tíðum taldar byggingareiningar stærri vetrarbrauta. Stjörnufræðingar telja nefnilega að stórar vetrarbrautir hafi myndast við samruna lítilla vetrarbrauta.

Í Grenndarhópnum eru fjölmargar dvergvetrarbrautir, yfirleitt á braut um stærri stjörnuþokur eins og Andrómeduþokuna, Vetrarbrautina okkar og Þríhyrningsþokuna. Vitað er um 14 dvergvetrarbrautir í kringum Vetrarbrautina okkar.

Listi yfir nokkrar dvergvetrarbrautir

Myndasafn

 NGC 6822, Barnardsþokan  

Dvergvetrarbraut Barnards

Hér sést óregluleg dvergvetrarbrautin NGC 6822 sem kennd er við bandaríska stjörnufræðinginn Edward Emerson Barnard. Hún er í um 1,6 milljóna ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Bogmanninum. Myndin var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile.

Mynd: ESO (eso0938)

PGC 39058, Drekinn, dvergvetrarbraut  

Dvergvetrarbrautin PGC 39058 í Drekanum

Hér sést dvergvetrarbrautin PGC 39058 á mynd sem tekin var með Hubble geimsjónauka NASA og ESO. Hún er í stjörnumerkinu Drekanum og er í um 14 milljón ljósára fjarlægð frá okkur. Bjarta stjarnan (sýndarbirtustig +6,7) í forgrunni er í Vetrarbrautinni okkar og liggur fyrir tilviljun í sömu sjónlínu sem gerir Hubble eritt um vik að taka mynd af daufri og fjarlægri dvergvetrarbrautinni. 

Mynd: ESA/Hubble & NASA (potw1021a)

Kjalardvergurinn, dvergsporvala

Dvergsporvala í Kilinum

Hér sést dvergsporvala í stjörnumerkinu Kilinum. Hún er svo dreifð og svo dauf að stjörnufræðingar fundu hana ekki fyrr en árið 1977. Hún er fylgivetrarbraut okkar og er í um 300.000 ljósára fjarlægð. Í Kjalardvergnum eru stjörnur af ýmsum aldri sem virðast hafa myndast í hrinum á milli rólegra tímabila sem stóðu yfir í nokkra milljarða ára. Þótt myndin sé ekki stórbrotin er hún líklega sú besta sem tekin hefur verið af Kjalardvergnum hingað til. Myndin var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla og 4 metra Victor M. Blanco sjónaukanum í stjörnustöðinni á Cerro Tololo í Chile.

Mynd: ESO/G. Bono & CTIO (potw1126a)

dvergvetrarbraut, Myndhöggvarinn, ESO 349-31

Dvergvetrarbraut í Myndhöggvaranum

Hér sést dvergvetrarbrautin ESO 349-31 í stjörnumerkinu Myndhöggvaranum í um 11 milljóna ljósára fjarlægð og því ein af nágrannavetrarbrautum okkar. Í henni eru margar mjög gamlar stjörnur.

Mynd: ESO/Digitized Sky Survey 2 (eso1007)

dvergvetrarbraut, Ofninn, ESO 356-4  

Dvergvetrarbraut í Ofninum

Hér sést dvergvetrarbrautin ESO 356-4 í stjörnumerkinu Ofninum. Hún er í um 2 milljóna ljósára fjarlægð og því ein af nágrannavetrarbrautum okkar. Stjörnufræðingar hafa sýnt fram á að í henni eru margar mjög gamlar stjörnur.

Mynd: ESO/Digitized Sky Survey (eso1007)

UGC 9128, dvergvetrarbraut, grenndarhópurinn, hjarðmaðurinn  

Dvergvetrarbrautin UGC 9128

UGC 9128 er óregluleg dvergvetrarbraut sem inniheldur aðeins um 100.000 stjörnur. Hún er í um 8 milljóna ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Hjarðmanninum og tilheyrir Grenndarhópnum. Sjá nánar mynd vikunnar 25. apríl 2011.

Mynd: ESA/Hubble & NASA

Holmberg II, óregluleg dvergvetrarbraut,  

Holmberg II

Mynd Hubble geimsjónaukans af óreglulegu dvergvetrarbrautinni Holmberg II. Í vetrarbrautinni eru stórar glóandi gaskúlur þar sem stjörnur eru að myndast. Hámassastjörnur myndast í þéttum gasskýjum og senda síðar á ævi sinni frá sér mikla stjörnuvinda sem blása burt nærliggjandi efni. Ellihrumar deyja þær sem sprengistjörnur. Höggbylgjur rífa sig í gegnum þynnra gas sem umlykur þær, bifar því burt og hitar það. Við þetta myndast þunnar gasskeljar sem við sjáum nú. Sjá frétt heic1114

Mynd: ESA/Hubble & NASA

Dæludvergurinn, Dvergvetrarbrautin í Dælunni, Dvergvetrarbraut

Dvergvetrarbraut í Dælunni

Dvergvetrarbrautin í Dælunni er í um fjögurra milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í henni eru merki um myndun nýrra stjarna í miðjunni en við jaðranna eru eldri stjörnur. Sjá mynd vikunnar potw1209.

Mynd: NASA/ESA og Hubble

Tengt efni

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2011). Dvergvetrarbrautir. Stjörnufræðivefurinn http://www.stjornuskodun.is/alheimurinn/dvergvetrarbrautir sótt (DAGSETNING)