Litla Magellansskýið
Stjörnumerki: | Túkaninn |
Stjörnulengd: |
00klst 52m 44,8s |
Stjörnubreidd: |
-72° 49' 43“ |
Sjónstefnuhraði: |
158 ± 4 km/s |
Fjarlægð: |
210.000 ljósár |
Tegund: |
Dvergvetrarbraut |
Sýndarbirtustig: | 2,7 |
Litla Magellansskýið er í um 210.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni og er því ein nálægasta fylgivetrarbraut okkar. Stjörnufræðingar hafa sumir hverjir sett fram þá tilgátu að hún hafi eitt sinn verið bjálkaþyrilþoka sem vetrarbrautin okkar hafi aflagað. Í henni er merki um bjálka í miðjunni.
Litla Magellansskýið er í stjörnumerkinu Túkaninum og sést það því best frá suðurhveli jarðar. Á himninum er það þokukennt rúmlega fjögurra gráðu breitt ský (níu sinnum breiðara en fullt tungl) sem lítur út fyrir að hafa brotnað upp af vetrarbrautinni. Skýið sést með berum augum á dimmum himni, fjarri allri ljósmengun.
Saga athugana
Íbúar á suðurhveli jarðar hafa lengi þekkt Magellansskýin og koma þau við sögu í goðsögnum innfæddra. Portúgalskir og hollenskir sæfarendur kölluðu skýin Höfðaský og var það nafn notað í nokkurn tíma. Þegar Ferdinand Magellan sigldi umhverfis jörðina árin 1519-22 var þeim lýst sem daufum stjörnuþyrpingum og urðu þá þekkt meðal stjarnfræðinga í Evrópu.
Milli 1834 og 1838 gerði John Frederick William Herschel athuganir á suðurhimninum með 14 tommu sjónauka í konunglegu stjörnustöðinni á Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku. Í Litla Magellansskýinu skrásetti hann 37 geimþokur og stjörnuþyrpingar.
Árið 1891 tók stjörnustöð Harvardháskóla í notkun stjörnustöð í Arequipa í Perú. Milli 1893 og 1906 voru teknar ljósmyndir af báðum Magellansskýjunum á ljósmyndaplötur. Henrietta Swan Leavitt, stjörnufræðingur við stjörnustöð Harvardháskóla, notaði plöturnar til þess að rannsaka breytingar á ljósafli stjarna í Litla Magellansskýinu og áttaði sig þá á sveiflulýsilögmálinu fyrir sefíta. Sveiflulýsilögmálið fyrir sefíta hefur síðan verið notað til að mæla fjarlægðir til annarra vetrarbrauta.
Djúpfyrirbæri í Litla Magellansskýinu
Lausþyrpingarnar NGC 265 og NGC 290 í Litla Magellanskýinu. Þyrpingarnar eru um 65 ljósár í þvermál. Mynd: ESA, NASA. Davide De Martin og Edward W. Olszewski (sjá heic0603) |
Í Litla Magellansskýinu eru fjölmörg djúpfyrirbæri sem sjást á ljósmyndum og hægt er að skoða í gegnum stjörnusjónauka.
-
NGC 265 - Lausþyrping
-
NGC 290 - Lausþyrping
-
NGC 346 - Lausþyrping / rafað vetnisský
-
NGC 371 - Lausþyrping / rafað vetnisský
-
NGC 602 - Lausþyrping
Myndasafn
Litla Magellansskýið og 47 TucanaeHér sjást Litla Magellansskýið og kúluþyrpingarnar 47 Tucanae (efri) og NGC 362 (neðri). Myndin var tekin með 180mm f/2,8 Nikkor linsu á Nikon D80 DSLR myndavél á Takahashi EM-200 sjónaukastæði í júní 2007 frá San Pedro de Atacama í Chile. Mynd: Sævar Helgi Bragason |
||
Magellanskýin yfir Parnal stjörnustöð ESO í Chile
|
||
NGC 346 — Lausþyrping og rafað vetnisskýNGC 346 er bjartasta stjörnumyndunarsvæðið í Litla Magellansskýinu. Svæðið er 200 ljósára breitt. Í þokunni er þyrping ungra massamikilla stjarna sem rafa vetnisskýið sem umlykur þær. Mynd: ESO (sjá eso1008) |
||
Stjörnuþyrpingin og geimþokan NGC 371Hér sést stjörnuþyrpingin NGC 371 og geimþokan í kring á mynd sem tekin var með FORS1 mælitækinu á Very Large Telescope ESO í Paranal stjörnustöðinni í Chile. NGC 371 er í Litla-Magellansskýinu, einni nálægustu vetrarbraut við vetrarbrautina okkar. Mynd: ESO/Manu Mejias (sjá eso1111) |
||
Nýjar stjörnur varpa ljósi á fortíðinaMynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA af N90, stjörnumyndunarsvæði í Litla Magellansskýinu. Háorkugeislun frá heitum ungum stjörnum valda rofi á ytri hlutum þokunnar innan frá og valda því að hún glóir. Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team STScI/AURA (sjá heic0702) |
Tengt efni
Hvernig vitna skal í þessa grein
-
Sævar Helgi Bragason (2011). Litla Magellansskýið. Stjörnufræðivefurinn http://www.stjornuskodun.is/alheimurinn/litla-magellanskyid sótt (DAGSETNING)