MPG/ESO sjónaukinn

  • MPG/ESO sjónaukinn
    2,2 metra sjónauki Max Planck stofnunarinnar og ESO. Mynd: ESO/H.H.Heyer
Helstu upplýsingar
Samtök: European Southern Observatory
Staðsetning:
La Silla stjörnustöðin í Chile
Tegund:
Ritchey-Chrétien
Bylgjulengd:
Sýnilegt og nær-innrautt ljós
Þvermál:
2,20 metrar
Heimasíða:
MPG/ESO 2.2m Telescope

2,2 metra MPG/ESO sjónaukinn hefur verið í notkun á La Silla síðan snemma árs 1984. Hann er á ótímabundnu láni til ESO frá Max Planck stofnunni í Þýskalandi. Notkun sjónaukans deilist því milli Max Planck stofnunarinnar og ESO en rekstur og viðhald er í höndum ESO.[1]

Á sjónaukanum er meðal annars 67 megapixla myndavél, Wide Field Imager, sem hefur álíka vítt sjónsvið og sem nemur breidd fulls tungls á himinhvolfinu[2] og hefur tekið fjölmargar glæsilegar myndir af fyrirbærum himins.

Af öðrum mælitækjum er vert að nefna GROND (Gamma-Ray Burst Optical/Near-Infrared Detector) sem greinir glæður gammablossa[3] og FEROS (Fiber-fed Extended Range Optical Spectrograph) sem er litrófsriti með mikla upplausn og er notaður til að gera nákvæmar litrófsmælingar á stjörnum.

Í nóvember árið 2010 tilkynntu evrópskir stjörnufræðingar um uppgötvun á fjarreikistjönu á braut um stjörnu sem barst úr annarri vetrarbraut í Vetrarbrautina okkar. Reikistjarnan nefnist HIP 13044 b og fannst þegar stjörnufræðingar mældu hárfínt vagg móðurstjörnunnar sem orsakast af þyngdaráhrifum reikistjörnunnar á stjörnuna. Hópurinn gerði þessar nákvæmu mælingar með FEROS litrófsritanum á MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO í Chile.[4]

Myndasafn

NGC 6744, þyrilþoka, þyrilvetrarbraut

Póstkort utan úr geimnum?

Þessi mynd af þyrilþokunni NGC 6744 var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum á La Silla. Þyrilþokan líkist mjög okkar eigin vetrarbraut. Því gæti myndin því sem næst verið póstkort af vetrarbrautinni okkar sem fjarlægur vinur okkar utan úr geimnum hefur tekið og sent okkur (sjá eso1118).

Mynd: ESO

Messier 78, M78, endurskinsþoka í Óríon

Fögur endurskinsþoka

Þessi ljósmynd af endurskinsþokunni Messier 78 var tekin með Wide Field Imager myndavélinni á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile (sjá eso1105).

Mynd: ESO og Igor Chekalin

stjörnumyndunarsvæði, R Coronae Australis, Suðurkórónan

Tilþrifamikil stjörnumyndun

Á þessari mynd sjást vel þau áhrif sem mjög ungar stjörnur hafa á gasið og rykið sem myndaði hana. Sjálfir hvítvoðungarnir sjást ekki á myndinni því þeir eru faldir á bakvið þykk rykský ofarlega vinstra megin á myndinni. Efnið sem stjarnan varpar frá sér rekst á umhverfið í kring á allt að milljón km hraða á sekúndu. Myndin var tekin með FORS1 mælitækinu og sýnir ljós sem berst frá glóandi vetni og brennisteini (sjá eso1109).

Mynd: ESO

Tengt efni

Tilvísanir

  1. La Silla - Fyrsta stjörnustöð ESO“ Sótt 8.6.2011
  2. WFI - Wide Field Imager “ Sótt 4.6.2011
  3. GROND Takes Off “ Sótt 4.6.2011
  4. Reikistjarna úr annarri vetrarbraut uppgötvuð“ Sótt 8.6.2011

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2011). MPG/ESO sjónaukinn. Stjörnufræðivefurinn http://www.stjornuskodun.is/alheimurinn/rannsoknir/mpg-eso-sjonaukinn sótt (DAGSETNING)