New Technology Telescope (NTT)

  • New Technology Telescope, NTT
    New Technology Telescope á La Silla. Mynd: ESO
Helstu upplýsingar
Samtök: European Southern Observatory
Staðsetning:
La Silla stjörnustöðin í Chile
Tegund:
Ritchey-Chrétien
Bylgjulengd:
Sýnilegt ljós
Þvermál:
3,58 metrar
Heimasíða:
The New Technology Telescope

New Technology Telescope eða NTT er 3,58 metra sjónauki í La Silla stjörnustöð European Southern Observatory (ESO) í Chile. Á honum var í fyrsta sinn prófuð virk sjóntæki. Hönnun sjónaukans og hússins yfir hann var byltingarkennd til þess að hámarka myndgæði.[1]

NTT var tekinn í notkun árið 1989. Safnspegill hans er sveigjanlegur og lögun hans breytt á meðan athuganir standa yfir með hreyfiliðum undir speglinum en auk þess sem færa má aukaspegilinn til í þrjár áttir. Þetta tryggir bestu mögulegu myndgæði. ESO þróaði þessa tækni sem kallast virk sjóntækni en hún er nú notuð í alla stóra sjónauka á jörðinni í dag, til dæmis Very Large Telescope í Paranal stjörnustöðinni og verður hluti af hinum fyrirhugaða European Extremely Large Telescope í framtíðinni. Önnur nýjung var hönnun hússins sem hýsir NTT. Hvolfþakið er lítið en loftræst er með sérstökum flipum svo loft streymir hægt og rólega yfir spegilinn sem dregur úr ókyrrð og leiðir til skarpari mynda.[2]

Í byrjun glímdi New Technology Telescope við sama vandamál og Hubble geimsjónaukinn — spegillinn var ekki rétt slípaður. Hins vegar var hægt að komast yfir þetta vandamál með virku sjóntækjunum án þess að endurslípa spegilinn.

Mælitæki

Á NTT eru tvö mælitæki:

  • SOFI („Son of ISAAC“, VLT tæki), nær-innrauð myndavél og litrófsriti með litla upplausn.

  • EFOSC (ESO Faint Object Spectrograph and Camera, 2. útfærsla), myndavél og litrófsriti fyrir sýnilegt ljós.

Uppgötvanir

Margar merkar uppgötvanir hafa verið gerðar með hjálp NTT. Nýverið hjálpaði NTT til við að greina rykskífu sem umlykur unga, massamikla stjörnu og um leið fundið fyrstu beinu sönnunargögn þess efnis að massamiklar stjörnur myndist á samskonar hátt og smærri stjörnur.[3] Mesta framlag NTT er þó eflaust mælingar á stjörnum í miðju Vetrarbrautarinnar sem hjálpuðu til við að ákvarða massa og stærð risasvartholsins sem þar leynist.[4]

Tengt efni

Tilvísanir

  1. La Silla - Fyrsta stjörnustöð ESO“ Sótt 8.6.2011
  2. The New Technology Telescope“ Sótt 9.6.2011
  3. Undið ofan af ráðgátunni um myndun massamikilla stjarna“ Sótt 9.6.2011
  4. Unprecedented 16-year long study tracks stars orbiting Milky Way Black Hole“ Sótt 9.6.2011

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2011). New Technology Telescope (NTT). Stjörnufræðivefurinn http://www.stjornuskodun.is/alheimurinn/rannsoknir/new-technology-telescope sótt (DAGSETNING)