Paranal stjörnustöðin
Samtök: | European Southern Observatory |
Staðsetning: |
Cerro Paranal í Chile |
Hæð: |
2.635 m.y.s. |
Heimasíða: |
Very Large Telescop |
Paranal stjörnustöðin er ein þriggja stjörnuathuganastöðva sem European Southern Observatory (ESO) starfrækir í Atacamaeyðimörkinni í Chile. Stjörnustöðin er staðsett á Cerro Paranal, 2.635 metra háu fjalli um 120 km suður af borginni Antofagasta og 14 km frá strönd Kyrrhafsins. Very Large Telescope er stærsti sjónaukinn á Paranal en hann samanstendur af fjórum 8,2 metra breiðum sjónaukum. Sjónaukarnir geta starfað saman sem ein heild og mynda þá víxlmæli, VLTI eða Very Large Telescope Interferometer. Auk þess eru fjórir 1,8 metra hjálparsjónaukar notaðir í víxlmælinn ef einhver stóru sjónaukanna fjögurra er í notkun í öðrum verkefnum.
Á Paranal eru líka tveir kortlagningarsjónaukar VLT Survey Telescope (VST) og VISTA.
Sjónaukar
Very Large Telescope (VLT)
Sjá nánar: Very Large Telescope (VLT)
Very Large Telescope (VLT) sjónaukinn er flaggskip evrópskra stjarnvísinda. VLT eru fullkomnustu sjónaukar á jörðinni. Þeir samanstanda af fjórum stórum sjónaukum með 8,2 metra spegilþvermál auk fjögurra færanlegra 1,8 metra breiðra hjálparsjónauka. Hægt er að tengja tvo eða fleiri sjónauka saman og mynda þannig risavaxinn víxlmæli.
VISTA kortlagningarsjónaukinn
Sjá nánar: VISTA
VISTA (Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy) er innrauður kortlagningarsjónauki með 4,1 metra safnspegil og mjög vítt sjónsvið. Er hann því langstærsti sjónauki heims sem tileinkaður er kortlagningu himins á nær-innrauðum bylgjulengdum. Sjónaukinn var þróaður og smíðaður í Bretlandi og var hluti af framlagi Breta við inngönguna í ESO.
VLT Survey Telescope (VST)
Sjá nánar: VLT Survey Telescope
VST er 2,4 metra sjónauki í hæsta gæðaflokki. Á honum er OmegaCAM, 268 megapixla CCD-myndavél með fjórfalt víðara sjónsvið en sem nemur flatarmáli fulls tungls á himinhvolfinu. VST kortleggur himininn í sýnilegu ljósi og er þess vegna góð viðbót við VISTA. Sjónaukinn er afrakstur samstarfs ESO og Capadimonte Astronomical Observatory (OAC) í Napólí sem er rannsóknarmiðstöð Ítölsku stjarneðlisfræðistofnunarinnar (INAF: Italian Institute for Astrophysics). VST var tekinn í notkun í Paranal-stjörnustöðinni árið 2011.
Myndasafn
Paranal stjörnustöðin og eldfjallið LlullaillacoGlæsileg loftmynd af Very Large Telescope (VLT) ESO á Cerro Paranal í Chile. Stjörnustöðin er í 2.600 metra hæð yfir sjávarmáli á einum besta stað heims til rannsókna í stjarnvísindum, Í bakgrunni sést snæviþakinn 6.720 metra hár tindur eldfjallsins Llullaillaco í 190 km fjarlægð. Myndin sýnir vel framúrskarandi gæði loftsins á þessum stað. Mynd: ESO/G.Hüdepohl |
||
Brú milli sjónauka og vetrarbrautaLangt inni í Atacamaeyðimörk Chile, fjarri öllum borgarljósum og öðrum truflunum frá mannfólkinu, er kyrrlátur stjörnuhiminn sem á fáa sína líka í heiminum. Hér er Very Large Telescope European Southern Observatory staðsettur, fullkomnasta stjörnustöð heims. Á þessari fallegu panoramamynd sjást Stóra- og Litla-Magellanskýið — fylgivetrarbrautir okkar eigin vetrarbrautar — vinstra megin og einn VLT sjónaukanna hægra megin. Vetrarbrautarslæðan brúar bilið milli þeirra. Hverja nótt rýna stjörnufræðingar ESO upp í þenna ægifagra himin og reyna að átta sig á leyndardómum hans. Myndina tók Hvít-Rússinn Yuri Beletsky. Hann er stjörnufræðingur sem starfar í Chile en nýtir frítímann til að sinna áhugamáli sínu sem er að ljósmynda himininn yfir Atacamaeyðimörkinni. Þannig deilir hann fegurðinni með öðrum. Mynd: ESO/Y. Beletsky (potw1114a) |
||
Sólsetur og fullt tungl yfir Very Large Telescope ESOÞann 19. mars var fullt tungl á sama tíma og það var næst jörðu á sporöskjulaga braut sinni (í jarðnánd). Það olli því að tunglið var aðeins stærra og bjartara en venjulega. Þessa fallegu panoramamynd tók Gerd Hüdepohl, ljósmyndari ESO, af þessu óvenjulega fulla tungli frá Cerro Paranal þar sem Very Large Telescope (VLT) ESO er staðsettur. Tunglið rís í austri, hægra megin, yfir fjöllin á meðan sólin sest undir skýin yfir Kyrrahafinu í vestri vinstra megin á myndinni. Síðustu geislar hennar lýsa upp risasjónaukana fjóra, VLT Survey Telescope og fjóra hjálparsjónauka VLT en líka starfsfólk Paranal sem fylgist með sólsetrinu og tunglrisinu af fjallstoppnum. Mynd: G. Hüdepohl/ESO (potw1112a) |
||
Samstaða reikistjarna yfir ParanalMorguninn 1. maí 2011, um það bil klukkustund fyrir sólarupprás, sáust fimm af átta reikistjörnum sólkerfisins auk tunglsins frá Paranal, þær Merkúríus, Venus, Mars og Júpíter. Á myndinni lýsir sólin, sem er rétt fyrir neðan sjóndeildarhringinn, upp tunglið sem er minnkandi en endurvarp frá jörðinni lýsir upp myrka hlutann. Venus er hæst á himni, björtust reikistjarnanna en Merkúríus undir og til hægri. Júpíter er beint fyrir neðan Venus en miklu nær sjóndeildarhringnum. Mars er þar rétt fyrir neðan, vinstra megin við Júpíter. Fimmta reikistjarnan er svo að sjálfsögðu jörðin, sjálfur útsýnisstaðurinn Á myndinni sjást líka nokkrir fjallstindar í Atacamaeyðimörkinni, einum þurrasta stað jarðar. Þrír af 1,8 metra hjálparsjónaukum Very Large Telescope ESO eru í forgrunni. Hægra megin við hjálparsjónaukann lengst til vinstri er Cerro Armazones þar sem hinn fyrirhugaði European Extremely Large Telescope (E-ELT). Armazones er um 20 km frá Paranal. Milli hjálparsjónaukanna til hægri er eldfjallið Llullaillaco við landamæri Chile og Argentínu, um 190 km í burtu. Sú staðreynd að sjá má þetta fjarlæga fjall svo skýrt og greinilega er til marks um þær frábæru aðstæður til stjörnuathugana sem ríkja á þessum stað. Mynd: G. Hüdepohl/ESO (potw1118a) |
||
Brot af himninumGerhard Hüdepohl, ljósmyndari ESO, tók þess fallegu 230 gráðu panoramamynd af himninum yfir Very Large Telescope (VLT) ESO. Á henni sjást stjörnuþyrpingar í hundruð ljósára fjarlægð og næsti nágranni okkar í geimnum svífandi yfir skýjaþykkinu yfir Kyrrahafinu. Rétt fyrir ofan tunglið er björt stjarna sem er í raun reikistjarnan Júpíter. Við miðja mynd, efst, er þéttur hópur stjarna, Sjöstirnið í Nautinu. Yfir sjónauka tvö frá vinstri er stjarnan Kapella og þar rétt fyrir ofan og til hægri við sjónaukann lengst hægra megin eru stjörnurnar Kastor og Pollux í Tvíburunum. Yfir skyggða hjálparsjónaukanum hægra megin er lausþyrpingin Jatan, einnig þekkt sem Býflugnabúið eða Messier 44 í Krabbamerkinu. Þar fyrir ofan er björt stjarna, Prókýon í Litlahundi. Mynd: G. Hüdepohl/ESO (potw1123a) |
||
Tunglskinið varpar skuggumGianluca Lombardi, ljósmyndari ESO, tók þessa 30 sekúndna ljósmynd af sjálfum sér við Very Large Telescope (VLT) ESO á Cerro Paranal sem er 2.600 metra hátt fjall í Atacamaeyðimörkinni í Chile, einum þurrasta stað jarðar. Aðstæður á Paranal eru svo framúrskarandi að á heiðskírri tunglskinslausri nóttu varpar sjálf vetrarbrautarslæðan skuggum. Á þessari mynd er tunglið hins vegar á lofti, lýsir upp umhverfið og varpar skuggum. Tunglið er við það að síga á bak við VLT sjónauka fjögur sem nefnist Yepun. Hinir þrír nefnast Antu, Kueyen og Melipal, allt nöfn sem tengjast fyrirbærum himins á tungumáli Mapuche sem er hópur innfæddra Chilemanna. Fyrir framan Antu, vinstra megin á myndinni, sést einn fjögurra 1,8 metra hjálparsjónauka og þekkist á hvítu hvolfþakinu. Mynd: ESO/G. Lombardi (potw1124a) |
Tengt efni
Tilvísanir
- „La Silla - Fyrsta stjörnustöð ESO“ Sótt 8.6.2011
- „WFI - Wide Field Imager “ Sótt 4.6.2011
- „GROND Takes Off “ Sótt 4.6.2011
- „Reikistjarna úr annarri vetrarbraut uppgötvuð“ Sótt 8.6.2011
Hvernig vitna skal í þessa grein
-
Sævar Helgi Bragason (2011). MPG/ESO sjónaukinn. Stjörnufræðivefurinn http://www.stjornuskodun.is/alheimurinn/rannsoknir/mpg-eso-sjonaukinn sótt (DAGSETNING)