Eta Carinae
Stjörnumerki: |
Kjölurinn |
Fjarlægð: |
7.500 ljósár |
Sýndarbirtustig: | 4,6 |
Reyndarbirtustig: |
–7 |
Litrófsgerð: |
BIae-O |
U–B litvísir: B-V litvísir: |
–0,45 0,61 |
Massi: |
120 M☉ |
Radíus: |
240 R☉ |
Ljósafl: |
5.000.000 L☉ |
Yfirborðshitastig: |
15.000 K |
1. Eiginleikar
Eta Carinae er án nokkurs vafa með stórbrotnustu stjörnum himinhvolfsins og í vetrarbrautinni okkar. Stjörnufræðingar hafa þess vegna rannsakað hana ítarlega.
Eta Carinae er meðal björtustu og massamestu stjarna sem vitað er um. Hún er líklega meira en 100 sólmassar og fimm milljón sinnum skærari en sólin okkar og um 240 sinnum breiðari en sólin. Yfirborðshitastig hennar er líklega um 15.000°C.
Stjörnur af þessu tagi eru mjög fágætar í vetrarbrautinni okkar.
Förunauturinn er heldur engin smásmíð. Hún er líklega stjarna af gerðinni O1, um 30 sólmassar og 24 sinnum breiðari en sólin. Hún er milljón sinnum bjartari en sólin okkar og um 37.000°C heit. Umferðartími hennar um stóra nágranna sinn er 5,52 ár.
2. Birtusveiflur
Eta Carinae breytir birtu sinni og er þess vegna flokkuð sem björt blá breytistjarna. Þegar Edmond Halley skrásetti stjörnuna fyrst árið 1677 var hún af fjórða birtustigi en upp úr 1730 tóku stjörnufræðingar eftir því að birta hennar hafði aukist umtalsvert og var hún orðin með björtustu stjörnum Kjalarins. Í kjölfarið dofnaði hún aftur og var orðin fremur dauf árið 1782. Árið 1820 tóku menn eftir að birtan hafði aukist á nýjan leik og sjö árum seinna hafði hún tífaldast.
Eta Carinae er líklega aðeins um þriggja milljóna ára gömul. Vegna mikils massa lifir hún stutt og er á lokastigum ævi sinnar. Hún er þess vegna mjög óstöðug. Árið 1841 varð í henni hviða sem gerði hana að næst björtustu stjörnu himins í nokkur ár. Mestri birtu náði hún í apríl árið 1843 þegar hún varð næst bjartasta stjarna næturhiminsins með birtustig –0,8. Aðeins Síríus var bjartari en hún er næstum þúsund sinnum nær jörðinni!
Milli 1900 og 1940 hafði birta stjörnunnar minnkað aftur svo mikið að hún sást ekki lengur með berum augum. Árin 1998-99 varð skyndileg birtuaukning og þegar þetta er skrifað (árið 2012) er hún sýnileg með berum augum.
3. Litli maðurinn
Eta Carinae á mynd Very Large Telescope ESO. Mynd: ESO |
Við hviðuna árið 1841 þeytti stjarnan frá sér miklu gasi og ryki — líklega tveimur til þremur sólmössum — og myndaði þoku sem kölluð er Litli maðurinn (e. Homunculus Nebula).
Í gegnum stjörnusjónauka sést að þokan er eins og hneta í laginu. Þessa lögun má rekja til tvístirnakerfisins. Þokan er að mestu úr nitri og öðrum frumefnum sem mynduðust í innviðum stjörnunnar og hún varpaði frá sér á 19. öld. Efnið þýtur út í geiminn á nokkurra milljóna km hraða á klukkustund. Í henni eru ýmsir efniskekkir, margir á stærð við sólkerfið okkar. Í kringnum þokuna er svo mun stærri hjúpur úr jónuðu vetni.
4. Endalok
Stórar stjörnur eins og Eta Carinae klára eldsneyti sitt mjög hratt. Þær lifa í aðeins fáeinar milljónir ára og springa að lokum. Eta Carinae mun líklega springa innan næstu 100.000 ára eða svo (hún gæti verið sprungin og gæti líka sprungið á morgun, við höfum ekki hugmynd um það).
Þegar Eta Carinae springur verður hún svo björt að hún mun sjást að degi til. Á næturnar mun hún varpa skuggum og hægt verður að lesa bók í birtu hennar.
Menn hafa í nokkurn tíma velt fyrir sér hvort Eta Carinae gæti gefið frá sér gammablossa. Ef strókarnir beindust í átt að jörðinni gætu þeir haft skaðleg áhrif á lofthjúpinn, til dæmis ósonlagið, eyðilagt gervitungl og jafnvel lífið á yfirborði jarðar. Þetta er hins vegar mjög fjarlægur möguleiki enda stefna snúningsásar stjörnunnar ekki að jörðinni.
5. Stjörnukort
Stjörnukort sem sýnir staðsetningu Eta Carinae á himninum er að finna hér.