Rauður dvergur
M dvergar
Rauðir dvergar framleiða orku sína hægt með kjarnasamruna vetnis í helíum í kjörnum sínum. Þeir eru lífsseigustu stjörnurnar og geta enst í nokkur hundruð milljarða ára, jafnvel lengur.
Rauðir dvergar eru þekktir fyrir mikla segulvirkni sem brýst fram í öflugum sólblossum. Blossinn getur gefið frá sér allt að 10.000 sinnum meiri röntgengeislun en sambærilegur blossi á sólinni okkar. Af þeim sökum eru margir rauðir dvergar líka flokkaðir sem blossastjörnur.
Eðliseinkenni
Rauðir dvergar telja um 80% stjarna í vetrarbrautinni okkar. Á meginröð framleiða rauðir dvergar orku í kjarna sínum samkvæmt róteindakeðjunni þar sem vetni er umbreytt í helíum hægt og rólega. Þeir gefa frá sér lítið ljós og eru þess vegna mjög daufir; jafnvel massamestu rauðu dvergarnir gefa aðeins frá sér innan við 10% af birtu sólar. Í rauðum dvergum sem eru innan við 35% af massa sólar, flyst orkan upp á yfirborðið með iðustraumum. Því lægri sem massinn er, því lengur lifir stjarnan. Rauður dvergur sem er aðeins tíu prósent af massa sólar getur lifað í 10 trilljónir ára.
Litrófsgerð |
Massi (Mo) |
Radíus (Ro) |
Ljósafl (Lo) |
Hitastig |
---|---|---|---|---|
M0V |
60% |
62% |
7,2% |
3.800 |
M1V |
49% |
49% |
3,5% |
3.600 |
M2V |
44% |
44% |
2,3% |
3.400 |
M3V |
36% |
39% |
1,5% |
3.250 |
M4V |
20% |
26% |
0,55% |
3.100 |
M5V |
14% |
20% |
0,22% |
2.800 |
M6V |
10% |
15% |
0.09% |
2.600 |
M7V |
9% |
12% |
0.05% |
2.500 |
M8V |
8% |
11% |
0.03% |
2.400 |
M9V |
7,5% |
8% |
0.015% |
2.300 |
Reikistjörnur
Vitað er um fjölda fjarreikistjarna á braut um rauða dverga. Árið 2012 var tilkynnt um niðurstöður HARPS litrófsritans á 3,6 metra sjónauka ESO á La Silla í Chile sem sýna að bergreikistjörnur, örlítið stærri en jörðin, svonefndar risajarðir, eru mjög algengar í lífbeltum rauðra dverga. Stjörnufræðingarnir sem stóðu að rannsókninni áætla að í vetrarbrautinni okkar séu tugir milljarða reikistjarna af þessu tagi og líklega eitt hundrað í næsta nágrenni sólar. Niðurstöðurnar þýða að 40% allra rauðra dverga hafa risajarðir í lífbeltum sínum.
Á hinn bóginn eru massamiklar reikistjörnur sem líkjast Júpíter og Satúrnusi í sólkerfinu okkar, sjaldgæfar í kringum rauða dverga. Líklega hafa innan við 12% rauðra dverga risareikistjörnur sem eru milli 100 og 1000 sinnum massameiri en jörðin.
Rannsóknin náði yfir sex ára tímabil. Ein þeirra reikistjarna sem fannst í rannsókninni er Gliese 667 Cc. Hún er önnur reikistjarnan sem finnst í þessu þrístirnakerfi og virðist við miðju lífbeltisins. Hún er fjórum sinnum þyngri en jörðin en líkist jörðinni mest af þeim reikistjörnum sem fundist hafa hingað til (apríl 2012). Á henni eru næstum örugglega réttar aðstæður fyrir fljótandi vatn á yfirborðinu.
Að minnsta kosti sex fjarreikistjörnur hafa fundist á braut um rauða dverginn Gliese 581. Ein þeirra er álíka massamikil og Júpíter eða sextán jarðmassar. Hún er aðeins 6 milljónir km frá móðurstjörnunni en hitastigið í lofthjúpnum er áætlað um +150 gráður á Celsíus. Á sitthvorum enda lífbeltisins eru tvær aðrar reikistjörnur, báðar rúmlega fimm sinnum massameiri en jörðin. Á heitari endanum (þar sem Venus væri hjá okkur) er Gliese 581 c en á kaldari endanum (þar sem Mars er hjá okkur) er Gliese 581 d.
Erfitt er að segja til um hve lífvænlegar reikistjörnurnar eru, jafnvel þótt þær séu í lífbeltum rauðu dvergana. Rauðir dvergar eru þekktir fyrir öflug sólgos og sólblossa sem gætu baðað hnetti í útfjólubláu ljós og röntgengeislun. Vegna nálægðar lífbletanna við rauðu dvergana gæti þetta gert mögulegu lífi erfiðara fyrir.
Tengt efni
Heimildir
- ESO.org: Astronomers Find First Earth-like Planet in Habitable Zone.
- ESO.org: Milljarðar bergreikistjarna í lífbeltum rauðra dverga í vetrarbrautinni okkar.
- Red Dwarf - en.wikipedia.org/wiki/Red_dwarf
Hvernig á að vitna í þessa grein?
-
Sævar Helgi Bragason (2012). Rauður dvergur. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornufraedi.is/alheimurinn/stjornur/raudur-dvergur sótt (DAGSETNING)