Grenndarhópurinn
Í grenndarhópnum eru þrjár stórar þyrilvetrarbrautir: Andrómeduvetrarbrautin, Vetrarbrautin okkar og Þríhyrningsvetrarbrautin (í stærðarröð). Í kringum Vetrarbrautina okkar sveimar rúmur tugur lítilla fylgivetrarbrauta. Þeirra á meðal eru tvær nokkuð stórar sem nefnast Stóra Magellanskýið og Litla Magellanskýið. Þessar óreglulegu vetrarbrautir eru sjáanlegar með berum augum frá suðurhveli jarðar sem daufir en nokkuð áberandi skýjahnoðrar.
Andrómeduvetrarbrautin er stærsta vetrarbraut grenndarhópsins. Hún er þyrilvetrarbraut af gerð Sb og nokkru massameiri en Vetrarbrautin okkar. Hún er í um 2,5 milljón ljósára fjarlægð frá okkur og rétt sýnilega með berum augum á norðurhveli himins. Í kringum Andrómeduvetrarbrautina sveima tvær litlar sporvölur, M32 og M110.
Eftir á að giska 5 milljarða ára verður árekstur milli Vetrarbrautarinnar okkar og Andrómeduvetrarbrautarinnar.
Þríhyrningsvetrarbrautin er þriðja stærsta vetrarbraut grenndarhópsins. Hún er í um 3 milljón ljósára fjarlægð frá Vetrarbrautinni okkar. Fremur auðvelt er að greina þríhyrningsvetrarbrautina í stjörnusjónauka, en yfirborðsbirta hennar er fremur lítil.
Dvergvölur eru í miklum meirihluta vetrarbrauta í grenndarhópnum. Vegna þess hve þær eru litlar og daufar er afar erfitt að greina þær svo heildarfjöldi þeirra liggur ekki fullkomlega ljós fyrir.
Tengt efni