M31 - Andrómeduvetrarbrautin
Tegund: | Þyrilvetrarbraut |
Stjörnulengd: |
00klst 42mín 44,3sek |
Stjörnubreidd: |
+41° 16′ 9″ |
Fjarlægð: |
2,54 milljón ljósár (778 kílóparsek) |
Rauðvik: |
-301 km/s ± 1 km/s |
Sýndarbirtustig: |
+4,4 |
Hornstærð: |
190x60 bogamínútur |
Stjörnumerki: | Andrómeda |
Önnur skráarnöfn: |
NGC 224, UGC 454 |
Andrómeduvetrarbrautin svipar að mörgu leyti til Vetrarbrautarinnar okkar. Þær eru báðar þyrilvetrarbrautir og eru í laginu eins og þykk pönnukaka með vínberi í miðjunni (kjarni vetrarbrautarinnar). Andrómeduvetrarbrautin er með um 1000 milljarða sólstjarna sem er miklu meira en þeir 400 milljarðar sólstjarna sem talið er að sé að finna í Vetrarbrautinni okkar. Á móti kemur að Vetrarbrautin okkar er talin búa yfir mun meira af svonefndu hulduefni sem gerir það að verkum að hún hefur meiri heildarmassa.
Á stjörnuhimninum
Andrómeduvetrarbrautin sést með berum augum sem daufur þokublettur á himninum fyrir neðan Kassíópeiu þar sem ljósmengun spillir ekki. Sýndarbirtustig vetrarbrautarinnar er +4,4 sem þýðir að hún er vel greinanleg en við mjög góðar aðstæður má sjá dauf fyrirbæri sem eru með birtustigið +6 eða meira. Það er einungis kjarni Andrómeduvetrarbrautarinnar sem er nógu bjartur til þess að sjást með berum augum en vetrarbrautin er svo nálægt okkur að ef við sæjum hana alla þá myndi hún spanna svæði sem er nokkrum sinnum stærra en fullt tungl á himninum!
Auðveldasta leiðin til þess að finna Andrómeduvetrarbrautina er að fylgja eftirfarandi skrefum:
-
Finna stjörnumerkið Kassíópeiu á himninum. Kassíópeia er í laginu eins og stafurinn W og því auðþekkjanleg. Hún er einnig það norðarlega á himninum að hún sest ekki (er pólhverf) sem þýðir að það er alltaf hægt að finna hana á himninum þar sem vítt er til allra átta. Við góðar aðstæður utan þéttbýlissvæði má sjá aragrúa af stjörnum á himninum. Til þess að finna Kassíópeiu innan um allan þennan stjörnuskara er gott að píra augun svo aðeins björtustu stjörnurnar sjáist. Þá ætti stjörnur Kassíópeiu að skera sig úr fjöldanum.
-
Finna stjörnumerkið Andrómedu á himninum. Fjórar björtustu stjörnurnar í Andrómedu mynda bogadregna línu á svæðinu fyrir neðan Kassíópeiu. Stjarnan sem er lengst frá Kassíópeiu er eiginlega „samnýtt“ með vængfáknum Pegasusi því hún myndar eitt af hornunum í ferningnum sem er uppistaðan í Pegasusi.
-
Finna stjörnuna Mirach sem er önnur stjarnan að ofan og „stjörnuhoppa“ upp frá henni. Fyrir ofan stjörnuna Mirach (birtustig +2,1) er fyrst stjarnan μ (muj) en aðeins lengra er að finna stjörnuna ν (nuj) sem er ívið daufari (μ er með birtustig +3,9 en ν með birtustig +4,5). Út frá μ má sjá daufan þokublett og þar með er kjarni Andrómeduvetrarbrautarinnar kominn í leitirnar!
Eitt atriði til viðbótar: Auðveldast er að finna kjarnann með því að horfa á stjörnuna ν (nuj) og nota „jaðarsjón“ til þess að sjá þokublettinn til hliðar við stjörnuna.
Stjörnuáhugamenn nota oft jaðarsjón til þess að sjá dauf fyrirbæri. Þegar við horfum beint á fyrirbæri þá notum við skynfrumur í miðjum augnbotninum sem nefnast keilur. Með þeim er hægt að sjá liti þegar bjart er úti. Keilurnar eru hins vegar ekki sérlega næmar í myrkri. Önnur tegund augnfruma sem nefnast stafir gagnast hins vegar best í myrkri. Þá er að finna umhverfis keilurnar í augnbotninum. Með stöfunum getum við ekki séð liti en þeir eru aftur á móti ljósnæmir. Galdurinn við jaðarsjón er að horfa til hliðar við fyrirbærið sem á að skoða. Í þessu tilfelli fellur ljósið frá stjörnunni ν (nuj) á miðjan augnbotninn þar sem keilurnar er að finna. Ljósið frá Andrómeduvetrarbrautinni sem er til hliðar við stjörnuna fellur aftur á móti á ljósnæmu augnfrumurnar (stafina) sem eru út frá keilunum í augnbotninum. Með þessu aukum við líkurnar á að sjá þokukenndan kjarna vetrarbrautarinnar.
Grenndarhópurinn
Sjá nánar: Grenndarhópurinn
Í næsta nágrenni við okkur í geimnum hafa fundist um 40 vetrarbrautir. Andrómeduvetrarbrautin og Vetrarbrautin okkar eru stærstu vetrarbrautirnar í hópnum en þar á eftir kemur Þríhyrningsvetrarbrautin (Messier 33) sem er að finna í stjörnumerkinu Þríhyrningnum. Meginhluti þessara 40 vetrarbrauta er hins vegar litlar fylgivetrabrautir sem sveima umhverfis stóru vetrarbrautirnar á svipaðan hátt og flugur sveima í kringum hausinn okkar á góðviðrisdegi. Tvær fylgivetrarbrautir Andrómeduvetrarbrautarinnar eru það stórar að þær rötuðu í skrá Messier yfir fyrirbæri á himinhvelfingunni. Önnur þeirra gengur undir heitinu Messier 32 en hin er nefnd Messier 110. Á sama hátt eru tvær fylgivetrarbrautir Vetrarbrautarinnar okkar áberandi stærstar en það eru Stóra- og Litla-Magellanskýið.
Stæstu fylgivetrarbrautir Andrómeduvetrarbrautarinnar, Messier 32 og Messier 110, eru of daufar til þess að sjást með berum augum. Aftur á móti má sjá þær sem daufa flekki í meðalstórum sjónauka (4-5" eða stærri) við góðar aðstæður. Messier 32 er minni um sig og bjartari og er því auðveldara að koma auga á hana. Hún er einnig nær kjarna Andrómeduvetrarbrautarinnar. Messier 110 er aftur á móti stærri um sig og daufari. Hún er eitt af þeim sjö fyrirbærum sem var bætt við skrá Messier eftir dauða hans árið 1817.
Risaárekstur framundan
Stjörnufræðingar spá því að Andrómeduvetrarbrautin og Vetrarbrautin okkar muni lenda í árekstri eftir rúmlega fjóra milljarða ára. Þegar vetrarbrautirnar renna saman munu þær trúlega mynda stóra sporvöluvetrarbraut (í laginu eins og egg eða kúla). Við þurfum væntanlega litlar áhyggjur að hafa af þessum árekstri. Þegar að honum kemur mun trúlega vera orðið svo heitt við yfirborð jarðar að vatn hefur gufað upp og jörðin verður því ekki eins ákjósanlegur dvalarstaður og hún er í dag.
Þessu til viðbótar eru hverfandi líkur á því að sólin okkar rekist á aðra stjörnu. Geimurinn er gríðarstór og miklar vegalengdir á milli stjarnanna. Nálægasta stjarnan við sólina okkar nefnist Alfa í Mannfáknum (Alfa Kentár). Hún er þrístirni í um 4,2 ljósára fjarlægð (minnsta stjarnan, Proxima, er næst okkur). Ef við hugsum okkur að sólin okkar sé á stærð við körfubolta í miðbæ Reykjavíkur þá myndi Alfa í Mannfáknum vera tveir körfuboltar og einn tennisbolti í mörg þúsund km fjarlægð á Indlandi eða í Mexíkó!
Hér er tölvugert myndskeið af árekstri Vetrarbrautarinnar okkar og Andrómeduvetrarbrautarinnar. Sjónarhornið er valið þannig að við horfum alltaf í átt að miðju Vetrarbrautarinnar okkar og er öllum himninum varpað á sporöskjulaga kort. Hafa ber í huga að þarna er farið býsna hratt yfir sögu því það tekur vetrarbrautirnar nokkur hundruð milljón ár að sameinast!