Dagbók stjörnufræðikennara – Kennsluvika 2 – haust 2013

Um dagbókina

Hér er sagt frá einni kennsluviku í stjörnufræði við Menntaskólann í Reykjavík veturinn 2013-2014.


Stjörnukort fyrir Ísland

Ég dreifði og sýndi hvernig á að nota Stjörnukort mánaðarins og Stjörnukort fjölskyldunnar.

Stjörnuskífan á Stjörnukorti mánaðarins sýnir alla himinhvelfinguna. Flóknasta atriðið varðandi að notkun á stjörnuskífunni er að þegar horft er í suður þá á „horft í suður“ að snúa niður á jaðri skífunnar (þegar horft er í norður á að láta „horft í norður“ snúa niður o.s.frv.).


Hreyfing fyrirbæra á himninum

Sýndi í Stellarium hvernig fyrirbæri rísa á austurhimni (sólin, tunglið, ýmsar stjörnur/reikistjörnur) og setjast á vesturhimni. Sum stjörnumerki eru pólhverf s.s. Stóribjörn og Litlibjörn. Pólstjarnan í rófu Litlabjarnar er beint yfir norðurpólnum (snúningsás jarðarinnar). Hún virðist kyrr á himninum en aðrar stjörnur færast í kringum hana.


Kynning á stærð og aldri alheimsins

Ég sýndi myndband þar sem farið er út í alheiminn og aftur til baka. Sýndi einnig myndband um stærðir stjarna og stærstu stjörnuna sem vitað er um (VY í stjörnumerkinu Stórahundi).

Í umfjölllun um sögu alheimsins þá sýndi ég glærur um hvernig hægt er að hugsa sér sögu alheimsins á einu ári og hvernig hægt er að hugsa sér söguna sem ferðalag á hringveginum umhverfis Ísland.


Verkefni um stjörnufræðiforrit og leit á netinu

Hafði eina kennslustund hjá hverjum bekk í tölvuveri þar sem nemendur unnu verkefni í stjörnufræðiforritunum Stellarium og AstroViewer. Seinni hluti verkefnisins snerist um að æfa nemendur í að leita að upplýsingum um stjörnfræði á netinu. Tilgangurinn með verkefninu var að æfa nemendur í að vinna sjálfstætt og að notfæra sér stjörnufræðiforritin Stellarium og AstroViewer sem eru bæði ókeypis og á íslensku.

Helstu efnisatriði í verkefninu voru eftirfarandi:

  • Stellarium stjörnufræðiforritið (íslensk vefsíða; erlend vefsíða)

  • AstroViewer stjörnufræðiforritið (vefsíða)

  • Ábendingar um hvernig hægt er að bæta leit á Google og leita innan ákveðinna léna

  • Íslenskar þýðingar á fræðiorðum – íðorðasafn á vef Árnastofnunar (vefsíða)

  • Stjörnufræðimynd dagsins - Astronomy Picture of the Day (vefsíða)