Dagbók stjörnufræðikennara – Kennsluvika 2 – vor 2014
Um dagbókina
Hér er sagt frá einni kennsluviku í stjörnufræði við Menntaskólann í Reykjavík veturinn 2013-2014.
IMAX-mynd og umfjöllun um Alþjóðlegu geimstöðina
Ég sýndi IMAX-mynd um smíði Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Nemendum finnst alltaf jafngaman að sjá geimfara svífa um í þyngdarleysi og kynnast því hvernig lífið er úti í geimnum. Í upphafi vetrar áður en ég sýndi IMAX-myndina um Hubblesjónaukann þá spurði ég nemendur út í það af hverju geimfararnir svífa um í þyngdarleysi. Ýmsar hugmyndir komu fram en ég benti þeim m.a. á að þyngdarkrafturinn frá jörðinni er nánast sá sami í 350 km hæð eins og hann er við yfirborð jarðar (fjarlægðin frá miðju jarðar er í báðum tilfellum um 6.500 km).
Hér að neðan eru tvö skemmtileg myndbönd úr Alþjóðlegu geimstöðinni:
-
Nokkur myndskeið sem hafa verið tekin úr Alþjóðlegu geimstöðinni (ég sýndi fáein myndskeið í kennsluviku 14 á haustönn)
Mars
Ég fræddi nemendur um reikistjörnuna Mars og reyndi að flétta uppgötvanir Marsjeppa og geimfara inn í fyrirlesturinn. Ég sýndi nemendum nýlegar vefsíður með uppgötvunum nýja Curiosity jeppans á rauðu reikistjörnunni (eru ekki í glærusýningunni). Ég hefði samt getað varið miklu meiri tíma í að fjalla um Mars því af nógu er að taka!
Loftsteinar
Ég flutti fyrirlestur um loftsteina og kom með nokkra loftsteina sem ég og Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness eigum.