Dagbók stjörnufræðikennara – Kennsluvika 3 – haust 2013
Um dagbókina
Hér er sagt frá einni kennsluviku í stjörnufræði við Menntaskólann í Reykjavík veturinn 2013-2014.
Tími í tölvustofu: Undirbúningur undir örfyrirlestra um stjörnumerki
Ég hafði eina kennslustund í tölvustofunni svo nemendur gætu undirbúið örfyrirlestur um stjörnumerki sem þeir halda fyrir jól. Kosturinn við að nemendur fái tölvutíma í skólanum er að þeir geta spurt kennara út í atriði (efni og erlendur texti getur verið framandi fyrir byrjendur í stjörnufræði). Einnig eru þeir þá byrjaðir að á verkinu sem vonandi skilar betri fyrirlestri. Sumir komust bara býsna langt við að undirbúa glærusýningu og fyrirlestur í einni kennslustund.
-
Listi yfir stjörnumerki fyrir örfyrirlestra haustið 2013 (og efni hjá sama nemanda eftir jól - stundum úr sama stjörnumerki)
-
Verkefnablað fyrir tíma í tölvustofu fyrir undirbúning örfyrirlestra um stjörnumerki haustið 2013
Cosmos þættirnir
Sýndi Cosmos þætti með Carl Sagan hjá tveimur bekkjum (einn þáttur tekur hátt í 2 kennslustundir). Þættirnir eru með hægara tempó en tíðkast núna. Þótt þeir séu frá því í kringum 1980 þá standast þeir að mörgu leyti vel tímans tönn.
Hoppaði yfir rólegan kafla um miðbik þáttarins því nemendur voru farnir að dotta. Ekkert að því.
Nú er verið að undirbúa nýja Cosmos þætti með Neil de Grasse Tyson sem verða eflaust fróðlegir.