Apollo 1

Næstum sex ár voru liðin frá því að John F. Kennedy setti þjóð sinni það markmið að lenda manni á tunglinu fyrir lok áratugarins, þegar Gus Grissom, Ed White og Roger Chaffee settust inn í Apollo-geimfarið sitt í hádeginu föstudaginn 27. janúar 1967. Tilgangurinn var ekki að fara út í geiminn, heldur að gera hefðbundnar prófanir fyrir fyrstu mönnuðu geimferð Apollo verkefnisins sem yrði þremur vikum síðar. Apollo 1 var frumgerð geimfarsins sem átti að ferja menn alla leið frá jörðinni til tunglsins.

http://www.liveleak.com/view?i=aa1_1345878049 [3:29-3:54]

1. Áhöfn

Gus Grissom var leiðangursstjóri Apollo 1 og einn reyndasti geimfari NASA, enda farið tvisvar áður út í geiminn. Grissom var lágvaxinn en kraftmikill og einstaklega kappsamur og metnaðarfullur. Hann flaug orrustuþotum í Kóreustríðinu og var einn af fyrstu sjö Mercury geimförum NASA. Grissom var ekki beinlínis opinn maður svo erfitt gat verið að kynnast honum. Hann dýrkaði starf sitt sem geimfari en þoldi ekki athyglina sem því fylgdi.

Fyrsta geimferð Grissoms endaði næstum með ósköpum. Þegar Mercury geimfar hans, Liberty Bell 7, lenti á Atlantshafi árið 1961 eftir fimmtán mínútna ferðalag, sprakk lúga geimfarsins skyndilega af svo sjór flæddi inn. Á endanum sökk geimfarið og var Grissom sjálfur næstum drukknaður. Til að koma í veg fyrir að þetta endurtæki sig, ákvað NASA að láta lúgu Apollo geimfarsins opnast inn á við.

Grissom hélt því ætíð fram að lúgan hefði skotist af af sjálfu sér. Flestir félagar hans trúðu honum en fjölmiðlar og sumir yfirmenn hjá NASA efuðustu um það. Það gerði Grissom öskureiðan en á sama tíma var hann staðráðinn í að sanna sig. Árið 1965 stýrði hann fyrstu mönnuðu geimferð Gemini verkefnisins. Þótt Grissom væri alvörugefinn var alltaf stutt í húmorinn hjá honum. Hann ákvað að stríða NASA með því að kalla Gemini farið sitt Molly Brown eftir söngleiknum — Hin ósökkvandi Molly Brown — sem byggði á ævi konu sem lifði af Titanic slysið. NASA var ekki hrifið en Grissom stakk líka upp á að kalla geimfarið Titanic sem þótti enn verra.

Grissom var orðinn 39 ára og hafði í rúmt ár hjálpað til við þróun Apollo geimfarsins sem hann átti nú að stýra í jómfrúarferðinni á braut um jörðina. Metnaður Grissoms náði þó mun lengra. Hann ætlaði sér að verða fyrsti maðurinn til að ganga á tunglinu og þótti mjög líklegur til þess.

Í miðjusæti geimfarsins sat Ed White. White var 35 ára gamall og tilheyrði öðrum geimfarahópnum sem NASA valdi árið 1962. Segja má að White hafi verið táknmynd hinnar bandarísku hetju. Hann fæddist í San Antonio í Texas og var skátastrákur sem gekk síðan í West Point herskólann og svo í flugherinn. Árið 1959 útskrifaðist hann með meistaragráðu flugverkfræði, þá orðinn tveggja barna faðir.

White var íþróttamannslega vaxinn og missti raunar naumlega af því að keppa fyrir Bandaríkin í grindarhlaupi á Ólympíuleikum. Þann 3. júní árið 1965 varð hann þjóðhetja þegar hann fór fyrstur Bandaríkjamanna í geimgöngu í leiðangri Gemini 4. White naut þess svo að svífa um í geimnum að hann lýsti því sem sorglegasta augnabliki lífs síns þegar honum var skipað að fara aftur inn í geimfarið.

Roger Chaffee var nýliðinn í hópnum og yngstur þremenninganna, aðeins 31 árs. Chaffee var mjög metnaðarfullur en hlédrægur og ákaflega stoltur af því, að taka þátt í geimferðaævintýrinu. Líkt og Ed White var Chaffee mjög þjóðrækinn og skammaðist sín ekkert fyrir það.

Chaffee fæddist í Michigan og fór í sína fyrstu flugferð sjö ára gamall. Flugferðin var stutt en eftir hana var Roger litli staðráðinn í að verða flugmaður. Hann lék sér að því, að setja saman flugvélamódel og hengdi þau upp í herberginu sínu. Á unglingsárunum heillaðist hann af vísindum og verkfræði, sér í lagi eftir að hann eignaðist fyrstu bílana sína. Hann gat varið heilu og hálfu dögunum undir húddinu við að hreinsa og stilla vélina þar til hún starfaði eins og hann vildi.

Chaffee skráði sig í flugverkfræði við Purdue háskóla árið 1954 og hóf ári síðar að læra flug. Á þeim tíma fór hann með miklum semingi á blint stefnumót en þegar hann sá hvað stúlkan var aðlaðandi, varð hann töluvert áhugasamari. Stúlkan hét Martha Horn og felldu þau hugi saman, giftust stuttu síðar og eignuðust tvö börn.

Eftir útskrift úr háskóla árið 1957 gekk Chaffee í sjóherinn. Sex árum síðar gekk hann til liðs við NASA, einn fjórtán nýrra geimfara í þriðja geimfarahópnum. Chaffee var ákaflega stoltur að hafa orðið fyrir valinu, ekki bara vegna ævintýranna sem biðu hans, heldur var hann að gera eitthvað mikilvægt fyrir landið sitt.

Fjarskipti og siglingafræði voru sérsvið Chaffees. Þegar hann hóf störf hjá NASA, fékk hann strax það hlutverk að hjálpa til við þróun á fjarskiptakerfum Apollo geimfarsins.

Í júlí 1965 var Chaffee í stjórnstöðinni þegar Gemini 4 leiðangurinn stóð yfir, en það var einmitt þá sem Ed White fór fyrstur Bandaríkjamanna í geimgöngu. Á staðnum var líka Gus Grissom, sem stýrði samskiptunum milli jarðar og geimfarsins. Grissom tók vel eftir ástríðunni og vinnuseminni sem bjó í Chaffee og það átti eftir að reynast Chaffee mikilvægt.

Chaffee hafði smitandi áhuga á Apollo verkefninu. Hann fékk alla þá sem hann hitti og unnu að því, til að leggja enn harðar að sér. Þegar hann heimsótti Grumman fyrirtækið, sem vann að þróun tunglferjunnar, vildi hann hitta alla verkfræðingana þar, taka í höndina á þeim og þakka persónulega fyrir þeirra framlag, jafnvel þótt þar ynnu nokkur þúsund manns. Og það gerði hann.

Þann 25. mars árið 1966 kynnti NASA þá sex geimfara sem mynduðu aðal- og varáhafnir fyrstu mönnuðu geimferðar Apollo verkefnisins, sem síðar var gefið nafnið Apollo eitt. Chaffee fékk sæti í aðaláhöfninni ásamt Gus Grissom og Ed White en hann var þá yngsti Bandaríkjamaðurinn til að vera valinn í geimferð.

Chaffee fékk reyndar sæti í aðaláhöfninni fyrir slysni. Upphaflega - átti annar nýliði, Donn Eisele að nafni, að vera í aðaláhöfninni með Grissom og White, en örfáum dögum áður en geimfararnir voru kynntir, fór Eisele úr axlarlið og varð að fara í aðgerð til að lagfæra það. Hann yrði því frá í nokkra mánuði, svo NASA ákvað að færa Eisele í varaáhöfnina með þeim Wally Schirra og Walt Cunningham, en Chaffee kom í stað Eiesles.

Chaffee hafði verið í geimfaraþjálfun í meira en tvö og hálft ár þegar hann fékk loks sæti í geimferð. Árið 1965 kom hann meðal annars til Íslands ásamt nokkrum öðrum geimförum til æfinga í Öskju fyrir væntanlegar tunglferðir.

2. Undirbúningur

Fjórum mánuðum eftir að áhöfn Apollo eitt var kynnt, var ómannaðari Satúrnus IB eldflaug skotið á loft. Satúrnus IB var nokkurs konar litla systir Satúrnus 5 tunglflaugarinnar. Hún var tveggja þrepa eldflaug, næstum helmingi styttri en systurflaugin stóra en fær um að ferja rúm tuttugu tonn á braut um jörðu. Geimskotið heppnaðist fullkomlega svo NASA ákvað að næsta geimskot Satúrnus IB, skyldi vera mönnuð prófun á nýja Apollo geimfarinu, sem þá var í smíðum hjá North American Aviation í Kaliforníu.

Leiðangur Grissoms, Whites og Chaffees var opinn, það er að segja, ef allt gengi upp fengju geimfararnir að dvelja á braut um jörðina í allt að tvær vikur. Grissom var annálaður fullkomnunarsinni og sagðist á einum blaðamannafundi, að hann væri staðráðinn í hámarka gagnsemi leiðangursins með því að dvelja alla fjórtán dagana í geimnum.

Apollo geimfarið sem Grissom átti að stýra var frumgerð, hannað fyrir ómannaðar og mannaðar tilraunaferðir. Þetta var í grunninn sama geimfar og átti að flytja menn frá jörðinni til tunglsins.

Í desember 1966 var tilkynnt að geimskot Apollo fyrsta væri fyrirhugað þann 21. febrúar 1967. Mánuðina á undan hafði Grissom hjálpað til við að undirbúa geimfarið fyrir leiðangurinn. Hann var mjög ósáttur við það hvernig hlutirnir gengu fyrir sig, því þegar vandamál komu upp og hann lagði til lausnir, sem byggðu á reynslu hans af Mercury og Gemini, virtist enginn hlusta. Vandamál komu stöðugt upp og til að leggja áherslu á gremju sína, hengdi Grissom sítrónu á herminn sem geimfararnir æfðu sig í. Fleiri geimfarar voru sama sinnis. Sumir höfðu enga trú á að Apollo geimfarið kæmist yfirhöfuð til tunglsins.

Þegar mynd var tekin af áhöfninni, ákváðu geimfararnir þrír að stríða stjórnendum NASA og North American Aviation með því að sitja fyrir með spenntar greipar, fyrir framan lítið líkan af Apollo geimfarinu. Myndina sendu þeir til nokkurra vel valdra manna með þeim skilaboðum að þeir hefðu trú á þeim, en að í þetta sinn hefðu þeir ákveðið að leita til æðri máttarvalda.

Þrátt fyrir pirringinn þrýsti Grissom á að Apollo 1 yrði skotið á loft á réttum tíma. Á fréttamannafundum voru geimfararnir spurðir hvort þeir hefðu áhyggjur af öllum vandamálunum sem plöguðu Apollo geimfarið. Chaffee gerði lítið úr vandræðunum og sagði að allt liti vel út. „Ég tel okkur búa yfir fyrsta flokks geimfari. Ég hef búið í því og sofið. Við þekkjum hvern krók og kima í því. Við gætum sagt að við þekktum geimfarið jafn vel og heimili okkar. Vissulega hafa komið upp þróunarleg vandamál en það má alltaf búast við þeim tl að byrja með,“ sagði Chaffee ákveðinn.

Aðspurður kvaðst Ed White ekki hafa neinar áhyggjur af geimferðinni. Sem tilraunaflugmanni hlakkaði hann mikið til fyrstu ferðarinnar og því fylgdi mikið stolt.

Grissom var spurður að því sama og hvort hann væri ef til vill að storka örlögunum með því að fara í sína þriðju geimferð, en hann kvað svo ekki vera. „Maður verður að ýta því úr huganum. Að sjálfsögðu er alltaf möguleiki á slysi. Það getur gerst í hvaða ferð sem er. Það getur gerst í þinni fyrstu ferð, rétt eins og þinni seinustu. Maður undirbýr sig bara eins vel og hægt er fyrir það sem koma skal,“ sagði Grissom.

„Ef við deyjum, viljum við að fólk sætti sig við það. Við erum í hættulegum bransa og við vonum að ef eitthvað kemur fyrir okkur, þá muni það ekki seinka áætluninni. Landvinningar himingeimsins eru  áhættunnar virði,“ sagði hann einnig. Grissom á líka að hafa sagt konu sinni, Betty, að ef einhvern tímann yrði slys í geimáætluninni, yrði það líklegast hann sem myndi lenda í því.

3. Apollo 1 á skotpallinum

Föstudagsmorguninn 27. janúar 1967 hófu tæknimenn NASA að búa Apollo eitt undir hefðbundið próf, þar sem geimfarið var aftengt við skotpallinn og látið starfa á eigin afli. Prófa átti niðurtalningu, rétt eins og ef um geimskot væri að ræða.

Þegar hér var komið sögu hafði geimfarið þegar verið prófað í meira en tuttugu vikur hjá North American Aviation í Kaliforníu og aðrar tuttugu vikur hjá NASA í Kennedy geimferðamiðstöðinni. Samskonar prófanir höfðu verið gerðar fyrir alla leiðangra Mercury og Gemini. Prófunin var ekki talin hættuleg enda innihéldu hvorki eldflaugin né Apollo geimfarið eldsneyti. Af þeim sökum var neyðarbúnaður og björgunarlið hvergi nálægt.

Um morguninn snæddu þeir Grissom, White og Chaffee morgunverð ásamt Joe Shea, sem stýrði þróun Apollo geimfarsins fyrir NASA, og Deke Slayton. Slayton var yfirmaður geimfaranna og einn af Mercury geimförunum sjö, en hann hafði verið kyrrsettur vegna minniháttar hjartasláttartruflana. Hann var einn besti vinur Gus Grissoms og vissi vel af óánægju hans með Apollo geimfarið.

Grissom bauð Shea að sitja inni í stjórnfarinu við prófunina, svo hann fengi að upplifa fjarskiptavandmálin sem höfðu plagað geimfarið. Shea samþykkti það í fyrstu, en tæknimenn gátu ekki útbúið fjarskiptabúnað fyrir hann í tæka tíð. Eina leiðin væri að hafa lúguna opna og láta snúru liggja út um hana. Í lok þessa tiltekna prófs átti líka að æfa neyðarútgöngu geimfaranna. Shea ákvað því að dvelja ekki í geimfarinu.

Grissom spurði þá Slayton hvort hann vildi dvelja með þeim í farinu. Slayton hugleiddi það en taldi sig gera meira gagn í stjórnstöðinni, sem var nokkur hundruð metra í burtu frá skotpallinum. Mörgum árum seinna velti Slayton því enn fyrir sér, hvort hann hefði tekið rétta ákvörðun.

Slayton fylgdi geimförunum alveg að geimfarinu, sem var óvenjulegt. Geimfararnir þrír settust inn í farið klukkan 1 eftir hádegi og fór Grissom fyrstur inn um lúguna og settist vinstra megin. Chaffee fór næstur inn og settist hægra megin þar sem fjarskiptabúnaðurinn var en White fór seinastur inn í farið og settist í miðjuna.

Á meðan geimfararnir fóru í gegnum gátlistann sinn, lokuðu tæknimenn lúgu geimfarsins. Lúgan var þrískipt. Fyrst var innri lúga eða þrýstilúga sem lokað var með boltum. Næst var hitaskjaldarlúgan og loks kom ysta lúgan, eða hlífin yfir geimfarið sem skýldi því fyrir eldflaugum flóttaturnsins. Þetta var þung lúga sem opnaðist inn á við yfir sætið í miðjunni sem Ed White sat í.

Til að yfirgefa geimfarið þurfti talsvert afl til að opna lúguna með því að losa sex læsingar. Að auki varð að losa þrýsting í stjórnklefanum áður en hægt var að opna lúguna. Á góðum degi gat tekið allt að hálfa mínútu að opna hana, en á meðan - áttu hinir geimfararnir tveir að losa beltin, taka loft og fjarskiptabúnað úr sambandi og síðan ýta sér einn af öðrum aftur á bak út úr farinu. Þetta gat verið mjög erfitt, sérstaklega í klunnalegum geimbúningum.

Þennan örlagaríka dag átti að æfa þetta. Þegar skammt var liðið á prófunina, fundu geimfararnir súra lykt. Tekið var sýni en á meðan því stóð var niðurtalningin stöðvuð. Lyktin tengdist ekkert því sem á eftir fór.

3.1 „Eldur!“

Fjarskipti gengu mjög illa sem fór mjög í taugarnar á Grissom, enda dróst prófunin verulega. Sólin gekk til viðar og flóðljós lýstu upp Satúrnus eldflaugina og rauða skotturninn í myrkrinu.

Klukkan 18.20 var niðurtalningin stöðvuð vegna síendurtekinna fjarskiptavandamála. Rétt rúmum tíu mínútum síðar, klukkan 18:31, heyrðist kallað:

http://www.liveleak.com/view?i=aa1_1345878049

Deke Slayton og aðrir í stjórnstöðinni trúðu vart sínum eigin eyrum. Hann leit upp á skjá sem sýndi lúgu geimfarsins. Í glugganum sást bjartur logi. Grissom fór strax úr sæti sínu eftir að eldsins varð vart og í óðagotinu rak hann hjálminn sinn svo fast í stjórnborðið fyrir ofan, að hann dældaði hjálminn.

http://www.liveleak.com/view?i=aa1_1345878049

Slayton heyrði rödd Chaffees en hann hafði það hlutverk að viðhalda samskiptunum. Ed White aftengdi sig við súrefnið og á skjánum sá Slayton hendur Whites í gegnum gluggann, að reyna í örvætingu sinni að opna lúguna. Grissom stakk höndinni í gegnum eldinn til að þrýsta á hnapp sem dældi lofti úr geimfarinu og fór síðan að hjálpa White að opna lúguna. Ekkert gekk. Hiti og þrýstingur jókst stöðugt í farinu. Bráðnu næloni rigndi yfir þá. Bakið á búningi Grissoms byrjaði að leysast upp í vítislogunum.

Hvorki Slayton né aðrir í stjórnstöðinni skildu almennilega hvað gekk á. Þá heyrði Slayton aftur rödd Chaffees:

http://www.liveleak.com/view?i=aa1_1345878049

Þetta var það seinasta sem heyrðist frá Apollo eitt, stutt sársaukafullt öskur Chaffees.

Þrýstingurinn varð slíkur að skrokkur geimfarsins rofnaði. Úr farinu stóð eldur og reykur sem fyllti hvítherbergið í kringum geimfarið. Þegar eldurinn þrýstist út úr farinu, köstuðust skelfingu lostnir tæknimenn á veggi herbergisins. Þéttur og baneitraður reykur streymdi inn í öndunarfæri geimfaranna, sem enn voru innilokaðir, en líka út úr farinu í hvítherbergið. Eftir að skrokkurinn rofnaði reyndu White og Grissom enn að opna lúguna en hitinn og þrýstingurinn var slíkur að það var útilokað.

Allt sem hér fór á undan, frá því að eldsins varð fyrst vart, tók aðeins sautján sekúndur. Eldurinn sjálfur logaði í innan við tuttugu langar sekúndur. Sárir tæknimennirnir reyndu hvað þeir gátu til að opna lúguna en urðu að yfirgefa svæðið reglulega til að anda að sér fersku lofti. Fimm og hálfri mínútu eftir að eldurinn kviknaði náðu þeir loks að opna allar lúgurnar þrjár.

Deke Slayton flýtti sér upp í skotturninn með kökk í hálsinum. Hann fann sterka brunalykt í loftinu og þegar hann sá stjórnfarið, tók hann eftir hönd í hvítum búningi sem hékk út um opna lúguna.

Slayton hallaði sér inn í stjórnklefann. Við blasti skelfileg sjón. Allt var brunnið og sótsvart. Grissom og White lágu undir lúgunni með hendurnar í átt að henni. Búningar þeirra höfðu bráðnað saman en búningur Grissoms varð fyrir meiri skemmdum. Brunasár á líkama hans voru þó ekki mjög alvarleg og hefði verið hægt að græða þau. Roger Chaffee fannst sitjandi í sæti sínu. Hann hafði dregið síðasta andardráttinn við að halda uppi samskiptum við stjórnstöðina, eins og hann átti að gera.

Áhöfn Apollo 1 var látin. Ekki náðist að fjarlægja líkin fyrr en nokkrum klukkustundum síðar.

4. Viðbrögð við slysinu

Smám saman bárust fréttirnar út. Á skrifstofu geimfaranna fékk Alan Bean, sem síðar flaug með Apollo 12, símtal frá Michael Collins sem síðar flaug með Apollo 11. Bean var falið að láta aðra geimfara vita en þeir áttu að færa fjölskyldum Grissoms, Whites og Chaffees þessar skelfilegu fréttir. Bean bað konu sína, Sue, að heimsækja Mörthu Chaffee, þar til Michael Collins kæmi til hennar með fréttirnar. Jo Schirra, eiginkona Wally Schirra, fór heim til Betty Grissom og Janet Armstrong, kona Neil Armstrong, heimsótti Patty White, enda bjuggu þau í næsta húsi. Þær biðu eftir Bill Anders sem síðar flaug með Apollo 8. Þetta var það erfiðasta sem hann hafði gert, að segja rétt rúmlega þrítugri konu með tvö börn að maðurinn hennar hefði farist.

Patty White hafði sótt dóttur sína á ballettæfingu þegar hún sá Janet Armstrong bíða við heimili þeirra. Hana grunaði strax hvað amaði að en Janet Armstrong mátti ekki segja henni neitt. Það var ekki hlutverk eiginkvennanna að færa hver annarri fréttir um andlát eiginmanna þeirra. Það verk var í höndum geimfaranna sjálfra. Eftir stutta stund hringdi Bill Anders dyrabjöllunni.

Frétt Ríkisútvarpsins í hádeginu laugardaginn 28. janúar árið 1967.

Þrír bandarískir geimfarar fórust í eldsvoða á Kennedyhöfða í gærkvöldi. Það voru þeir Virgil Grissom, Edward White og Roger Chaffee. Þeir þremenningarnir höfðu verið valdir til að fara í fyrstu Appollo-geimferðina hinn 21. næsta mánaðar, en hún átti að vera þáttur í undirbúningi að ferð mannaðs geimfars til tunglsins. Mennirnir þrír voru inni í geimfarinu við þjálfun, er eldur gaus upp í því, og er talið, að mennirnir hafi látizt nær samstundis. Ekki varð sprenging, og sakaði enga menn aðra, en margir voru umhverfis skotpallinn, er eldurinn gaus upp. Unnið er að rannsókn á eldsvoðanum. Í AP-frétt frá aðalstöðvum geimvísindamanna í Houston í Texas segir, að slys þetta geti orðið til þess að raska áætlun bandarísku geimferðastofnunarinnar, og sé hætt við, að tunglferðin geti ekki hafizt fyrr en nokkrum mánuðum seinna en ráðgert hafði verið. Verði nú unnið af kappi að því að kanna allar hugsanlega orsakir þess, að eldur kom upp í geimfarinu. –Grissom geimfari, sem var fyrirliði þremenninganna, var 39 ára. Hann hafði farið í tvær geimferðir, Edward White, sem var 35 ára, hafði fyrstur Bandaríkjamanna farið út úr geimfari á braut. Chaffee var yngstur, 31 árs, og hafði aldrei farið í geimferð. Þetta er í fyrsta sinn sem manntjón verður í sambandi við geimferðaáætlanir Bandaríkjamanna. — Johnson forseti birti tilkynningu jafnskjótt og hann frétti um slysið, þar sem hann lýsir harmi sínum og þjóðarinnar.

Frétt Ríkisútvarpsins að kvöldi 28. janúar 1967

Fyrirskipuð hefur verið nákvæm rannsókn á þeim atburði, sem varð á Kennedyhöfða í gærkvöldi, er þrír bandarískir geimfarar fórust í eldsvoða, er þeir voru við þjálfun í geimfari sínu, og verður unnið af kappi að því að kanna, hvað olli því, að eldur kom upp í geimfarinu. Geimfararnir þrír, Grissom, White og Chaffee áttu að fara í fyrstu Appollo-geimferðina 21. næsta mánaðar, en hún átti að vera þáttur í undirbúningi að ferð mannaðs geimfars til tunglsins. Bandarískir vísindamenn og yfirmenn geimferðaáætlana Bandaríkjamanna telja fullvíst, að vegna þessa atburðar takist Bandaríkjamönnum ekki að senda mannað geimfar til tunglsins eins fljótt og ætlað var, en segjast þó vona, að það geti orðið fyrir 1970.
    Einn af fulltrúum repúblíkana í þeirri nefnd öldungardeildar Bandaríkjaþings, sem fjallar um geimferðir og geimvísindi, James G. Pulton, krafðist þess í dag, að Bandaríkjaþing léti fara fram sérstaka rannsókn á orsökum eldsvoðans á Kennedyhöfða. Með því væri hugsanlegt að koma mætti í veg fyrir, að slíkir atburðir endurtækju sig. Hann kvaðst oft hafa lagt til, að skipaður yrði sérstakur embættismaður til að hafa yfirumsjón með geimferðaáætluninni, einkum með tilliti til þess, að fyllsta öryggis væri gætt. Formaður nefndarinnar, George P. Miller, kvaðst hins vegar ekki vilja taka ákvörðun um þingrannsókn, fyrr en niðurstöður rannsókna Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna lægju fyrir.
    Blöð í Bandaríkjunum hafa mörg birt ritstjórnargreinar vegna slyssins á Kennedyhöfða í gærkvöldi, sem þau harma mjög, og segir The Evening Star í Washington m.a., að frá upphafi hafi margir óttazt, að eitthvað kynni að koma fyrir í geimferðum, en fæstir hafi ímyndað sér, að það yrði við þjálfun á jörðu niðri.

5. Eldsupptök

Eftir eldsvoðan var Apollo verkefnið sett á bið. Næstu vikur var geimfarið tekið í sundur og hver einasta skrúfa og hver einasti vír grannskoðaður. Hvert einasta skref í byggingarsögu geimfarsins var kannað.

Í apríl kynnti rannsóknarnefndin niðurstöður sínar. Ekki reyndist unnt að finna nákvæmlega út hvað orsakaði eldinn en ljóst var að margt hafði farið úrskeiðis.

Svo virðist sem eldurinn hafi kviknað út frá vírum undir og vinstra megin við sæti Grissoms. Einangrunin hafði eyðst af vírunum við smíði geimfarsins. Neisti varð milli víra sem kveikti í nælonneti undir sætunum og dreifðist eldurinn hratt út í stjórnklefanum, því hann var fullur af hreinu súrefni við örlítið hærri loftþrýsting en við sjávarmál. Á örfáum sekúndum fór hitinn í yfir 1.300 gráður á Celsíus svo stjórnklefinn breyttist í brennsluofn. Þrýstingurinn varð svo hár að Grissom, White og Chaffee áttu aldrei möguleika á að opna lúguna.

Eftir slysið var geimfarinu breytt. Eldfimum efnum var skipt út fyrir eldföst efni. Vírar voru bundnir saman og huldir til að koma í veg fyrir hættu á rafneistum. Lúgan var endurhönnuð. Í stað þrískiptrar lúgu kom ein heil lúga sem hægt var að aflæsa og opna út á við á þremur sekúndum. Í framtíðinni var hreinu súrefni skipt út fyrir súrefnis- og niturblöndu.

Fimm vikum eftir eldsvoðan, sat varáhöfn Apollo 1 við kvöldverð í Kennedy geimferðamiðstöðinni þegar Deke Slayton gekk inn til þeirra og settist niður hjá þeim. Slayton kom sér beint að efninu. Hann vildi að þeir myndu ljúka verkefni föllnu félaga sinna og fljúga fyrstu mönnuðu geimferð Apollo og koma Bandaríkjunum skrefi nær því að ferðast frá jörðinni til tunglsins.

Heimildir

  • http://www.hq.nasa.gov/office/pao/History/Apollo204/hist.html
  • http://www.hq.nasa.gov/office/pao/History/Apollo204/
  • http://www.capcomespace.net/dossiers/espace_US/apollo/apollo1/funerailles.htm