Apollo 10
Yfirlit
Í annað sinn á hálfu ári yfirgáfu menn móður jörð og ferðast til tunglsins. Í þetta skiptið var leiðangurinn miklu flóknari. Leiðangrarnir á undan höfðu allir tekist eins og í sögu, eiginlega mun betur en menn þorðu að vona. Í Apollo 7 hafði stjórnfarið verið prófað á braut um Jörðina en á braut um tunglið í leiðangri Apollo 8. Apollo 9 var fyrsta mannaða prófun tunglferjunnar á braut um Jörðina en nú var komið að Apollo 10 að prófa hana á braut um tunglið og ryðja þannig brautina fyrir mesta tækniafrek sögunnar. Ef leiðangurinn heppnaðist myndi Apollo 11 lenda á tunglinu tveimur mánuðum síðar. Apollo 10 var lokaæfingin fyrir sjálfa tungllendinguna.
Áhöfn
Í áhöfn Apollo 10 voru Tom Stafford, John Young og Gene Cernan. Þeir voru allir reynslumiklir geimfarar og raunar var þetta eina áhöfnin í Apollo verkefninu þar sem enginn geimfari var nýliði. Ástæðan var enda ærin. Ekkert mátti út af bregða ef takast ætti, að uppfylla markmið Kennedys forseta, um að lenda mönnum á tunglinu fyrir lok áratugarins.
Tom Stafford
Tom Stafford var leiðangursstjóri Apollo 10. Hann fæddist í smábænum Weatherford í Oklahoma, þar sem faðir hans var tannlæknir en móðir hans kennari. Við fæðingu var Stafford vart hugað líf. Hann var langt undir eðlilegri þyngd en braggaðist fljótt. Hann óx hratt og var jafnan hávaxnari en jafnaldrar sínir og gekk því vel í íþróttum, sér í lagi amerískum fótbolta þar sem hann þótti svo efnilegur að honum var boðinn námsstyrkur út á hæfileikana.
Hugur Staffords stefndi hins vegar alltaf til himins. Fjórtán ára steig hann fyrst upp í flugvél og þótti það svo skemmtilegt, að hann dreymdi um að verða flugmaður. Þegar hann hafði aldur til, skráði hann sig í flotaháskólann til að læra verkfræði og flug. Eftir útskrift gekk hann þó í flugherinn því þar voru hraðfleygari þotur.
Eftir fimm ára dvöl í flughernum hóf hann nám í tilraunaflugmennsku. Þar var Stafford á heimavelli og hlaut hann viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur. Eftir það gerðist hann kennari við skólann og kenndi nokkrum mönnum sem síðar urðu geimfarar.
Þegar Stafford var valinn í annan geimfarahóp NASA árið 1962, var hann aftur sestur á skólabekk, nú í meistaranámi í stjórnun við viðskiptafræðideild Harvard háskóla. Hjá NASA vakti hann einmitt fljótt athygli yfirmanna sinna, ekki aðeins fyrir flughæfileika og verkfræðiþekkingu, heldur líka fyrir leiðtogahæfni. Það kom því engum á óvart þegar hann var valinn til að fljúga fyrstu geimferð Gemini verkefnisins ásamt Alan Shepard, fyrsta bandaríkjamanninum sem fór í geimferð. En þegar Shepard greindist með sjúkdóm sem hafði áhrif á jafnvægisskyn hans, var hann kyrrsettur og áhöfninni skipt út. Stafford fékk í staðinn sæti með Wally Schirra í Gemini 6.
Í desember 1965 sat Stafford inni í Gemini 6 ásamt Schirra þegar talið var niður. Þegar eldflaugin var ræst gerðist ekkert. Flaugin stóð grafkyrr á skotpallinum og þeir Schirra og Stafford ofan á tifandi tímasprengju. Samkvæmt öllu hefði Schirra átt að skjóta sér og Stafford út úr farinu en hann fylgdi innsæi tilraunaflugmannsins og hélt kyrru fyrir. Fyrir vikið var hægt að skjóta Gemini 6 á loft þremur dögum síðar, þar sem þeir Schirra og Stafford áttu stefnumót á braut um jörðina við Frank Borman og Jim Lovell í Gemini 7.
Gene Cernan
Hálfu ári síðar fór Stafford aftur út í geiminn í leiðangri Gemini 9 með nýliðanum Gene Cernan. Cernan átti að fara í geimgöngu á meðan Stafford biði inni í geimfarinu. Flestir bjuggust við að Cernan biði létt verk en annað kom á daginn. Í rúmar tvær klukkustundir glímdi Cernan við sjálfan sig. Hann svitnaði óskaplega, varð rennblautur, dauðþreyttur og blindur vegna móðu sem safnaðist fyrir á hjálmi hans, svo hann átti í stökustu vandræðum með að koma sér inn í geimfarið aftur. Útilokað var fyrir Stafford að toga hann inn og í neyðartilviki átti hann að skera á línuna, loka lúgunni og skilja Cernan eftir í opinn dauðann. Til allrar lifandis lukku kom ekki til þess.
Nú var Gene Cernan tunglferjuflugmaður Apollo 10. Þetta var önnur geimferð hans en þriðja geimferð Staffords rétt eins og John Youngs, sem nú var flugmaður stjórnfarsins.
John Young
Young hafði leyst Stafford af hólmi í fyrsta Gemini leiðangrinum í mars árið 1965 ásamt Gus Grissom, sem síðar lést í eldsvoðanum í Apollo 1. Grissom og Young þóttu svipaðir persónuleikar og náðu vel saman. Í leiðangri sínum áttu þeir einfaldlega að prófa nýja Gemini geimfarið á braut um jörðina.
Leiðangurinn tókst vel en í honum vann Young sér litlar vinsældir þegar hann, sársvangur, fékk sér kjötsamloku að borða, sem hann hafði smyglað um borð. Grissom þótti það mjög skemmtilegt en stjórnendum á jörðu niðri var alls ekki skemmt og fékk Young skammir í hattinn við heimkomu. Young fór síðan í aðra geimferð sína árið 1966, þá sem leiðangursstjóri Gemini 10.
Stafford, Young og Cernan þekktust því vel og voru góðir og samhentir samstarfsfélagar. Þeir þekktu vel styrk- og veikleika hvers annars, sem var ákaflega dýrmætt fyrir þennan hættulega og mikilvæga leiðangur. Áhöfnin var gríðarvel þjálfuð en um fimm klukkustunda þjálfun lá að baki hverri klukkustund sem þeir dvöldu á braut um tunglið.
Lokaæfing fyrir tungllendingu
Um tíma veltu yfirmenn hjá NASA fyrir sér, að láta Apollo 10 gera tilraun til að lenda á tunglinu. Raunar þrýstu sumir á það. Hver í ósköpunum var annars tilgangurinn í því, að senda Apollo geimfarið og tunglferjuna, alla leið til tunglsins — með allri þeirri áhættu sem því fylgdi — en reyna síðan ekki að lenda?
Eflaust kemur mörgum á óvart en leiðangursstjórinn Stafford mælti gegn því að Apollo 10 myndi lenda á tunglinu. Hann útilokaði þannig sjálfan sig að verða fyrsti maðurinn til að ganga á tunglinu. En Stafford hafði nokkrar góðar ástæður fyrir því.
Ein var sú að tunglferja Apollo 10 var of þung til að lenda á tunglinu. Hönnun tunglferjunnar tók stöðugum breytingum og átti eftir að ganga í gegnum strangan megrunarkúr hjá Grumman fyrirtækinu sem hannaði hana. Fyrst tunglferjan var of þung, var ekki hægt að taka nægilegt eldsneyti með til tunglsins til að lenda og taka aftur af stað frá tunglinu. Með öðrum orðum hefði ferðin aðeins orðið aðra leið.
Til greina kom að láta áhöfn Apollo 10 fá tunglferjuna sem var í smíðum fyrir Apollo 11. Stjórnendur í Houston mótmæltu því kröftuglega. Þeir áttu heilmargt eftir ólært áður en hægt var að lenda. Apollo 10 var mikilvæg prófun fyrir stjórnstöðina á jörðu niðri. Til dæmis hafði aldrei verið haldið uppi samskiptum frá jörðinni við tvö geimför á sveim um tunglið. Gæta þurfti þess að bæði geimför gætu talað sín á milli og sent upplýsingar til jarðar á sama tíma og að þau gætu talað saman þegar jörðin var úr fjarskiptasambandi. Gat stjórnstöðin í Houston með góðu móti fylgst með tveimur geimförum á braut um tunglið? Það var miklu áhættusamara en á braut um jörðina þar sem geimfararnir gátu komist heim tiltölulega auðveldlega ef eitthvað brigði út af.
Aldrei höfðu tvö geimför heldur verið tengd saman á braut um tunglið. Smávægilegt vagg á braut Apollo 8 og ómannaðra geimfara á braut um tunglið höfðu líka sýnt, að margt var á huldu um þyngdarsvið tunglsins. Vaggið var komið til af stöðum á tunglinu sem voru þéttari í sér en önnur svæði. Þéttu svæðin toguðu með meiri krafti í geimfar sem flaug yfir þau. Þetta gat haft áhrif á samtengingu geimfara og kanna þurfti hvort svo væri.
Allt þetta og meira til varð til þess að ákveðið var, að Apollo 10 skildi ekki lenda á tunglinu. Cernan viðurkennir fúslega að hafa orðið vonsvikinn. Hann langaði það jafn mikið og Stafford og allir aðrir geimfararnir, en gerði sér þó fulla grein fyrir, að lending væri ekki tímabær. Stafford, Young og Cernan voru allir sammála þeirri ákvörðun, að lenda ekki.
Þótt lending færi ekki fram var leiðangur Apollo 10 samt sem áður spennandi. Apollo 10 átti að prófa tunglferjuna í fyrsta sinn á braut um tunglið, fljúga í innan við 15 km hæð yfir yfirborðinu, kortleggja fyrirhugaðan lendingarstað með ratsjá og ljósmyndum og framkvæma fyrstu samteningu tveggja geimfara á braut um tunglið. Leiðangur Apollo 10 var, rétt eins og leiðangur Apollo 9, draumaleiðangur tilraunaflugmannsins.
Charlie Brown og Snoopy
Í Apollo 9 höfðu geimfararnir fengið að nefna geimförin sín. Yfirmenn NASA hristu höfuðið þegar áhöfn Apollo 9 nefndi geimförin sín Gumdrop og Spider en leist enn verr á nöfnin sem Stafford, Young og Cernan völdu. Stjórnfarið var nefnt Charlie Brown eða Kalli Bjarna og tunglferjan eftir hundi hans Snoopy úr teiknimyndasögunum Smáfólk eða Peanuts. Meira að segja höfundi sagnanna fannst þetta ekkert sérstaklega góð hugmynd því flest það sem Charlie Brown gerði misheppnaðist. Cernan þótti nöfnin fullkomin — Snoopy átti að snuðrast eins og forvtinn hundur og þefa af yfirborði tunglsins þar til eigandi hans og félagi Charlie Brown kallaði aftur á hann.
Geimskot
Sunnudaginn 18. maí skein sólin skært yfir Flórída þegar þriðja mannaða geimskot Satúrnus 5 risaflaugarinnar hófst. Í yfir hundrað metra hæð yfir jörðinni, sátu geimfararnir þrír með hnút í maganum. Þegar fyrsta þrep flaugarinnar var ræst, hristist geimfarið óskaplega og henti geimförunum til og frá þótt þeir væru tjóðraðir við sætin sín, líkt og þeir væru bráð í gini rándýrs. Þá heyrðist í Cernan:
WHAT A RIDE http://www.youtube.com/watch?v=R4_30-0YTO0 [2:20-2:30]
Tveimur mínútum eftir geimskot var fyrsta þrepið losað frá. Við það köstuðust geimfararnir fram í sætum sínum. Stafford kom ekki frá sér orði þegar annað þrepið tók við. Geimförunum leið eins og þeir hefðu lent í hörðum árekstri. Annað þrepið hristist enn meira. Geimfararnir óttuðust á köflum að geimfarið myndi hreinlega liðast í sundur við átökin. Ellefu mínútum eftir geimskot færðist ró yfir. Apollo 10 var komið upp í 190 km hæð og á braut um jörðu.
Um leið og komið var út í geiminn hófst undirbúningur fyrir tunglförin. Þegar gengið hafði verið úr skugga um að allt starfaði sem skildi, var þriðja þrep Satúrnus 5 flaugarinnar ræst á ný og hraðinn aukinn nægjanlega mikið til þess að geimfarið gæti yfirgefið jörðina og ferðast til tunglsins.
http://www.youtube.com/watch?v=R4_30-0YTO0 [03:09-3:25]
Apollo 10 var yfir Ástralíu þegar eldlfaugin var ræst á ný og gat fólk séð með berum þar sem hún lýsti upp dimman morgunhimninn og tunglferðin hófst. Þetta var magnað sjónarspil.
Í geimfarinu veltu Stafford, Young og Cernan fyrir sér að sleppa því að hafa hjálmana og hanskana á sér við ræsinguna, en guggnuðu á því. Þeir voru fegnir eftir á. Þegar þriðja þrepið var ræst, varð hristingurinn inni í geimfarinu nánast óbærilegur og stóð yfir í um sex mínútur. Gene Cernan var beinlínis óviss hvort þeir ættu hreinlega að halda áfram.
Aftur færðist ró yfir geimfarið þegar drepið var á þriðja þrepinu en þá kominn tími á næstu stóru stund leiðangursins: Að tengja stjórnfarið við tunglferjuna sem var í birgðareiningu ofan á þriðja þrepinu, undir þjónustufarinu.
John Young, flugmaður stjórnfarsins, tók við stjórninni, losaði stjórnfarið frá þriðja þrepinu, sneri farinu við og tengdist tunglferjunni.
http://www.youtube.com/watch?v=R4_30-0YTO0 [04:05-4:45]
Í fyrsta sinn voru tvö mönnuð geimför á leið til tunglsins. Í fyrsta sinn var líka sjónvarpsmyndavél í lit um borð og fylgdust stjórnendur í Houston grannt með þegar Charlie Brown togaði hundinn sinn Snoopy úr hundakofanum. Skömmu síðar hófst fyrsta beina útsending af fimm frá Apollo 10. Milljónir áhorfenda fylgdust með geimförnum leika listir sínar í þyngdarleysinu en áhrifaríkastar voru myndirnar af jörðinni í öllu sínu veldi. Geimfararnir voru greinlega komnir langt að heimann.
http://www.youtube.com/watch?v=R4_30-0YTO0 [05:26-05:50]
Ferðalagið til tunglsins
Ferðin til tunglsins var róleg og tíðindalítil. Það var einna helst að geimfararnir kvörtuðu yfir matnum og drykkjarvatninu í geimfarinu.
Fyrsta daginn í geimnum átti leiðangursstjórinn Stafford að blanda örlitlu magni af klór við vatnið. Ekki vildi betur til en svo að stjórnstöðin í Houston gaf honum rangar upplýsingar um magnið og setti Stafford því óvart tvöfaldan klórskammt út í vatnið. Þegar Stafford fékk sér morgunverð í fyrsta sinn í ferðinni var bragðið því heldur vont.
Klórinn olli engum teljandi vandræðum en það gerði hins vegar gas í vatninu. Í fyrri leiðöngrum höfðu geimfarar kvartað yfir gasi sem blandaðist við vatnið. Til að koma í veg fyrir það hönnuðu verkfræðingar nýja vatnspoka sem áttu að skilja gasið úr vatninu. Það virkaði ekki. Geimfararnir höfðu engan sérstakan áhuga á að drekka sódavatn og blanda því við kaffið sitt, því gasið gat valdið slæmum ólgum í maganum með tilheyrandi viðrekstrum eða niðurgangi í verstu tilvikum. Á endanum fundu þeir aðeins fyrir smávægilegum óþægindum en urðu ekki veikir.
Vatnið hafði áhrif á matarlyst geimfaranna. Þegar yfir lauk borðaði áhöfn Apollo 10 minnst allra Apollo áhafna. Stundum slepptu þeir máltíðum, ekki aðeins vegna vatnsins, heldur þótti þeim maturinn ólystugur. Til dæmis sögðu þeir að pylsur hefðu bragðast eins og gúmmí og skildu eftir mikið óbragð í munni. Geimfararnir kviðu líka fyrir að væta þurrkaða matinn, vitandi af sódavatninu.
Á braut um tunglið
Þann 21. maí, tæpum þremur dögum eftir geimskot, var Apollo 10 komið til tunglsins. Geimfararnir fylgdust dolfallnir með gráu og hrjóstrugu en tignarlegu landslagi tunglsins líða hjá fyrir neðan. Útsýnið var ótrúlegt. Þeim fannst magnað að hugsa til þess að á jörðinni hefði einhver verið nógu klár til að koma þeim alla þessa leið. En þarna voru þeir og áttu vandasöm verk fyrir höndum.
Fyrsta mál á dagskrá var að hemla til að komast á rétta braut um tunglið. Á bakhlið tunglsins var eldflaugin ræst. Í sex mínútur logaði hún án þess að geimfararnir finndu fyrir því. Þegar slökkt var á henni og Apollo 10 komst aftur í fjarskiptasamband við jörðina, heyrðist í Stafford:
http://www.youtube.com/watch?v=R4_30-0YTO0 [09:23-09:36]
Stafford, Young og Cernan sáu strax að þeir færðust mun hægar yfir tunglið en jörðina. Þetta var óneitanlega mikill kostur því þeir áttu að grannskoða fyrirhugaðan lendingarstað Apollo 11. Í þriðju hringferðinni um tunglið deildu þeir útsýninu með jarðarbúum í beinni sjónvarpsútsendingu. Áhörfendur sáu eyðilegt yfirborð tunglsins sem virtist nokkuð heppilegt fyrir fyrstu lendinguna.
Sex klukkustundum síðar hófu Cernan og Stafford að undirbúa tunglferjuna. Þegar Cernan opnaði lúgu tunglferjunnar mætti honum kafaldsbylur. Cernan glansaði eins og hann væri hrímugur sem vakti mikla kátínu félaga hans. Einangrun hafði losnað úr göngunum sem tengdi geimförin tvö saman og sveif um allt. Geimfararnir vörðu drjúgri stund í tiltekt.
http://www.youtube.com/watch?v=R4_30-0YTO0 [05:04-05:14]
Þök stjórnfarsins og tunglferjunnar voru tengd saman, svo þegar Cernan sveif upp í gegnum göngun frá stjórnfarinu, breyttist upp skyndilega í niður þegar inn í tunglferjuna var komið. Þetta var mjög óþægileg tilfinning sem hafði valdið Rusty Schweickart úr Apollo 9 svo mikilli ógleði að hann kastaði upp. Cernan gekk betur að aðlagast og þótti leikur einn að ræsa tunglferjuna.
http://www.youtube.com/watch?v=R4_30-0YTO0 [11:32-11:50]
Eftir þetta var kominn til að hvílast því daginn eftir var komið að mikilvægustu prófraun Apollo 10. Þeir drógu fyrir glugga stjórnfarsins og skriðu í svefnpokana sína. Það kólnaði nefnilega mjög hratt í stjórnfarinu þegar sólin skein ekki inn um gluggann.
Geimfararnir voru þegar komnir á stjá og byrjaðir að undirbúa daginn þegar stjórnstöðin í Houston ætlaði að vekja þá. Eftir að hafa fengið sér morgunverð, sveif Cernan yfir í tunglferjuna og gerði hana klára á meðan Young hjálpaði Stafford að klæast geimbúningi sínum, en það var fimm mínútna verk með hjálp. Í tíundu ferðinni um tunglið voru Stafford og Cernan búnir að loka lúgunum á milli geimfaranna, tilbúnir að hefja síðustu mikilvægu prófunina fyrir tungllendingu.
Tunglferjan svífur yfir tunglinu
Í tólftu ferðinni um tunglið losaði Young tunglferjuna frá stjórnfarinu. Honum fannst stjórnfarið ótrúlega stórt en þar yrði hann einn næstu klukkustundirnar. Stafford og Cernan fannst stjórnfarið lítið að sjá utan frá.
http://www.youtube.com/watch?v=R4_30-0YTO0 [13:21-13:33]
Young tók upp myndavélina svo stjórnstöðin í Houston gæti kannað ástand tunglferjunnar. Stafford rétti út fætur ferjunnar og staðfesti að ratsjáin, siglingakerfið og loftnetin virkuðu sem skildi. Tunglferjan var tilbúin til brottfarar. Stafford og Cernan báðu Young að passa sig að verða ekki einmna og yfirgefa ekki tunglið án þess að taka þá með:
http://www.youtube.com/watch?v=R4_30-0YTO0 [14:51-15:09]
Young flaug stjórnfarinu burt. Stafford ræsti lendingarþrep tunglferjunnar og jók aflið hægt og rólega til að lækka flugið. Smám saman varð sjóndeildarhringurinn flatari. Þeir sáu risavaxna hnullunga, hyldjúpa gíga og sprungur og háreistari fjöll.
„We're low, babe — man, we're low!“ kallaði Cernan spenntur.
http://www.youtube.com/watch?v=R4_30-0YTO0 [16:14-17:12]
Stafford og Cernan voru nær tunglinu en nokkur annar í sögunni. Þeir kölluðu nöfn gíga og fjalla þar sem þeir flugu yfir og leyndi spenningurinn sér ekki í röddum þeirra.
Tunglferjan flaug nákvæmlega sömu leið og Apollo 11 átti að gera tveimur mánuðum síðar. Þeir tóku ótal myndir og lýstu Kyrrðarhafinu, fyrirhuguðum lendingarstað Apollo 11, úr aðeins 15 km hæð.
http://www.youtube.com/watch?v=R4_30-0YTO0 [17:20-17:45]
Lendingarstaðurinn virtist nokkuð öruggur. Young fylgdist með tunglferjunni úr fjarska með hjálp sjóntækja. Fyrir honum leit hún út eins og stór könguló á fleygiferð yfir tunglinu.
Þegar tíu mínútur voru þar til losa átti lendingarþrepið frá og ræsa flugtaksþrepið, byrjaði tunglferjan skyndilega að snúast og velta. Stafford og Cernan létu nokkur vel valin blótsyrði flakka, augljóslega dauðhræddir. Viðvörunarljós blikkuðu. Í þrjár mínútur var tunglferjan stjórnlaus. Stafford nýttti reynslu sína sem tilraunaflugmaður, losaði lendingarþrepið og ræsti flugtaksþrepið og náði þá loks stjórn á tunglferjunni.
Tunglferjan hækkaði braut sína og nálgaðist smám saman stjórnfarið. Stafford og Cernan fylgdust áhugasmir með fjarlægðinni milli faranna tveggja minnka, uns aðeins átta metrar skildu á milli og innbyrðis hraði var enginn. Þá tók Young við og tengdi stjórnfarið við tunglferjuna.
http://www.youtube.com/watch?v=R4_30-0YTO0 [19:58-20:16]
Stafford og Cernan höfðu verið í burtu í meira en átta klukkustundir. Þeir kvöddu Snoopy, fóru yfir í stjórnfarið, lokuðu lúgunni og losuðu síðan tunglferjuna frá stjórnfarinu. Stjórnendur í Houston ræstu tunglferjuna á ný og sendu hana, nú ómannað, burt frá tunglinu á braut um sólina, þar sem hún er enn í dag.
Geimfararnir voru allir inni í stjórnfarinu þegar óvæntur gestur kíkti í heimsókn.
„Ö - Hver gerði þetta?“ spurði Stafford félaga sína.
„Hver gerði hvað?“ spurðu þeir hissa.
„Hver gerði þetta?“ spurði Stafford aftur og skellihló.
„Hvaðan kom þetta?“ sagði Cernan.
„Réttu mér servíettu sem snöggvast. Það svífur skítaköggull hérna.“ sagði Stafford.
„Ég gerði þetta ekki. Þetta er ekki einn af mínum,“ sagði Young.
„Ég held að þetta sé ekki einn af mínum,“ sagði Cernan.
„Minn var örlítið klístraðari en þetta. Hentu þessu burt.“ sagði Stafford og skellihló með félögum sínum.
Þótt búið væri að prófa tunglferjuna var enn verk fyrir höndum. Geimfararnir áttu að dvelja örlítið lengur á braut um tunglið og gera athuganir á mögulegum lendignarstöðum.
Stafford þótti tunglið tignarlega stórskorið og fagurt. „Við gátum varla hætta að horfa,“ sagði hann. „Við vorum eins og þrír apar í búri,“ sagði Cernan.
Young fannst tunglið búa yfir sérkennilegri fegurð og sagðist seint þreytast á að horfa á það. Geimfararnir gátu séð niður á botn myrkvaðra gíga sem virðast kolsvartir á myndum, því dauf birta frá jörðinni lýsti þá upp eins og tunglskinið lýsir upp nóttina áratugurinn jörðinni. „Í jarðskini er tunglið stórkostlegt. Það væri hægt að kanna tunglið í jarðskininu. Þú gætir lesið dagblað í jarðskinu á tunglinu, svo bjart er það,“ sagði Young.
Geimfararnir höfðu allir séð mynd Bill Anders úr Apollo 8 af jörðinni rísa yfir tunglinu. En að sjá móður jörð rísa hægt og rólega yfir tunglinu með eigin augum var enn stórkostlegra en þeir áttu von á.
Tilfinningin var furðuleg. Þetta var í eina skiptið sem þeim fannst þeir finna fyrir fjarlægðinni.
Sjónarspilið snart við Young og fékk hann til að hugsa. „Eftir að 380.000 km ferðalag er reikistjarna Jörð í tveggja og hálfs daga fjarlægð. Allt sem þú sérð eru hvít ský, blá höf og lofthjúpurinn. Þarna er heimili meira en sex milljarða manna. Þú sérð þá ekki — en þarna eru þeir. Þetta er heldur ekkert sérstaklega heilladrjúg tegund. Í augnablikunu eru milli tuttugu og fjörutíu styrjaldir í gangi. Við verjum fjörutiu milljörðum dollara á ári í alþjóðleg vopnaviðskipti svo fólk geti grepið hvert annað — og stöndum okkur harla vel í því. Á þessari reikistjörnu eru aðrar tegundir — allt frá fuglum til maura — ég held ég sé með trilljón slíka í garðinu mmínum — og við verðum að gæta þess að lifa í ´sátt og samlyndi.“ sagði Young seinna.
Cernan fann fyrir dýpri tengslum við jörðina en nokkru sinni áður.
Heimkoma
Eftir meira en 60 klukkustunda dvöl um tunglið ræstu geimfararnir eldflaug Apollo geimfarsins á ný og héldu til jarðar.
http://www.youtube.com/watch?v=R4_30-0YTO0 [22:50-23:00]
Apollo tíundi lenti á Kyrrahafi klukkan 16:53 í dag eftir tunglferð, sem sérfræðingar telja nákvæmustu og merkustu sem farin hefur verið. - Apollo tíundi kom inn í gufuhvolf jarðar á 40 þúsund kílómetra hraða á klukkustund, og er það hraðar en nokkur maður hefur áður farið. - Á ferð sinni sendu geimfararnir þrír til jarðar nákvæmustu myndir, sem teknar hafa verið af tunglinu.
Tunglferð Apollos tíunda tók nákvæmlega átta sólarhringa og þrjár mínútur. - Þeir Stafford og Cernan komust nær tunglinu en nokkur maður hefur áður gert; voru næst því í 14,8 kílómetra fjarlægð. - Með þessari ferð hafa bandaríkjamenn stigið síðasta skrefið fyrir lendingu á tunglinu en 20. júlí munu tveir Bandaríkjamenn renna niður úr tunglferju sinni og verða fyrstu mennirnir til að stíga fæti á annan hnött, - gangi allt samkvæmt áætlun.
– Frétt Ríkisútvarpsins kl. 19:00, 26. maí 1969
Leiðangur Apollo 10 var stórkostlegt afrek. Nú var ekkert lengur því til fyrirstöðu að gera tilraun til að lenda á Mánanum í næstu ferð. „Við vitum að við getum ferðast til tunglsins. Við munum fara til tunglsins. Tom Stafford, John Young og Gene Cernan hafa gefið okkur sjálfstraustið til að stíga næsta stóra skref,“ sagði Tom Paine, forstöðumaður NASA innan við klukkustund eftir heimkomu Apollo 10.
Áhöfn Apollo 10 var eina áhöfnin þar sem allir geimfararnir fóru aftur í Apollo leiðangur. John Young og Gene Cernan sneru aftur til tunglsins þremur árum síðar sem leiðangursstjórar hvor í sínum leiðangri, Young í Apollo 16 og Cernan í Apollo 17. Stafford stýrði seinasta Apollo leiðangrinum, hinum sögulega leiðangri þegar bandaríkjamenn og sovétmenn tókust í hendur og tengdu Apollo og Soyuz geimförin saman á braut um jörðina.
Þegar áhöfn Apollo 10 sneri heim til jarðar, stóð undirbúningur fyrir geimferð Apollo 11 sem hæst. Tveimur mánuðum síðar ætluðu Bandaríkjamenn að uppfylla markmið Kennedy forseta um að lenda mönnum á tunglinu áður en áratugurinn væri úti og flytja hann heilan heim til jarðar.