Saga af sól sem ætti ekki að vera til
-
Mælingar sýna að þessi daufa stjarna sem kallast SDSS J102915+172927 og er í stjörnumerkinu Ljóninu, hefur minnsta magn frumefna sem eru þyngri helíum (það sem stjörnufræðingar kalla málma) af öllum stjörnum sem rannsakaðar hafa verið. Hún er massaminni en sólin og líklega yfir 13 milljarða ára. Mynd: ESO/Digitized Sky Survey 2
Á þessari mynd sjást margar stjörnur en ein þeirra, sú sem örin bendir á, ætti ekki að vera þarna. Stjörnufræðingar segja að hún hefði aldrei átt að verða til.
En hvað er það sem gerir þessa stjörnu svona sérstaka? Svarið felst í því úr hverju stjarnan er. Stjörnur eru úr ýmsum frumefnum sem heita til dæmis vetni, helíum, kolefni og súrefni. Stjörnufræðingar komust nýlega að því að þessi stjarna er næstum eingöngu úr vetni og helíumi og segja að slík stjarna ætti ekki að vera til.
Vetni og helíum mynduðust skömmu eftir að alheimurinn varð til við Miklahvell. Flest önnur frumefni, eins og kolefni og gull, urðu til síðar, annað hvort innan í stjörnum eða þegar stjörnur sprungu í tætlur.
Í þessari stjörnu er nánast bara vetni og helíum og því telja stjörnufræðingar að hún hafi fæðst skömmu eftir Miklahvell. Hún gæti verið um 13 milljarða ára gömul! Hún gæti því verið ein elsta stjarna sem menn hafa fundið!
Stjarna sem ætti að vera „óhugsandi“ gæti sem sagt verið ein elsta stjarna sem við vitum um í alheiminum. Ef þú skoðar myndina aftur er þessi pínulitli ljósdepill skyndilega orðinn miklu merkilegri!
Skemmtileg staðreynd: Vetni er lang algengasta frumefnið í alheiminum. Veist þú hvar vetni finnst á jörðinni eða innan í þér?