Spælt egg í geimnum
Ef þú horfir upp í himinninn sérðu að stjörnurnar eru mismunandi á litinn. Sumar eru bláar, aðrar rauðar. Stjörnur eru nefnilega af öllum stærðum og gerðum. Til eru dvergstjörnur sem eru miklu minni en sólin og svo risastjörnur sem eru miklu stærri. Þær allra stærstu köllum við reginrisa.
Á myndinni hér að ofan sést mjög sjaldgæf tegund risastjörnu: Gulur reginrisi. Hann er 20 sinnum þyngri en sólin, 1000 sinnum breiðari og skín 500.000 sinnum skærar! Ef hún kæmi í stað sólarinnar í sólkerfið okkar væri líf útilokað á jörðinni; jörðin væri nefnilega innan í henni og reikistjarnan Júpíter rétt fyrir ofan yfirborð hennar!
Stjarnan er umlukin óvenjulegri skel úr ryki og gasi sem hún hefur varpað frá sér í gegnum tíðina svo hún lítur út eins og spælt egg. Þessi skel er svo stór að hún næði út að ríki halastjarnanna í sólkerfinu okkar, langt út fyrir braut Neptúnusar.
Stjarnan hefur alla tíð verið þung en ekki alltaf eins breið og hún er í dag. Þegar stjarnan bjó til orku í kjarna sínum úr vetni — eins og sólin okkar gerir í dag — var hún miklu smærri. Þegar vetnið kláraðist, þandist stjarnan út og breyttist í rauðan reginrisa. Eftir það varð hún að þessum gula reginrisa.
En ævisögu stjörnunnar lýkur ekki þar. Rétt eins og allar lífverur mun stjarnan deyja. Líf hennar fjarar reyndar ekki hægt og rólega út heldur mun hún springa í tætlur. Það gæti gerst þá og þegar, við vitum bara ekki hvenær.
Skemmtileg staðreynd: Þegar eldsneyti sólarinnar er uppurið eftir um 5.000 milljón ár, vex hún og breytist í rauða risastjörnu. Þótt rauðir risar séu smærri en reginrisar verður sólin samt nógu stór til þess að gleypa jörðina!