Risavaxin geimkönguló!
Þessi nýja og glæsilega ljósmynd er af svæði í geimnum þar sem stjörnur fæðast. Svæðið kallast Tarantúluþokan vegna þess að í gegnum sjónauka minnir hún á könguló.
Þetta er dálítið óvenjuleg mynd af Tarantúluþokunni. Stjörnufræðingar notuðu nefnilega tvo geimsjónauka til að útbúa þessa mynd. Á myndinni sést bæði röntgengeislun frá mjög heitu gasi (blái liturinn sem tekin var með Chandra röntgengeimsjónaukanum) og kaldara gas sem umlykur það (appelsínuguli liturinn sem tekin var með Spitzer innrauða geimsjónaukanum).
Tarantúluþokan er geysistór. Ekkert fer hraðar en ljósið en samt væri maður 650 ár að ferðast á ljóshraða endanna á milli. Til samanburðar er ljósið eina sekúndu til tunglsins. Og það sem meira er þá fer þokan vaxandi! Stjörnufræðingar vita ekki nákvæmlega hvers vegna en sumir telja að ástæðan sé sprengingar í heita gasinu sem þenja þokuna út en aðrir telja að þokan vaxi af völdum geislunar frá stærstu stjörnunum í henni. Til að átta sig betur á því sem þarna er að gerast þurftu stjörnufræðingarnir að taka mynd eins og þessa.
Tarantúluþokan er langt fyrir utan okkar eigin Vetrarbraut. Hún er svo langt í burtu að ljósið frá henni er 160.000 ár að berast til okkar. Það þýðir að við sjáum hana alltaf eins og hún leit út fyrir 160.000 árum. Fyrir svo löngum tíma var Ísland sennilega þakið þykkum jökulís enda ísöld í fullum gangi.
Skemmtileg staðreynd: Í Tarantúluþokunni er þyngsta stjarna sem vitað er um. Hún er meira en 300 sinnum þyngri en sólin okkar!