Krakkafréttir

Rósrauður bjarmi Omegaþokunnar

  • eso1201a
    Þessi nýja mynd af Omegaþokunni (Messier 17), sem tekin var með Very Large Telescope (VLT) ESO, er ein sú skarpasta sem náðst hefur af henni frá jörðinni. Myndin sýnir rykug, rósarbleik miðsvæði stjörnumyndunarsvæðisins í smáatriðum. Mynd: ESO

Eins og þú eflaust veist eru fjölmörg flókin fræðiorð í stjörnufræði, orð eins og vetrarbrautir og geimþokur. Færri vita að flest eru þau þýðingar á ævafornum erlendum orðum sem vísa til hversdagslegra hluta. Sem dæmi má nefna er enska orðið galaxy, sem þýðir vetrarbraut á íslensku, grískt að uppruna og merkir „mjólkurhvítt“. Orðið nebula, sem þýðir geimþoka á íslensku, er latneska orðið yfir ský.

Bæði þessi orð — vetrarbraut og geimþoka — lýsa tilteknum fyrirbærum í geimnum. Til dæmis lítur Vetrarbrautin okkar út eins og mjólkurhvít slæða yfir næturhimninum. Þess vegna heitir Vetrarbrautin líka Milky Way eða Mjólkurslæðan á erlendum tungumálum. Geimþoka er svo ský úr gasi og ryki í geimnum.

Nýja myndin sem hér sést er af frægri geimþoku sem heitir Omegaþokan eftir gríska bókstafnum Omega. Hún er í stjörnumerkinu Bogmanninum sem er svo sunnarlega á himinhvolfinu að erfitt er að sjá hana frá Íslandi. Myndin var tekin með sjónauka sem heitir Very Large Telescope og er að finna í Chile í Suður Ameríku. Þessi fallega mynd er ein sú skarpasta sem tekin hefur verið með sjónauka á jörðinni! Til gamans má geta þess að í gegnum sjónauka minnir þokan líka á svan og jafnvel humar.

Skemmtileg staðreynd: Omegaþokan er fæðingarstaður stjarna, eiginlega stjörnuhreiður ef svo má segja. Sólin okkar og systur hennar urðu til úr svipaðri geimþoku.

Þessi frétt er unnin í góðu samstarfi við UNAWE og Space Scoop

UNAWE, Universe Awareness for Young Children Space Scoop