Krakkafréttir

Stjörnu sparkað

  • Chandra,
    Hér sérðu leifar stjörnu sem sprakk fyrir langa löngu. Mynd: Chandra röntgengeimsjónaukinn

Á 50 ára fresti eða svo springur þung stjarna í vetrarbrautinni okkar. Við sprenginguna þeytist gas frá stjörnunni út í geiminn. Þetta heita gas gefur frá sér röntgengeislun sem stjörnufræðingar geta tekið myndir af með sérstökum geimsjónaukum.

Það sem eftir er af stjörnunni þjappast saman í smáan hnött sem kallast nifteindastjarna. Nifteindastjarna er um það bil tvisvar sinnum þyngri en sólin okkar en álíka stór og höfuðborgarsvæðið.

Á nýju myndinni hér til hliðar sjást gasleifar svona sprengistjörnu. Það sem er skrítið er að nifteindastjarnan (litla appelsínugula hringsins hægra megin á myndinni) er langt frá þeim stað þar sem stjörnufræðingar telja að sprengingin hafi orðið (á miðri mynd).

Ef áætluð staðsetning sprengingarinnar er rétt, þá segja stjörnufræðingar að þetta sé vísbending um að nifteindastjörnur geti fengið öflugt spark í „rassinn“ við sprenginguna og þotið í burtu.

Skemmtileg staðreynd: Samkvæmt útreikningum stjörnufræðinga hefur þessi nifteindastjarna ferðast á 4,8 milljón km hraða á klukkustund síðan sprengingin varð. Á þeim hraða gæti hún ferðast frá sólinni til jarðar á aðeins rúmum sólarhring! Til samanburðar væri maður 17 ár að fljúga til sólarinnar með venjulegri farþegaþotu — ef það væri þá hægt.

Þessi frétt er unnin í góðu samstarfi við UNAWE og Space Scoop

UNAWE, Universe Awareness for Young Children Space Scoop