Risasvarthol gæðir sér á smástirnum
Þegar sólkerfið okkar hafði myndast voru ýmsar leifar eftir. Þessar leifar kallast smástirni og halastjörnur.
Smástirni eru úr bergi eins og því sem við finnum út um allt á Íslandi. Þau eru flest á svæði í sólkerfinu sem er milli reikistjarnanna Mars og Júpíters og kallast smástirnabeltið. Halastjörnur eru hins vegar úr ís, bergi og ryki svo þær eru stundum kallaðar skítugir snjóboltar. (Ísjakarnir á Jökulsárlóni eru ekki svo ólíkir halastjörnum.) Flestar halastjörnur eru yst í sólkerfinu, lengst frá sólinni, miklu lengra en reikistjörnurnar Úranus og Neptúnus, á svæði sem kallast Oortsskýið (borið fram Úrtsskýið).
Stundum halda smástirni og halastjörnur sig ekki alltaf á þessum svæðum. Fyrir kemur að halastjörnur heimsæki innri hluta sólkerfisins. Þegar halastjarna kemst nálægt jörðinni getur hún orðið óhemju falleg á himninum. Ísinn í þeim byrjar nefnilega að gufa upp vegna hitans frá sólinni. Úr verður tignarlegur hali sem sjá má á himninum.
Stundum komast smástirni líka nálægt jörðinni. Ef lítil brot úr þeim komast inn í andrúmsloft jarðar kallast þau loftsteinar. Þegar loftsteinar ferðast í gegnum andrúmsloftið, brenna þeir upp og sjáum við þá stjörnuhröp. Stjörnufræðingar telja nú að það sama gæti verið að gerast í miðju okkar vetrarbrautar.
Í miðju vetrarbrautarinnar, óralangt í burtu frá okkur, er risasvarthol. Undanfarin ár hafa stjörnufræðingar tekið eftir dularfullum ljósblossum við svartholið sem gætu verið vegna þess að svartholið sé að gæða sér á smástirnum. Þegar svartholið er um það bil að gleypa smástirnið myndast ljósrák eins og þegar við sjáum stjörnuhröp á himninum.
Sé þessi tilgáta rétt eru líklega mörg hundruð milljónir smástirna og halastjarna á sveimi í kringum risasvartholið!
Skemmtileg staðreynd: Það er ekki bara risasvarthol sem gleypir smástirni og halastjörnur reglulega því að á um það bil þriggja daga fresti gleymir sólin okkar halastjörnu!
Þessi frétt er unnin í góðu samstarfi við UNAWE og Space Scoop