Risajarðir í milljarðavís!
-
Þessi sýn listamanns sýnir sólsetur á risajörðinni Gliese 667 Cc. Bjartari stjarnan á himninum er rauði dvergurinn Gliese 667 C sem tilheyrir þrístirnakerfi. Hinar tvær, Gliese 667 A og B, eru fjarlægari stjörnur en sjást báðar á hægra megin á himninum. Stjörnufræðingar hafa áætlað að í vetrarbrautinni okkar séu tugir milljarðar slíkra bergreikistjarna á braut um daufa rauða dverga. Mynd: ESO/L. Calçada
Þegar þú horfir upp í næturhimininn sýnast flestar stjörnur eins. Í rauninni eru þær samt misstórar og mismunandi á litinn. Litur stjörnu fer eftir hitastiginu á yfirborði hennar. Þvert á það sem margir halda eru bláar stjörnur miklu heitari en rauðar stjörnur! Rauðar stjörnur eru reyndar kaldastar! Minnstu rauðu stjörnurnar, sem eru kallaðar rauðir dvergar, eru langalgengustu stjörnurnar í vetrarbrautinni okkar.
Nýverið notaði hópur stjörnufræðinga mælitæki sem heitir HARPS og er á stórum stjörnusjónauka og komust að því að bergreikistjörnur, ekki mikið stærri en jörðin, eru mjög algengar á braut um rauða dverga. Slíkar reikistjörnur, sem eru örlítið stærri en jörðin okkar, eru kallaðar risajarðir.
Stjörnufræðingarnir áætla að risajarðir, sem eru í réttri fjarlægð frá stjörnunni til að vatn geti verið fljótandi á yfirborðinu, sé að finna í kringum fjórar af hverjum tíu rauðum dvergum í vetrarbrautinni okkar. (Væri reikistjarna of nálægt stjörnunni myndi vatnið gufa upp en frjósa ef hún er of langt frá hlýju stjörnunnar.)
Í vetrarbrautinni okkar eru um 160 milljarðar rauðra dverga. Það þýðir að í vetrarbrautinni gætu verið tugir milljarða reikistjarna, ekki mikið stærri en jörðin, sem hafa höf. Þetta er ótrúlega spennandi uppgötvun þar sem líf gæti þrifist á slíkum reikistjörnum.
Skemmtileg staðreynd: Sólin okkar er um 100 sinnum breiðari en jörðin en er samt dvergvaxin í samanburði við aðrar stjörnur. Hún er gulur dvergur, nánar til tekið.
Þessi frétt er unnin í góðu samstarfi við UNAWE og Space Scoop unawe1215