Sexhyrningur og hringar

11. febrúar 2013

  • Satúrnus, Sexhyrningurinn, Cassini
    Cassini geimfarið náði þessu sjónarhorni af sexhyrningnum á norðurhveli satúrnusar þann 27. nóvember 2012. Cassini var í um 649.000 km fjarlægð við tökuna. Mynd: NASA/JPL-Caltech/Space Science Institute

Sexhyrningurinn á norðurpól Satúrnusar baðar sig í sólargeislunum nú þegar vorið er gengið í garð á norðurhveli reikistjörnunnar. Í skýjaþykkninu á norðurpólsvæðinu sjást fjölmargir stormar sem líta út eins og litlir dílar. Í bakgrunni sést helsta einkenni reikistjörnunnar, hringarnir.

Sexhyrningurinn sást fyrst á myndum sem Voyager geimförin tóku upp úr 1980 en hann virðist varanlegt fyrirbæri í lofthjúpi Satúrnusar. Þú getur skoðað fleiri myndir af honum hér og hér.

Myndin var tekin með gleiðlinsu í gegnum innrauða ljóssíu (750 nanómetra bylgjulengd) í Cassini geimfarinu þann 27. nóvember árið 2012. Cassini var þá í um 649.000 km fjarlægð frá Satúrnusi. Á myndinni sjást smáatriði sem eru allt að 35 km að stærð.

Cassini er sameiginlegur leiðangur Bandaríkjanna og Evrópu. Verkefninu er stjórnað af Jet Propulsion Laboratory í Pasadena í Kaliforníu en þar fór hönnun, þróun og smíði Cassini geimfarsins fram. Teymið sem tók myndina samanstendur af vísindamönnum frá Bandaríkjunum, Englandi, Frakklandi og Þýskalandi.

Mynd: NASA/JPL-Caltech/Space Science Institute

Höfundur: Tryggvi Kristmar Tryggvason

Um fyrirbærið

  • Nafn: Satúrnus
  • Tegund: Reikistjarna
  • Fjarlægð: 9.53 SE

Myndir

Tengt efni

Ummæli