Norðurljós yfir Námafjalli

14. október 2013

  • Norðurljós yfir Námafjalli
    Norðurljós yfir Námafjalli. Mynd: Stephane Vetter

Gufa stígur upp í stjörnubjartan himinn prýddan norðurljósum frá hverasvæði Námafjalls á þessari glæsilegu mynd sem franski ljósmyndarinn Stephane Vetter tók í september 2013. Við höfum áður birt mynd frá honum úr einni af mörgum heimsóknum hans til Íslands.

Námafjall er háhitasvæði í Kröflu, skammt sunnan við öskju eldstöðvarinnar, við hlið þjóðvegarins sem liggur um Námaskarð, austan Bjarnarflags. Fram kemur á vef Skútustaðahrepps að á svæðinu séu gufu- og leirhverir en engir vatnshverir. Lengi vel var brennisteinn unnin við Námafjall (eins og nafnið gefur til kynna) en hann var fluttur út og notaður í byssupúður. Fræðast má um jarðhita við Námafjall á vef ÍSOR.

Á himninum dansa norðurljósin hins vegar friðsamlega og eru að mestu grænleit vegna örvaðs súrefnis. Þar fyrir ofan glittir naumlega í rauðleitan bjarma frá jónuðu nitri.

Mynd: Stephane Vetter

Texti: Sævar Helgi Bragason

Ummæli