Næsti nágranni sólar
28. október 2013
Hér sést næsti nágranni sólar í geimnum: Proxima Centauri.
Proxima Centauri er í rétt rúmlega fjögurra ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Mannfáknum. Hún virðist ægibjört á þessari mynd, eins og ef til vill mætti búast við um nálægustu stjörnunni við sólkerfið okkar, en þó sést hún ekki með berum augum. Proxima er mjög lítil og dauf í samanburði við aðrar stjörnur og er aðeins 8% af massa sólar.
Proxima Centauri er rauður dvergur, algengasta tegund stjarna í alheiminum. Hún er blossastjarna sem getur breytt birtu sinni umtalsvert. Rauðir dvergar endast lengst allra stjarna. Proxima á þannig mjög langa ævi fyrir höndum og mun skína í fjögur þúsund milljarða ára — 300 sinnum lengur en núverandi aldur alheimsins.
Proxima Centauri er minnsta stjarnan í kerfi þriggja stjarna. Hinar stjörnurnar tvær, Alfa Centauri A og B, eru mun bjartari en sjást ekki á þessari mynd.
Mynd: ESA/Hubble og NASA
Ummæli