Brosandi linsa

9. febrúar

  • Brosandi þyngdarlinsa, Einstein-hringur
    Brosandi þyngdarlinsa með Einstein hring

Á miðri myndinni sem tekin var með Hubblessjónauka NASA og ESA er vetrarbrautaþyrpingin SDSS J1038+4849. Engu líkara er en að hún sé skælbrosandi.

Appelsínugulu augun, hvíta nefið og brosið eru allt saman vetrarbrautir í mismikilli fjarlægð frá okkur. Augun innihalda svo mikið efni að til verður náttúruleg linsa, svokölluð þyngdarlinsa.

Vetrarbrautaþyrpingar eru efnismestu fyrirbærin í alheiminum. Þær hafa svo sterkan þyngdarkraft að þær geta sveigt tímarúmið í kringum sig og verkað sem náttúrulegar linsur sem magna, bjaga og beygja ljósið fyrir aftan þær. Almenna afstæðiskenning Einsteins útskýrir þyngdarlinsur af þessu tagi.

Í þyngdarlinsunni sem hér sést hefur myndast hringur — Einstein-hringur — þegar þyrpingin sveigir ljósgeisla frá fjarlægari vetrarbraut fyrir aftan.

Mynd: NASA & ESA. Þakkir: Judy Schmidt

Ummæli