Ósamhverf fegurð
4. apríl 2011
Hubblessjónauki NASA og ESA náði þessari mynd af óvenju fallegri hringþoku.
Hringþokur eru merki hnignunar meðalstórra stjarna (þeirra sem eru allt að átta sinnum massameiri en sólin). Þegar vetnisforðinn í kjarna þeirra er uppurinn þenjast ytri lögin út og kólna og mynda gas- og rykhjúp. Gasið glóir vegna sterkrar útfjólublárrar geislunar frá stjörnunni í miðjunni. NGC 5882 er nokkuð björt, en þó fremur lítil, hringþoka í stjörnumerkinu Úlfinum á suðurhveli himins.
Stundum líta hringþokur út fyrir að vera fullkomlega samhverfar þar sem gas þokast jafnt í allar áttir frá deyjandi stjörnunni. Þetta á hins vegar ekki við um NGC 5882 eins og mynd Hubblessjónaukans sýnir. Þokan virðist þvert á móti hafa tvö aðgreind og ósamfelld svæði, annars vegar teygða innri gasskel og hins vegar sporöskjulaga ytri skel sem umlykur hana.
Á mynd Hubbles sjást flóknir hnútar, þræðir og hnoðrar í skeljunum. Það er hins vegar deyjandi stjarnan í miðju hringþokunnar sem skín skært og yfirgnæfir myndina. Yfirborðshitastig hennar er um 70.000 gráður en til samanburðar er yfirborðshitastig sólar um 5.500 gráður. Hár yfirborðshiti þessa hvíta dvergs er afleiðing lífsbaráttu hans er hann leitar allra leiða til að hrynja ekki saman undan eigin þyngd.
Þessari mynd var skeytt saman úr myndum sem teknar voru með Wide Field Planetary Camera 2 á Hubblessjónaukanum. Ljós frá jónuðu súrefni er litað blátt, grænt og gult ljós litað grænt, ljós frá vetni litað dökkrautt og ljós frá nitri er litað ljósrautt. Heildarlýsingartími var tæplega 1.800 sekúndur. Myndin þekur aðeins 29 bogasekúndur af himinhvolfinu.
Mynd vikunnar kemur frá ESA/Hubble
Um fyrirbærið
-
Nafn: NGC 5882
-
Tegund: Hringþoka
-
Fjarlægð: 7.000 ljósár
Myndir
-
Upprunaleg í fullri stærð (.tif) 638,9 KB
-
Stór JPEG 108,7 KB
-
Skjástærð JPEG 176,5 KB
Ummæli