Myndbreyting Messier 8
16. maí 2011
Þessi mynd Hubblessjónaukans af Messier 8 er bæði litrík og súrrealísk, ekki ósvipuð málverki Salvadors Dalí. Þessi fæðingarstaður stjarna er í stjörnumerkinu Bogmanninum og er einnig betur þekktur sem Lónþokan.
Nafn þokunnar á vel við og er lýsandi fyrir fegurð hennar. En þótt lón lýsi mikilli rósemd er ekkert rólegt við þá háorkugeislun sem veldur því að skýið lýsist upp. Í innviðum þokunnar leynast massamiklar stjörnur sem gefa frá sér mikla útfjólubláa geislun sem mótar þokuna sérkennilega og veldur því að gasið jónast svo það lýsir. Úr verður fyrirbæri í um það bil fjögur til fimm þúsund ljósára fjarlægð sem sést með berum augum á heiðskíru kvöldi.
Frá því Messier 8 uppgötvaðist árið 1747 hefur hún verið ljósmynduð og rannsökuð á mörgum mismunandi bylgjulengdum. Með innrauðum nemum má gægjast djúpt í þokuna og rannsaka fyrirbærin sem þar leynast. Engin slík fyrirbæri sjást þó á þessari mynd enda tekin í sýnilegu ljósi og er óneitanlega ein af fallegri myndum sjónaukans.
Messier 8 er mjög stór — um 140 x 60 ljósár. Til að setja það í samhengi við sólkerfið okkar, þá nær braut Neptúnusar aðeins fjórar ljósklukkustundir frá sólu. Á myndinni hér að ofan sést einungis lítið svæði við miðju þokunnar en sjá má svæðin í kring, sem Hubble ljósmyndaði fyrir sömu rannsókn, hér.
Þessi mynd er sett saman úr myndum sem teknar voru með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Myndir sem sýna rafað vetni voru litaðar rauðar, myndir sem sýna jónað nitur voru litaðar grænar og myndir teknar í gegnum gula síu voru litaðar bláar. Heildarlýsingartími nam tæpri klukkustund. Bláhvíta ljósið sem sést neðarlega til vinstri er tvístrað ljós frá stjörnu rétt fyrir utan sjónsviðið sem spannar 3,3 x 1,7 bogamínútur af himinhvelfingunni.
Mynd vikunnar kemur frá Hubble/ESA og NASA
Um fyrirbærið
-
Nafn: Lónþokan / Messier 8
-
Tegund: Ljómþoka / rafað vetnisský
- Fjarlægð: 4-5.000 ljósár
- Stjörnumerki: Bogmaðurinn
Myndir
-
Upprunaleg stærð (.tif) 17,7 MB
-
Stór JPEG 4,1 MB
-
Skjástærð JPEG 154,9 KB
Ummæli