Forsmekkur verðandi sprengistjörnu

20. febrúar 2012

  • Eta Carinae, Kjalarþokan, Kjölurinn
    Eta Carinae er stjarna í kjalarþokunni í dauðateygjum. Hún liggur í stjörnumerkinu Kilinum í um 7500 ljósára fjarlægð.

Í upphafi 19. aldar var tvístirnið Eta Carinae dauft og óáberandi en á fyrstu áratugum þeirrar aldar skeið það stöðugt skærar uns það varð næst bjartasta stjarna himins í apríl 1843 á eftir Síríusi (sem er um þúsund sinnum nær jörðinni). Árin á eftir dofnaði hún á nýjan leik og í upphafi 20. aldar sást hún ekki lengur með berum augum.

Æ síðan hefur birta Eta Carinae sveiflast og þó hún hafi um skamma hríð orðið sýnileg með berum augum aftur, náði hún aldrei sömu hæðum og árið 1843.

Stærri stjarnan í Eta Carinae kerfinu er gríðarstór og óstöðug stjarna sem nálgast endalok ævi sinnar og í atburðinum á 19. öld var hún nær dauða en lífi. Stjörnufræðingar kalla hviður af þessu tagi svikula sprengistjörnu því þær líkjast sprengistjörnum mjög en stöðvast rétt áður en stjarnan springur í tætlur.

Á 19. öld bjuggu stjarnvísindamenn ekki yfir nægilega öflugum sjónaukum til að skoða hviðuna árið 1843 í smáatriðum en í dag eru áhrif hennar greinileg. Eftir að Hubblessjónaukanum var skotið á loft árið 1990 hefur honum margoft verið beint að stóru skýjunum sem mynduðust þegar stjarnan varpaði efni frá sér fyrir einni og hálfri öld. Þetta ský hefur verið nefnt Dvergþokann eða einfaldlega Dvergurinn. Myndin sem hér sést, sem tekin var með háskerpurás Advanced Camera for Surveys, er sú nákvæmasta sem tekin hefur verið af þokunni. Hún sýnir að stjarnan varpaði efninu ekki frá sér á einsleitan hátt, heldur er skýið eins og lóð í laginu.

Eta Carinae er ekki aðeins áhugaverð fortíðarinnar sinnar vegna heldur þess sem bíður hennar. Hún er ein nálægasta stjarnan við jörðin sem er líkleg til að springa í tiltölulega nálægri framtíð. Búast má við miklu sjónarspili hér á jörðinni þegar það gerist, enda verður hún þá miklu bjartari en seinast þegar hún minnti á sig. Bjartasta sprengistjarna sem sést hefur, SN 2006gy, var stjarna af sömu gerð og Eta Carinae.

Þessi mynd var sett saman úr ljósmyndum stem teknar voru í sýnilegu og útfjólubláu ljósi með Advanced Camera for Surveys. Sjónsviðið er um það bil 30 bogasekúndur í þvermál.

Mynd: NASA/ESA og Hubble

Um fyrirbærið

  • Nafn: Eta Carinae
  • Tegund: Stjarna
  • Stjörnumerki: Kjölurinn
  • Fjarlægð: 7.500 ljósár

Myndir

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli