Fegurð á rönd
14. maí 2012
Í stjörnumerkinu Andrómedu er NGC 891 í um 30 milljón ljósára fjarlægð frá jörðu. Hubblessjónauki NASA og ESA beindi hinni öflugu Advanced Camera for Surveys í átt að þessari þyrilvetrarbraut og tók þessa nærmynd af norðurhelmingi hennar. Miðbunga vetrarbrautarinnar er rétt fyrir utan rammann, neðst til vinstri.
Vetrarbrautin, sem spannar um 100.000 ljósár, er nákvæmlega á rönd og því sést vel þykkur ryk- og gasflötur hennar. Upphaflega var talið að hún líktist okkar eigin vetrarbraut, ef við sæjum hana á hlið, en rannsóknir hafa leitt í ljós að langir þræðir úr gasi og ryki teygja sig nokkur hundruð ljósár út úr fleti hennar og út í hjúpinn. Þræðirnir sjást glögglega á myndinni fyrir framan bjartan vetrarbrautarhjúpinn sem teygir sig út frá vetrarbrautarfletinum.
Stjörnufræðingar telja að rekja megi þessa þræði til efnis sem sprengistjörnur þeyta frá sér eða til öflugra stjörnumyndunarsvæða. Þegar stjörnur lýsast upp í fæðingu, eða springa þegar þær deyja, mynda þær öfluga vinda sem getur blásið ryki og gasi mörg hundruð ljósár út í geiminn.
Nokkrar stjörnur í forgrunni tilheyra vetrarbrautinni okkar en í bakgrunni má sjá fjarlægar sporvöluvetrarbrautir, neðarlega til hægri á myndinni.
NGC 891 er hluti af litlum vetrarbrautarhópi sem þyngdarkrafturinn bindur saman.
Mynd: ESA/Hubble og NASA
Um fyrirbærið
- Nafn: NGC 891
- Tegund: Vetrarbraut
- Stjörnumerki: Andrómeda
- Fjarlægð: 30 milljónir ljósára
Ummæli