Kúluþyrpingin M10

18. júní 2012

  • Messier 10, M10, Kúluþyrping
    Messier 10 er kúluþyrping, staðsett í stjörnumerkinu Naðurvalda í um 150.000 ljósára fjarlægð frá jörðu. Þessi mynd sýnir bjartasta svæði þyrpingarinnar, hún sýnir svæði sem er um 13 ljósár í þvermál.

Líkt og við á um mörg fræg fyrirbæri á himninum vakti kúluþyrpingin Messier 10 lítinn áhuga hjá þeim sem uppgötvaði hana: Charles Messier, franska stjörnufræðingnum sem skrásetti yfir 100 þokur og þyrpingar á 18. öld. Hann hafði mestan áhuga á halastjörnum. Í sjónaukum þess tíma virtust halastjörnur, gasþokur, kúluþyrpingar og vetrarbrautir einungis vera þokukenndir hnoðrar sem auðvelt var að rugla saman.

Aðeins var hægt að greina fyrirbærin í sundur með því að fylgast með hreyfingu þeirra — eða skorti á hreyfingu. Halastjörnur hreyfast hægt miðað við stjörnur í bakgrunni á meðan fjarlægari fyrirbæri færast ekki neitt.

Ákvörðun Messiers um að skrásetja öll þau fyrirbæri sem hann fann og voru ekki halastjörnur var góð lausn sem átti eftir að hafa mikil áhrif á stjörnufræði. Skrá hans yfir rétt rúmlega 100 fyrirbæri geymir mörg af þekktustu fyrirbærum á næturhimninum. Messier 10, sem sjá má á myndinni að ofan frá Hubblessjónauka NASA og ESA, er eitt þeirra fyrirbæra. Messier lýsti henni í fyrstu útgáfu skrár sinnar sem gefin var út árið 1774 og innihélt fyrstu 45 fyrirbærin sem hann bar kennsl á.

Messier 10 er kúla af stjörnum í um 15.000 ljósára fjarlægð frá jörðu í stjörnumerkinu Naðurvalda. Hún er um 80 ljósár í þvermál og ætti því að vera um tveir-þriðju hlutar af stærð tunglsins á næturhimninum. Hins vegar eru ystu hlutar þyrpingarinnar mjög dreyfðir og jafnvel kjarni þyrpingarinnar of daufur til að sjá með berum augum.

Hubble, sem á ekki í vandræðum með að sjá dauf fyrirbæri, hefur tekið mynd af bjartasta hlutanum, í miðju þyrpingarinnar. Myndin sýnir svæði sem er yfir 13 ljósára á breidd.

Myndin er sett saman úr athugunum í sýnilegu og innrauðu ljósi með Advanced Camera for Surveys á Hubble. Þessi mynd er hluti af stóru rannsóknarverkefni um kúluþyrpingar í vetrarbrautinni okkar.

Mynd: ESA/Hubble og NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: Messier 10
  • Tegund: Kúluþyrping
  • Stjörnumerki: Naðurvaldi
  • Fjarlægð: 15.000 ljósár

Myndir

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli