Nálæg vetrarbraut á rönd

9. júlí 2012

  • Nálin, NGC 4565, Bereníkuhaddur, þyrilvetrarbraut
    NGC 4565 (eða Nálin) er þyrilvetrarbraut sem við sjáum á rönd í stjörnumerkinu Bereníkuhaddi. Vetrarbrautin er í 40 milljóna ljósára fjarlægð. Mynd: ESA/Hubble og NASA

Þessi mynd sem Hubblessjónaukinn tók, sýnir hluta þyrilvetrarbrautarinnar NGC 4565 í ótrúlegri upplausn. Þessi bjarta vetrarbraut er ein af frægustu vetrarbrautum sem við sjáum á rönd og horfum við beint inn í bjarta vetrarbrautarskífuna. NGC 4565 hefur fengið viðurnefnið Nálin vegna þess að hún lítur út eins og örmjótt strik á himininum.

Sjónarhornið inn í Nálina á þessari mynd líkist sjónarhornið sem við höfum í okkar eigin vetrarbraut. Í báðum tilvikum sjást rykþræðir sem deyfa hluta ljóssins sem berst úr vetrarbrautarskífunni. Neðarlega til hægri er rykið enn greinilegra þar sem það kemur í veg fyrir að bjarta gula ljósið frá stjörnuskini miðsvæðisins berist til okkar. Kjarni NGC 4565 er rétt fyrir utan rammann neðarlega til hægri. Hægt er að sjá alla vetrarbrautina á myndum frá VLT sjónauka ESO.

Með því að rannsaka vetrarbrautir eins og NGC 4565 geta stjarneðlisfræðingar lært meira um vetrarbrautina okkar. Þar sem NGC 4565 er aðeins í 40 milljóna ljósára fjarlægð og á rönd frá okkur séð, er hún einstaklega hentug til samanburðarrannsóknaa. Miðað við aðrar þyrilvetrarbrautir er NGC 4565 meðalstór — um það bil þriðjungur af stærð okkar vetrarbrautar.

Myndin var tekin með Advanced Camera for Surveys á Hubble og spannar um það bil 3,4 bogamínútur af himninum. Ein útgáfa af þessari mynd var send inn í ljósmyndakeppnina Hubble's Hidden Treasures af keppandanum Josh Barrington.

Mynd: ESA/Hubble og NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: NGC 4565

  • Tegund: Þyrilvetrarbraut

  • Stjörnumerki: Bereníkuhaddur

  • Fjarlægð: 40 milljónir ljósára

Þysjanleg mynd

Myndir

Tengt efni

Ummæli