Apollo 11

Fyrsta tungllendingin

  • Apollo 11
    Apollo 11

Með Apollo 11 tókst Bandaríkjamönnum að uppfylla þau markmið sem John F. Kennedy Bandaríkjaforseti hafði sett fram í ræðu sinni fyrir bandaríska þingið þann 25. maí 1961. Þar sagði Kennedy:

Ég tel að þessi þjóð ætti að einsetja sér, að ná því markmiði, áður en áratugurinn er úti, að senda mann til tunglsins og koma honum örugglega heim til jarðar aftur.[2]

Apollo 11 var skotið á loft frá Kennedy geimferðamiðstöðinni á Canaveralhöfða í Flórída þann 16. júlí 1969. Geimfarið kom til tunglsins þann 19. júlí og lenti á yfirborði þess 20. júlí. Þann 24. júlí sneru geimfararnir heim til jarðar.

Tunglferjan var nefnd Örninn (Eagle) eftir skallaerninum á merki leiðangursins (sem Michael Collins hannaði) og þjóðartákni Bandaríkjanna. Örninn heldur á ólífugrein sem táknar frið. Stjórnfarið var nefnt Kólumbía sem er kvenkynsnafn Bandaríkjanna í ljóðum og söngvum. Kólumbía er til sýnis í Smithsonian Loft- og geimferðasafninu í Washington, D.C.

1. Áhöfn

Áhöfn Apollo 11 skipuðu þeir:[3]


neil_armstrong

Neil Alden Armstrong, leiðangursstjóri (mission commander), fæddur 5. ágúst, 1930 í Wapakoneta í Ohio. Armstrong fékk snemma áhuga á flugi og flugvélum og sá áhugi átti eftir að koma honum út í geiminn. Árið 1955 útskrifaðist hann með B.S. gráðu í flugverkfræði frá Purdue háskóla og ákvað í kjölfarið að gerast tilraunaflugmaður. Armstrong flaug og prófaði yfir 50 mismunandi flugvélar, meðal annars X-15 flugvélunum sjö sinnum. Með þeim komst hann mest í 63,2 km hæð og 5,7 földum hljóðhraða (6615 km/klst). Í september 1962 var Armstrong valinn í níu manna hóp nýrra geimfara hjá NASA, fyrsti geimfarinn sem var ekki orrustuflugmaður heldur almennur borgari. Armstrong fór tvisvar út í geiminn, annars vegar með Gemini 8 og hins vegar með Apollo 11. Hann var einnig í varaáhöfn Gemini 5, Gemini 11 og Apollo 8. Neil Armstrong kom til Íslands í æfingaferð árið 1967 ásamt nokkrum öðrum geimförum. Armstrong hætti hjá NASA árið 1971. 


buzz_aldrin

Edwin Eugene "Buzz" Aldrin, yngriflugmaður tunglferju (lunar module pilot), fæddur 20. janúar, 1930 í Glen Ridge í New Jersey. Aldrin útskrifaðist með B.S. próf frá bandaríska herskólanum árið 1951 og lauk doktorsprófi í geimverkfræði frá MIT árið 1963. Doktorsritgerðin hans fjallar um hvernig hægt er að tengja tvö geimför saman á braut um jörðina eða einhvern annan hnött, atriði sem reyndist gríðarmikilvægt í að koma mönnum til tunglsins. Aldrin var orrustuflugmaður hjá bandaríska hernum og flaug meðal annars í Kóreustríðinu. Í október 1963 var Aldrin valinn í fjórtán manna hóp nýrra geimfara hjá NASA. Aldrin var í varaáhöfn Gemini 9 en fór fyrst út í geiminn með Gemini 12 árið 1966. Geimini 12 var mjög mikilvægur leiðangur því í honum voru gerðar prófanir á geimgöngum. Fyrir leiðangurinn hafði Aldrin þróað byltingarkennda æfingatækni fyrir geimgöngur sem meðal annars fólust í þjálfun í vatni. Þessi æfingatækni er enn notuð í dag. Í Apollo 11 varð Aldrin annar maðurinn til þess að ganga á tunglinu. Aldrin hætti hjá NASA í júlí 1971. Árið 1988 breytti hann formlega nafninu sínu í Buzz Aldrin. Uppruni Buzz nafnsins má rekja til systur hans sem í barnæsku bar orðið “brother” ranglega fram “buzzer”.[1]  Eftir tunglferðina þjáðist Buzz af miklu þunglyndi og áfengissýki, eins og hann lýsir í ævisögu sinni Magnificent Desolation.


michael_collins

Michael Collinsflugmaður geimferju (command module pilot), fæddur 31. október, 1930 í Róm á Ítalíu. Hann útskrifaðist með B.S. próf frá bandaríska herskólanum árið 1952. Collins var tilraunaflugmaður hjá hernum og var árið 1963 valinn í fjórtán manna hóp nýrra geimfara hjá NASA (þriðji geimfarahópurinn). Hann var varaflugmaður í Gemini 7 en fór fyrst út í geiminn með Gemini 10 árið 1966 og svo aftur með Apollo 11. Upphaflega átti Michael Collins að vera flugstjóri í Apollo 8, sem var fyrsti mannaði leiðangurinn til tunglsins (lentu ekki) en var færður um set eftir aðgerð á baki. Í stað hans kom Jim Lovell sem var þá varamaður hans. Eftir að Collins hafði jafnað sig á aðgerðinni tók hann sæti Lovells í Apollo 11 en Lovell flaug svo með Apollo 13 stuttu seinna. Collins hætti hjá NASA í janúar 1970.

Í varaáhöfninni voru þeir:

  • James A. Lovell, yngri, leiðangursstjóri, fór tvisvar til tunglsins með Apollo 8 og Apollo 13, en gekk aldrei á því. 

  • William A. Anders, flugmaður tunglferju, flaug til tunglsins með Apollo 8 

  • Fred W. Haise, yngri, flugmaður geimferju, flaug til tunglsins með Apollo 13

2. Forsaga

Um jólaleytið 1968 hafði hringsól þriggja geimfara um borð í Apollo 8 fært Bandaríkjunum forystuna í geimkapphlaupinu. Í fyrsta sinn virtist sem markmiðið sem John F. Kennedy setti árið 1961 – að lenda manni á tunglinu fyrir lok sjötta áratugarins – væri í augsýn. Ef allt gengi samkvæmt áætlun gæti NASA náð markmiðinu nokkru áður en áratugurinn var allur. Í júlí 1969 stefndi NASA að því að lenda Apollo 11 á tunglinu, fyrr en bjartsýnustu menn þorðu að vona.

Mánudaginn 6. janúar kallaði Deke Slayton Neil Armstrong inn á skrifstofu sína í Houston í Texas. Deke Slayton var einn af sjö fyrstu geimförum NASA, valinn fyrir Mercury áætlunina árið 1959. Slayton átti að verða annar Bandaríkjamaðurinn á sporbraut umhverfis jörðina en við læknisskoðun kom í ljós hjartagalli sem kom í veg fyrir að hann færi út í geiminn í rúman áratug. Þess í stað fékk Slayton starf hjá NASA við að velja og þjálfa áhafnirnar, þ.e.a.s. að vera yfirmaður geimfaranna.

ahofn_apollo_11
Áhöfn Apollo 11 á mynd sem tekin var í maí 1969. 

Þennan mánudagsmorgun hafði Neil Armstrong haldið til vinnu og aðeins grunað hvað væri í vændum. Slayton hafði ákveðið að setja áhöfn Armstrongs á Apollo 11. Buzz Aldrin yrði flugmaður tunglferjunnar og Mike Collins, sem þá hafði nýlega náð sér að fullu eftir aðgerð á baki, yrði flugmaður stjórnfars. Skipanin átti ekki að verða opinber fyrr en nokkrum dögum síðar. Um leið og áhöfnin var samþykkt hófu þeir Neil, Buzz og Mike stífar æfingar fyrir fyrstu tungllendinguna. Síðar lýsti Armstrong því yfir að hafa verið mjög ánægður með þessa fyrirætlan en þó ekki beinlínis í sjöunda himni þegar hann yfirgaf skrifstofu Slaytons. Armstrong vissi að enn var margt ógert og þeir hefðu aðeins sjö mánuði til að æfa fyrir eina mikilvægustu geimferð sögunnar.

Að ætla að lenda manni á tunglinu eftir aðeins fjóra mannaða Apollo leiðangra virtist, fljótt á litið, óhófleg bjartsýni. Armstrong og allir aðrir vissu að framundan voru fjölmörg ljón í veginum sem átti eftir að yfirstíga. Ekki var liðið nema ár frá því að tunglferjan var prófuð í fyrsta sinn ómönnuð á braut um jörðina. Enginn geimfari hafði flogið henni úti í geimnum hingað til. Geimbúningurinn, sem hannaður var fyrir tunglgönguna, hafði sömuleiðis aldrei verið prófaður í geimnum. Engin Apollo áhöfn hafði prófað að tengja saman tunglferjuna og stjórnfarið í geimnum, nokkuð sem nauðsynlegt var að prófa bæði á braut um jörðina og tunglið áður en lendingin sjálf gæti átt sér stað. Þótt ótrúlegt megi virðast hugðist NASA yfirstíga báðar þessar hindranir með tveimur leiðöngrum: Apollo 9 og Apollo 10. Armstrong taldi harla litlar líkur á að báðir leiðangrarnir gengju eins og í sögu. Hann var fjarri því viss um að í júlí yrði hann við stjórnvölin í fyrsta leiðangri manna til að lenda á tunglinu.[1]

2.1. Prófun tunglferju og geimbúnings

rusty_schweickart_apollo_9_geimganga
Rusty Schweickart prófar geimbúninginn í leiðangri Apollo 9

Þann 3. mars var Apollo 9 skotið á loft. Um borð voru þrír geimfarar, þeir Jim McDivitt, David Scott og nýliðinn Rusty Schweickart. Schweickart átti að fara í fyrstu geimgöngu Apollo verkefnisins, íklæddur geimbúningnum sem nota átti á tunglinu. Var þetta í fyrsta sinn sem hann var prófaður. Skömmu eftir komuna út í geiminn þjáðist Schweickart af flugveiki sem batt næstum endi á leiðangur Apollo 9. Geimgöngunni var frestað en daginn eftir leið Schweickart miklu betur og varði þá 37 mínútum utan geimfarsins sem sannfærði alla um ágæti geimbúningsins. Schweickart fór aldrei aftur út í geiminn.

Mikilvægasti hluti Apollo 9 var að prófa að losa tunglferjuna frá stjórnfarinu og fljúga henni mannaðri í fyrsta skipti með þeim McDivitt og Schweickart innanborðs. McDivitt og Schweickart áttu svo að tengjast aftur stjórnfarinu sem Dave Scott flaug.

Buzz Aldrin fylgdist sérstaklega náið með þessum hluta leiðangursins frá stjórnstöðinni í Houston í Texas. Aldrin var fyrsti geimfarinn sem hafði doktorspróf en doktorsritgerðin hans fjallaði um aðferðir til að tengja geimför saman úti í geimnum. Aldrin hafði óbilandi áhuga á samtengingu geimfara og var í raun arkitektinn á bak við tæknina sem notast var við í ríflega 250 km hæð yfir jörðinni þessa stundina.

Samtenging tunglferjunnar og stjórnfarsins tókst vonum framar. Áhöfn Apollo 9 náði að uppfylla öll helstu markmið leiðangursins. Á þeirri stundu vissi Aldrin að Apollo 10 yrði líka árangursríkur leiðangur og að hann og Armstrong myndu gera tilraun til að lenda á tunglinu. Þann 24. mars gerði NASA það opinbert að áhöfn Apollo 11 væri að æfa fyrir fyrstu mönnuðu tungllendinguna.[1]

2.2. Lokaæfingin fyrir tungllendinguna

Þrátt fyrir árangur Apollo 9 átti enn eftir að yfirstíga eina hindrun áður en áhöfn Apollo 11 gat lagt af stað til tunglsins. Apollo 10 var lokaæfingin fyrir sjálfa tungllendinguna.

Um miðjan maímánuð var Apollo 10 skotið á loft með þá Gene Cernan, Tom Stafford og John Young innanborðs. Í leiðangrinum áttu Stafford og Cernan að fljúga tunglferjunni, sem kölluð var Snoopy, umhverfis tunglið sjálft á meðan Young beið í og flaug stjórnfarinu sem kallað var Charlie Brown.

Fimmtudaginn 22. maí losnaði tunglferjan frá stjórnfarinu. Stafford og Cernan vissu að þeir væru að fljúga geimfari sem gæti ekki flogið þeim heim til jarðar. Færi eitthvað úrskeiðis þyrfti Young að fljúga stjórnfarinu og sækja félaga sína sem annars yrðu strandaglópar í kringum tunglið.

tunglferjan_snoopy_apollo_10
Tunglferjan á braut um tunglið á lokaæfingu Apollo 10 fyrir tungllendingu Apollo 11.

Skömmu eftir að tunglferjan losnaði frá stjórnfarinu ræstu þeir eldflaugar tunglferjunnar. Þessi bruni stóð yfir í hálfa mínútu og lækkaði brautina úr tæpum 110 km niður í aðeins 14 km (50.000 fet). Tímasetning brunans skipti sköpum. Ef eldflaugarnar brynnu tveimur sekúndum of lengi færi tunglferjan of langt og myndi að lokum brotlenda á tunglinu. Bruninn gekk eins og í sögu og sýndi tölvan um borð að tunglferjan var á hárréttri braut. Geimförunum var létt.

Stafford og Cernan höfðu oft flogið flugvél í 50.000 feta hæð, en þessi flugferð var engri lík. Enginn hafði áður flogið jafn hratt í jafn lítilli hæð og þeir. Tunglferjan var á meira en fimmföldum hljóðhraða. Stafford og Cernan voru á fleygiferð yfir tunglinu.

Í 14 km hæð nutu Stafford og Cernan stórkostlegs útsýnis sem enginn maður hafði áður augum litið. Bergnumdir ljósmynduðu þeir og könnuðu fyrirhugaðan lendingarstað Apollo 11 sem var nærri suðvesturbrún Friðarhafsins. Að sögn Staffords var staðurinn rennisléttur, ekki ósvipaður útlits og blautur leir. Hann sagði lendingarstaðinn sléttari en hann átti von á en varaði við því að ef Armstrong og Aldrin bæri af leið, væri svæðið erfiðara viðfangs. Þá væri eins gott að þeir hefðu nægt eldsneyti til að fljúga um og finna öruggann lendingarstað.

Þrjátíu og einni klukkustund eftir þessar prófanir, þann 24. maí, tengdist tunglferjan aftur stjórnfarinu. Önnur áhöfn tunglfara var á heimleið. Í Houston var áhöfn Apollo 11 við æfingar. Þegar Apollo 10 sneri heim til jarðar var aðeins tungllendingin sjálf eftir.[1]

3. Hvor fer út á undan?

buzz_aldrin_bladamannafundur
Buzz Aldrin með líkan af tunglferjunni á blaðamannafundi

Sumarið 1968 hafði ákvörðun verið tekin um að í fyrsta lendingarleiðangrinum skyldi aðeins farið í eina tunglgöngu. Í febrúar 1969 var ákveðið að hún skyldi standa yfir í 2 klukkustundir og 40 mínútur hið mesta. Neil og Buzz æfðu stíft fyrir þennan stutta tíma sem þeir höfðu á tunglinu. Þeir áttu að safna berg- og ryksýnum af yfirborðinu, setja upp einfaldar vísindatilraunir og taka ljósmyndir. Allt var fyrirfram ákveðið.

Læknar hjá NASA héldu því fram að Armstrong og Aldrin ættu eftir að eiga í stökustu vandræðum með að athafna sig á tunglinu. Þeir myndu hreinlega keyra sig út í leiðinni. Aldrin var handviss um að svo væri ekki. Hann hafði þegar sýnt fram á að geimfarar voru færir um að gera nytsama hluti í þyngdarleysi og var klár á því að tunglgangan yrði leikur einn með hjálp þyngdartogs tunglsins.

Aldrin hafði meiri áhyggjur af fjölmiðlaathyglinni. Honum þótti óþægilegt að vera í kastljósi fjölmiðlanna. Hann vissi að fjölmiðlar myndu sýna Apollo 11 meiri áhuga en nokkurri annarri geimferð. Svo óþægileg þótti honum tilhugsunin að hann hefði frekar viljað vera um borð í annarri eða þriðju tungllendingunni í stað þeirrar fyrstu, hefði hann fengið að velja. Hann taldi sig geta nýtt vísindahæfileika sína betur í öðrum leiðangri; leiðangri sem vekti minni eftirekt. Enginn vissi, að eiginkonu Aldrins undanskildri, að hann hafði velt fyrir sér að hætta við þegar hann komst að því að hann yrði í fyrstu áhöfninni sem lenti á tunglinu. Hann vissi að ef hann bæði um að verða færður væri allt eins líklegt að hann færi aldrei til tunglsins.

Aldrin upplýsti síðar að hann hefði verið mjög á báðum áttum þegar fyrsta spurningin á fyrsta blaðamannafundinum var borin upp, eftir að tilkynnt var um áhöfn Apollo 11: „Hvor ykkar verður fyrsti maðurinn sem gengur á tunglinu?" Deke Slayton sat fyrir svörum ásamt Neil, Buzz og Mike og tjáði fjölmiðlum að það væri óákveðið. Armstrong bætti við, „Það er ekki byggt á óskum einstaklinga,” og sagði að það yrði ákveðið eftir því sem fram í sækti og réðist af því hvernig best væri að ná markmiðum leiðangursins. Þeir vissu vel að þeir voru fáir geimfararnir sem vildu ekki verða fyrstir til að ganga á tunglinu.

Aldrin átti sér þá ósk að verða fyrstur og fór ekkert sérstaklega leynt með það. Að lokum var það allsendis ótengt óskum geimfaranna sem réði því hvor þeirra fór fyrstur út: Fremri lúga tunglferjunnar.

tunglferjan_ahafnarklefi
Áhafnarklefi tunglferjunnar. Lúgan (neðst, fyrir miðju) opnaðist til hægri.

Í tunglferjunni var lítið pláss fyrir fullklædda geimfara að athafna sig. Til þess að annar geimfarinn kæmist út úr ferjunni varð hinn, sem var fjær lúgunni, að halda henni opinni og standa í sínu horni. Sá geimfari sem fór út varð að leggjast niður á magann og skríða aftur á bak í gegnum 81 cm breitt ferhyrningslaga op. Að komast út úr tunglferjunni var ekki ósvipað og að fæðast. Læknar sem fylgdust með hjartslætti geimfaranna sögðu að hann hafi verið mestur þegar geimfararnir fóru inn og út úr tunglferjunni. 

Nokkrum árum áður, þegar fyrsta tungllendingin var fjarlægur draumur, hönnuðu verkfræðingar hjá Grumman lúguna þannig að hún opnaðist frá vinstri til hægri, það er í átt að þeirri hlið tunglferjunnar þar sem flugmaður ferjunnar var. Buzz stóð hægra meginn í ferjunni og eina leiðin til þess að hann kæmist út á undan Armstrong væri sú að þeir skiptu um stað. Það var vel gerlegt fyrir menn í venjulegum fötum en ómögulegt í þrýstijöfnuðum geimbúningum og með fyrirferðamikinn bakpoka. Dag einn reyndu þeir Armstrong og Aldrin það, í fullum skrúða í líkani af tunglferjunni, en tókst ekki betur upp en svo að þeir skemmdu stjórnklefann. Deke Slayton varð vitni að þessu og vissi að þetta gat ekki gengið svona. Neil yrði að fara fyrstur út.

Skipuleggjendur ferðarinnar höfðu komist að sömu niðurstöðu í febrúar en fram á vormánuði höfðu Armstrong og Aldrin ekki verið látnir vita af henni. Aldrin hafði heyrt orðróm þess efnis að Armstrong færi fyrstur út vegna þess að hann var almennur borgari og að NASA vildi að sá sem tæki fyrstu skrefin á öðrum hnetti væri ótengdur hernaði. Þrátt fyrir að þessi orðrómur ætti sér engar stoðir í raunveruleikanum ákvað Aldrin að taka málið upp við Armstrong enda taldi hann þetta slæmt upp á andrúmsloftið að gera. Aldrin gekk inn á skrifstofu Armstrongs og sagði: „Neil, við verðum að komast að niðurstöðu um þetta. Ég er viss um að þú veist hvernig mér líður með þetta…”

Armstrong virtist óöruggur en sagði: „Buzz, ég geri mér grein fyrir sögulegu miklvægi þessarar ákvörðunar og ég ætla ekki að útiloka sjálfan mig.”

Nokkrum árum síðar mundi Neil að sögn ekkert eftir þessu samtali. Hann vissi hver skoðun Aldrins var og þótti þetta leit þar sem sér hefði verið nokkuð sama. Armstrong hafði ekkert með ákvörðunina að gera og var raunar ekki spurður um sína skoðun fyrr en eftir að ákvörðunin hafði verið tekin. Slayton kom að máli við hann og sagði honum frá fyrirætluninni. Í huga Slaytons var ákvörðunin kristaltær, burt séð frá lúgunni. Armstrong var leiðangursstjóri Apollo 11 og reyndari geimfari og ætti því að stíga fyrstur fæti á tunglið.[1]

buzz_aldrin_utganga_ur_tunglferju_litil
Buzz Aldrin kemur út úr Erninum. Neil Armstrong tók þessar myndir þegar Buzz Aldrin kom út úr Erninum á tunglinu. Eins og sjá má urðu tunglfararnir að krjúpa og skríða aftur á bak út úr opinu. Ef vel er að gáð sést hvernig lúgan opnast frá vinstri til hægri. Buzz Aldrin stóð hægra meginn í tunglferjunni og varð því að bíða á meðan Neil Armstrong fór fyrstur út. Þú getur séð stærri mynd með því að smella á hana.

4. Ferðalagið til tunglsins

Um miðjan júnímánuð höfðu geimfararnir og þeir sem stjórnuðu leiðangrinum frá Houston æft stíft í sex mánuði. Leiðangursstjórar í Houston töldu sig hafa lært rétt viðbrögð við hverju sem hugsanlega gat komið upp. Yfirmenn NASA höfðu meiri áhyggjur af geimförunum sjálfum. Þeir virtust þreyttir og töldu sumir að þeir yrðu ekki tilbúnir í tæka tíð í júlí. NASA velti fyrir sér að fresta geimskotinu fram í ágúst.

Dag einn heimsótti Deke Slayton geimfaranna til að kanna hug þeirra. Collins sagðist tilbúinn en að byrðinn lægi á herðum félaga sinna. Aldrin vildi ekki að þjálfunin drægist á langinn þar sem hann taldi litlar líkur á að þeir yrðu betur undirbúnir í ágúst. Armstrong sagði Slayton að þetta stæði tæpt, en að þeir yrðu tilbúnir í júlí. Þann 12. júní ákvað NASA formlega að Apollo 11 skyldi skotið á loft þann 16. júlí.

apollo_11_geimskot
Satúrnus 5 (Saturn V) eldflaug hefst á loft með Apollo 11.

Milljónir manna fylgdust með því í beinni sjónvarpsútsendingu þegar Satúrnus 5 (Saturn V) eldflaugin hóf sig á loft frá Kennedy geimferðamiðstöðinni í Flórída, miðvikudaginn 16. júlí klukkan 13:32 að íslenskum tíma, eða 09:32 að staðartíma. Einungis tólf mínútum síðar var Apollo 11 kominn á braut um jörðina. Eftir eina og hálfa umferð í kringum jörðina ræsti Collins eldflaugarnar sem kom þeim á rétta leið til tunglsins. Hálftíma síðar losaði hann stjórnfarið sjálft frá efsta þrepi Satúrnus 5 eldflaugarinnar og tengdist tunglferjunni.

Þremur dögum síðar, þann 19. júlí, var Apollo 11 kominn til tunglsins. Á fjarhlið þess ræsti Collins eldflaugarnar til þess að komast á braut um tunglið. Á þeim þrjátíu hringferðum sem fylgdu í kjölfarið sáu þeir lendingarstað sinn við suðurbrún Friðarhafsins. Armstrong þekkti lendingarstaðinn vel eftir að hafa varið talsverðum tíma í að skoða myndir sem ómönnuð könnunarför og Apollo 10 höfðu tekið. Nú þegar hann var sjálfur á braut um tunglið sá hann Friðarhafið með eigin augum.

Geimskot Apollo 11 hafði verið tímasett nákvæmlega svo að þegar lendingin ætti sér stað væri sólin 10 gráðum ofan sjóndeildarhrings. Þannig myndu gróf kennileiti á yfirborðinu varpa greinilegum skuggum sem myndi hjálpa þeim að finna öruggan lendingarstað.

Fyrirhugað lendingarsvæði var sporöskjulaga, 18 km langt og 5 km breitt. Lendingarsvæðið var sem sagt álíka langt og vegalengdin frá Hafnarfirði og inn í Mosfellsbæ. Lendingarstaðurinn var valinn vegna þess að hann var talinn frekar sléttur og flatur; frekar óspennandi en ólíklegur til að valda skakkaföllum. Út frá jarðfræðilegu sjónarmiði voru fjölmargir aðrir lendingarstaðir miklu áhugaverðari, en þeir voru líka miklu hættulegri og erfiðara að nálgast. Áhugaverðari lendingarstaðir biðu seinni leiðangra.

Í hönd fór erfiðasti og um leið hættulegasti hluti ferðarinnar: Sjálf lendingin á tunglinu. Gríðarleg spenna ríkti stjórnstöðinni í Houston. Lendingin var eini þáttur Apollo leiðangranna sem aldrei hafði verið prófaður áður. Stjórnin var í höndum flugstjórans, Gene Kranz. Hann gaf skipanir sem geimfarinn Charlie Duke (sá um samskiptin milli jarðar og geimfaranna) varpaði til Armstrongs og Aldrins. Duke sagði: „Örninn, Houston. Ef þið heyrið í mér megið þið byrja að lækka flugið.”

5. Örninn er lentur

Örninn var í 15 km hæð yfir tunglinu þegar Armstrong ræsti eldflaugarnar sem lækkuðu flugið. Armstrong og Aldrin stóðu hlið við hlið beislaðir við gólfið. Armstrong tók fljótt eftir því að þeir fóru tveimur sekúndum á undan áætlun framhjá viðmiðunarstöðum á tunglinu. Örninn var þá á næstum 2 km hraða á sekúndu sem þýddi að þeir myndu lenda að minnsta kosti fjórum km frá fyrirhuguðum lendingarstað.

Í tólf km hæð kviknaði á lendingarratsjánni og sendi hún upplýsingar um hraða og hæð Arnarins í tölvu. Tölvan gat þá leiðrétt að einhverju leyti aðflugið. Skyndilega kom upp villuboð í Erninum. Í Armstrong heyrist: „Hugbúnaðarvilla.” Tölvan sýndi villuboðið 1202. Aldrin hafði ekki hugmynd um hvað þetta villuboð þýddi enda aldrei komið upp í herminum fyrir geimskot. Það var enginn tími til að fletta upp í bók hvað 1202 merkti. Tölvurnar í Apollo geimförunum þóttu afar háþróaðar á þessum tíma en höfðu álíka mikla reiknigetu og vasareiknar í dag. Tölvan í Erninum réði einfaldlega ekki við verkefnið. Stjórnendur í Houston voru felmtri slegnir. Urðu þeir að skipa Armstrong og Aldrin að hætta við lendinguna?

Sem betur fer voru tölvunarfræðingarnir Jack Garman og Steve Bales að störfum í stjórnstöðinni í Houston þegar þetta gerðist. Bales hafði það starf að fylgjast með tölvunni, ratsjánni og aðflugsferlinum niður til tunglsins. Gene Kranz spurði Bales hvað þeir ættu til bragðs að taka. Á meðan Kranz beið eftir svari frá Bales heyrðist í Armstrong, „Gefið okkur upplýsingar um 1202 villuboðið.” Bales svaraði að bragði: „Við erum – við höldum áfram, flugstjóri.” Garman og aðrir tölvunarfræðingar höfðu sagt Bales að svo framarlega að villuboðið kæmi aðeins stöku sinnum upp, en væri ekki stöðugt í gangi, væri óhætt að halda aðfluginu áfram.

minnakort_clementine_islensk_heiti_apollo11
Kort af lendingarstað Apollo 11 á Friðarhafinu á tunglinu.
(Mynd: NASA/Stjörnufræðivefurinn). Smellið á myndina til þess að fá upp stærri mynd.

Armstrong tók við stjórninni á Erninum og leit út um gluggann á gígótta sléttuna. Hann leitaði eftir viðmiðunarstöðunum og góðum stað til lendingar. Lendingarstaðurinn var rúma 7 km framundan. Armstrong sá að staðurinn var þakinn hnullungum sem of hættulegt væri að lenda á. Þá voru þeir aðeins í rúmlega 100 metra hæð.

„Hvernig er eldsneytið?” spurði Armstrong Aldrin og virtist afslappaður.

„Átta prósent,” svaraði Aldrin að bragði. Það var mun minna eldsneyti eftir en þeir höfðu haft í herminum á jörðinni. Loks sá Armstrong slétt svæði framundan. „Allt í lagi,” sagði Armstrong, „þetta lítur út fyrir að vera gott svæði.”

Aldrin leit út um gluggann og sá skuggann af Erninum á yfirborði tunglsins. Þeir voru komnir mjög nálægt. Armstrong sá þá að staðurinn sem honum hafði litist vel á var ekki nægilega góður. „Ég ætla að fara yfir gíg,” sagði hann. „Ég verð að fara aðeins lengra.” Hann flaug Erninum yfir gíginn og sá þá sléttan og öruggan lendingarstað. Í sama mund kviknaði eldsneytisljósið í Erninum. Þeir áttu aðeins 90 sekúndur af eldsneyti eftir en aðeins 30 metrar skildu þá og tunglið að.

Nauðsynlegt var að lenda Erninum beint niður á yfirborðið. Ef ferjan kom lárétt inn til lendingar var hætta á að einhver fótur ferjunnar brotnaði. Armstrong sá kjörinn stað til að síga niður. Skyndilega virtist sem þeir væru umluktir þoku. Eldflaugin hafði þyrlað ryki upp af tunglinu. Eftir því sem neðar dróg streymdi rykið í allar áttir frá þeim. Aldrin gaf Armstrong upp hraðann og hæðina: „Tuttugu metrar niður”. Hann heyrði stjórnstöðina segja að 60 sekúndur af eldsneyti væru eftir. Aðeins mínúta var þar til eldsneytisskortur neyddi hann og Aldrin til að hætta við lendinguna. Í stjórnstöðinni var spennuþrungið andrúmsloft. Heyra mátti saumnál detta.

Smám saman færðist Örninn nær yfirborðinu. Aðeins 6 metrar voru eftir. „Þrjátíu sekúndur,” heyrðist frá stjórnstöðinni. Þá heyrðist í Buzz Aldrin, „Snertiljós!” Úr fótum ferjunna héngu nemar sem námu fyrstu snertingu við tunglið. Þegar snertiljósið kviknaði átti Armstrong að slökkva á eldflaugunum.

orninn_fyrir_tunglgongu
Friðarhafsstöð. Útsýnið út um glugga Arnarins skömmu eftir lendingu á tunglinu.

Það sló þögn á Armstrong og Aldrin um stundarkorn í ferjunni. Þeir litu snöggt á hvor annan. Þá mælti Armstrong: „Houston, Friðarhafsstöð hér. Örninn er lentur. (Houston, Tranquillity Base here. The Eagle has landed)”.

Klukkan 20:17 að íslenskum tíma þann 20. júlí 1969 urðu Armstrong og Aldrin fyrstu mennirnir til að heimsækja annan hnött.

Á jörðinni brutust út fagnaðarlæti. Mönnum var létt. Í Erninum gafst ekki mikill tími til að fagna áfanganum. Armstrong og Aldrin höfðu verk að vinna. Þeir voru lentir á tunglinu og það mikilvægasta var að gera sig klára fyrir brottför aftur, ef nauðsyn kræfi. Að því loknu gáfu þeir sér tíma til að virða fyrir sér þennan eyðilega stað. Örninn hafði komið niður á sléttu sem var þakinn litlum gígum og hnullungum hér og þar. Í fjarska sá Armstrong hæðir en erfitt var að henda reiður á stærð þeirra þar sem þeir höfðu ekkert til að miða við. Útsýnið var óvenju tært, enda enginn lofthjúpur til staðar. Hæðirnar í fjarska voru jafn skýrar og steinarnir við fætur Arnarins.

Áætlunin gerði ráð fyrir því að tunglfararnir hvíldust áður en þeir stigu fæti á tunglið. Það var engin ástæða til að hinkra. Örninn var í fullkomnu ásigkomulagi og þeim leið vel. Þeir sammæltust um að biðja Houston um leyfi til að hefja tunglgöngu, fimm klukkustundum á undan áætlun. Tunglgangan hæfist þá skömmu eftir kvöldmat í Houston eða skömmu eftir miðnætti hér á Íslandi. Houston samþykkti það.

6. Eitt lítið skref

Nokkrum vikum fyrir geimskot hafði Buzz Aldrin velt fyrir sér hvernig hann hugðist votta þessari sögulegu stund virðingu. Eftir nokkra yfirlegu ákvað hann að fara með altarissakramentið. Deke Slayton varaði hann við því að segja frá öllum trúarlegum athöfnum í beinni útsendingu. Aldrin varð að gera þetta í einrúmi. Hann nýtti engu að síður tækifærið og sagði: „Þetta er flugmaður tunglferjunnar. Mig langar til að nota þetta tækifæri til að biðja alla sem eru að hlusta, hver og hvar sem þeir eru, að staldra við eitt andartak og íhuga atburði síðustu klukkustunda og sýna þakklætisvott á sinn hátt.”

Að svo búnu opnaði hann einn vasann á geimbúningi sínum, sótti litla vínflösku, kaleik og oblátu og setti á borð undir tölvunum í Erninum. Aldrin las af litlu korti sem á stóð: „Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt, sem er í mér og ég í honum, en án mín getið þér alls ekkert gjört.” (Jóh. 15:5)

Armstrong varð sjálfur að velta svipuðum hlutum vel og vandlega fyrir sér. Um leið og ljóst varð að hann yrði fyrsti maðurinn til að stíga fæti á tunglið var hann þráspurður hvað hann ætlaði að segja. Honum hafði borist tillögur um tilvitnanir í biblíuna, Shakespeare og ýmsar aðrar bókmenntir. Í huga Armstrongs var lendingin mesta afrekið, jafngilt fyrstu snertingu manna við annan hnött. Í augum allra annarra hafði lendingin ekki nærri eins mikla þýðingu og fótspor. Á meðan þeir bjuggu sig undir tunglgöngu velti hann þessum orðum fyrir sér. Fyrsta skrefið frá Erninum var lítið, en samt svo stórt og þrungið merkingu.

Hann vissi loksins hvað hann ætlaði að segja.

7. „Stórfengleg auðn“

Buzz Aldrin, tunglfari, maður á tunglinu
Maður á tunglinu. Engin mynd úr Apollo geimáætluninni hefur birst oftar en þessi mynd Neils af Buzz félaga sínum á tunglinu. Mymd: NASA

Það tók heldur lengri tíma að undirbúa mikilvægasta en jafnframt mest þreytandi hluta tunglgöngunnar: Að klæða sig í geimbúninginn. Geimbúningurinn var fyrirferðamikill og í ferjunni var ekki mikið rými fyrir geimfarana að athafna sig. Fyrst fóru þeir í tunglskóna. Á þeim voru gúmmísólar með grófum rákum sem áttu að tryggja örugga fótfestu í jarðveginum. Næst festu þeir bakpokann á sig. Í bakpokanum voru öndunartæki, vatn, rafmagn og fleiri lífsnauðsynleg tæki. Þegar bakpokinn var kyrfilega fastur tengdu þeir slöngur úr bakpokanum í málmfestingu á framhlið búningsins. Þeir tengdu svo slöngur fyrir vatnskælinguna en vatn úr bakpokanum streymdi í gegnum net af örlitlum rörum sem saumuð voru í nærfatnaðinn. Þetta var sérstaklega gagnleg aðferð til að kæla geimfaranna, enda kæmist sviti hvergi út úr geimbúningnum.

Á glerhjálma sína festu þeir ytri hjálm. Á honum var gullhúðað skyggni sem endurvarpaði hættulegum geislum sólar. Á brjóstkassanum voru stjórntæki fyrir samskipti og stillingar fyrir annan búnað. Þegar þeir voru komnir í hanskana smelltu þeir á rofa sem byrjaði á að dæla súrefni og þrýstijafna geimbúninginn. Aðeins átti eftir að dæla súrefninu út úr Erninum og opna lúguna.

„Lúgan er að opnast,” sagði Armstrong klukkan 02:56 að íslenskum tíma þann 21. júlí. Á meðan Aldrin hélt lúgunni opinni kraup Armstrong á kné og skreið varlega aftur á bak út um þröngt opið. Hann kom sér fyrst fyrir á nokkurs konar verönd og studdist við handrið sitt hvorum megin opsins.

Armstrong gat ekki haldið strax áfram niður stigann. Allur heimurinn beið þess að sjá atburðinn í beinni sjónvarpsútsendingu. Á hlið Arnarins var handfang sem Armstrong togaði í til að opna geymslu sem í voru verkfæri og vísindatæki. Geymslan opnaðist á hlið Arnarins eins og vindubrú sem seig hægt og rólega niður á yfirborðið. Í geymslunni var lítil sjónvarpsmyndavél sem beindist í átt að útgönguleiðinni. Um leið og geymslan opnaðist byrjaði myndavélin að senda myndir til jarðar. Augnabliki síðar heyrði Armstrong kallað frá jörðinni: „Við sjáum mynd í sjónvarpinu!” Í sjónvörpum hundruð milljóna manna út um allan heim sást svarthvít, fremur óskýr, draugaleg mynd af biksvörtum himni, bjartri jörð og útlínum geimfarans sem var um það bil að skrá nafn sitt á spjöld sögunnar.

Armstrong færði sig löturhægt niður stigann á Erninum. Hann staldraði við á fætinum og lýsti yfirborðinu. „Yfirborðið virðist mjög, mjög fínkornótt þegar komið er nálægt því; það er næstum eins og duft.” Hann tók í handrið ferjunnar, sneri sér við og sagði: „Ég ætla að stíga af tunglferjunni núna.” Hann lyfti vinstri fæti af Erninum, steig í rykið og sagði: „Þetta er eitt lítið skref fyrir mann – eitt risastökk fyrir mannkynið.” Því næst færði hann hægri fótinn af ferjunni og stóð traustum fótum á tunglinu.

Fyrsta skrefið var eins og hjá manni sem dýfir stóru tá í vatn og kannar hvort óhætt sé að stíga út í. En fyrstu skrefin voru eins og hjá manni sem var að læra að ganga á nýjan leik. Honum þótti auðvelt og þægilegt að hreyfa sig um en hann hafði lítinn tíma til að forvitnast. Fyrsta verk á dagskrá var að safna sýnum í lítinn poka og sækja Hasselblad myndavél sem Aldrin rétti honum með færibandi út um lúguna. Armstrong festi myndavélina á brjóstkassann á geimbúningnum og tók fyrstu ljósmyndirnar frá yfirborði annars hnattar. Þegar mikilvægustu verkefnunum var lokið losaði Armstrong sjónvarpsmyndavélina af Erninum og kom henni fyrir á þrífæti í 12 metra fjarlægð.

„Ertu tilbúinn fyrir að ég komi út?” spurði Buzz Aldrin. Hann hafði beðið í fjórtán mínútur inni í Erninum á meðan Armstrong sprangaði um á tunglinu. Tími hans var kominn. Þegar Aldrin stóð á fæti Arnarins skorti hann orð til að lýsa því sem fyrir augum bar. „Glæsilegt útsýni!” var það eina sem honum kom til hugar í fyrstu. „Er þetta ekki sérstakt? Stórfenglegt útsýni hér úti,” sagði Armstrong. „Stórfengleg auðn” sagði Aldrin að bragði og tók sín fyrstu skref á tunglinu. Á fæti Arnarins opinberuðu þeir veggskjöld sem á stóð: „Hér stigu menn frá reikistjörnunni jörð fyrst fæti á tunglið í júlí 1969 e. Kr. Við komum í friði fyrir hönd alls mannkyns.”

Eftir tæpa klukkustund á yfirborði tunglsins settu Armstrong og Aldrin upp bandaríska fánann. Samkvæmt alþjóðlegri samþykkt gat engin þjóð eignað sér tunglið, ekki einu sinni sú þjóð sem tókst að komast þangað. En það voru Bandaríkin sem afrekuðu það að lenda manni á tunglinu og NASA ákvað að þeir myndi setja þar upp fána Bandaríkjanna.

„Neil og Buzz,” heyrðist kallað úr stjórnstöðinni á jörðinni, „forseti Bandaríkjanna er á skrifstofu sinni og langar til að eiga nokkur orð við ykkur.”

„Það væri okkur heiður,” svaraði Armstrong. Geimfararnir sneru sér í átt til myndavélarinnar og heyrðu rödd Richards Nixon.

„Halló, Neil og Buzz, ég er að tala við ykkur í síma úr forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu. Og þetta hlýtur að vera sögulegasta símtal allra tíma úr Hvíta húsinu,” sagði Nixon.

Armstrong var að hefja sýnasöfnun þegar forsetinn hringdi. Ekki var mikill tími eftir en Armstrong var staðráðinn í að færa jarðfræðingunum góð og gagnleg sýni til rannsókna á jörðu niðri. Á sama tíma þurfti Aldrin að kanna ástandið á tunglferjunni fyrir verkfræðingana.

Þegar rúm klukkustund var eftir af tunglgöngunni átti enn eftir að setja upp vísindatækin. Friðarhafið var hrjúfara en þeir áttu von á – ekki beinlínis heppilegasti staðurinn til að setja tækin upp. Um 15 metra frá Erninum komu þeir fyrir tunglskjálftamæli og spegli sem nota átti til að endurvarpa leysigeisla frá jörðinni og hjálpa þannig stjörnufræðingum að mæla nákvæmlega vegalengdina milli jarðar og tunglsins. Ennfremur komu þeir upp litlu segli úr áli til að safna örsmáum efnisögnum úr sólvindinum sem sífellt leikur um tunglið. Álseglið var tekið með aftur til jarðar.[4]

Tíminn var naumur en Armstrong vildi nýta hann vel og kanna svæðið. Hann ákvað að skjótast að litlum gíg í 120 metra fjarlægð frá Erninum, ljósmynda hann og halda aftur til baka.

Síðustu mínútur tunglgöngunnar voru hlaðnar verkefnum. Stjórnstöðin bað Aldrin að safna borsýnum af tunglinu og reyndist það þrautin þyngri. Á sama tíma leitaði Armstrong að fleiri berg- og ryksýnum. Eftir aðeins tvær klukkustundir og þrjátíu og eina mínútu á yfirborði tunglsins var tíminn á enda runninn. Geimfararnir þurftu að halda inn í Örninn og undirbúa brottför.

sea_of_tranquillity_vesturgigur_panorama
Lendingarstaður Arnarins á Kyrrðarhafinu (Sea of Tranquillity).

8. Heimkoma

eftir_tunglgongu_fani_sjonvarpsmyndavel
Eftir tunglgöngu. Sjá má bandaríska fánann grafkyrrann á Kyrrðarhafinu og fótspor geimfaranna í tunglrykinu. Ljósa prikið sem stendur upp úr yfirborðinu er sjónvarpsmyndavélin.

Aldrin fór fyrstur inn í Örninn. Það reyndist nokkuð erfitt að lyfta sýnasöfnunarkössunum sem innihéldu meira en 22 kg af efni í gegnum lúguna en það tókst sem betur fer að lokum. Armstrong minnti Aldrin á að í vasa hans væru nokkrir hlutir sem þeir vildu skilja eftir á tunglinu til minningar, meðal annars merki Apollo 1 með nöfnum geimfaranna sem létust. Þegar Armstrong hafði komið þeim vandlega fyrir, klifraði hann upp stigann og inn í Örninn. Þeir tengdust súrefninu um borð í geimferjunni, losuðu sig við bakpokann og léttu tunglferjuna með því að varpa þeim útbyrðis ásamt skóhlífum sínum, Hasselblad myndavélinni og öðrum tækjum. Þeir lokuðu lúgunni og hófu að þrýstijafna ferjuna.

Þegar þeir tóku hjálmana af sér tóku þeir eftir megnri lykt sem minnti Armstrong á ösku arinelds en Aldrin á byssupúður. Svona var lyktin af tunglinu. Armstrong og Aldrin tóku myndir hvor af öðrum og útsýninu úr Erninum. Úti við blasti bandaríski fáninn þar sem hann stóð grafkyrr á gígóttu Friðarhafinu. Allt í kringum Örninn voru fótspor þeirra, mörkuð í tunglrykið í milljónir ára.

Eftir að hafa fengið sér kvöldmat bjuggu þeir sig undir að hvílast. Armstrong kom vart dúr á auga og Aldrin svaf sömuleiðis ekki sérstaklega vel; hann náði að rétt dotta. Eftir sjö klukkustunda hvíld var þeim sagt að búa sig undir geimskot. Þeir voru of uppveðraðir til að vera þreyttir og efst í huga að komast burt af tunglinu. 

Tveimur og hálfri klukkustund síðar stóðu Armstrong og Aldrin hlið við hlið í geimbúningum sínum í Erninum. Klukkan 17:54 að íslenskum tíma þann 21. júlí, tókst efra þrep Arnarins á loft frá yfirborði tunglsins. Sjónvarpsmyndir sem teknar voru sýndu fánann kastast til. Buzz Aldrin sá fánann falla. Í síðari Apollo leiðöngrum var fánanum komið fyrir í um 30 metra fjarlægð til að koma í veg fyrir þetta.

Út um gluggann á Kólumbíu sá Michael Collins Örninn nálgast smám saman. Á sama tíma og hann flaug Kólumbíu tók hann hvað hann gat af ljósmyndum og kvikmyndum af Erninum. Skyndilega heyrðu Armstrong og Aldrin í Collins, „Ég sé jörðina koma upp fyrir aftan ykkur – þetta er stórkostlegt!” Collins náði myndum af atburðinum – Örninn, tunglið og jörðin í bakgrunni. Allt mannkynið á einni mynd, utan ljósmyndarans.

Um leið og Örninn og Kólumbía höfðu tengst saman hófu geimfararnir að flytja sýnasöfnunarkassana inn í Kólumbíu. Geimbúningarnir voru biksvartir af tunglryki. Collins reyndi árangurslaust að hreinsa þá. Rykið var fast við búningana; þeir yrðu aldrei hreinir aftur.

Að loknum tiltektarstörfum var öllum óþarfa búnaði staflað inn í Örninn til að létta Kólumbíu eins og kostur var. Armstrong og Aldrin fóru inn í Kólumbíu og lokuðu hleranum. Ekki var lengur þörf á þjónustu Arnarins svo Collins smellti á hnapp sem losaði hann frá Kólumbíu. Án hitaskjaldar var útilokað að flytja hann heim til jarðar. Örninn kæmist aldrei á safn. Þess í stað hélst hann á braut um tunglið í nokkra mánuði í viðbót uns hann brotlenti á tunglinu. Ekki er vitað hvar en þar er nú gígur í tunglrykinu. Þann 22. júlí ræsti Collins eldflaugar Kólumbíu. Þríeykið var á heimleið eftir sögulegan leiðangur til tunglsins.

orninn_jordin_tunglid
Allt mannkynið á einni mynd (fyrir utan einn - myndatökumanninn).

9. Tunglfarar í sóttkví

einangrunarbillinn_nixon_ahofn_apollo_11
Richard Nixon býður áhöfn Apollo 11 velkomna heim til jarðar. Áhöfnin er í einangrunarbílnum fræga.

Þann 24. júlí, klukkan 16:50 að íslenskum tíma, lenti Kólumbía heilu og höldnu í Kyrrahafinu, skammt frá Hawaiieyjum. Klukkustund síðar voru geimfararnir fluttir með herþyrlu um borð í herskipið Hornet. Geimfararnir voru klæddir einangrunarbúningum frá toppi til táar og sáu vart þá sem komnir voru til að fagna heimkomu þeirra. Richard Nixon forseti var einn þeirra. Við komuna í herskipið voru þeir fluttir í sóttkví í sérhönnuðum silfurlituðum húsbíl. Menn óttuðust nefnilega að þeir bæru með sér sýkla frá tunglinu.

Þessi sérkennilegi einangrunarbíll var ekki alslæmur staður. Þar var æfingaaðstaða, bar og fleira sem þeir gátu nýtt til að drepa tímann. Stundum fengu þeir gesti, t.d. lækna og nokkra vísindamenn sem komust óvart í snertingu við tunglgrjótið. Í einangruninni fengu þeir tíma til að skoða fréttaflutning af Apollo 11 í dagblöðum og sjónvarpi. Þeir sáu tár í hvörmum stoltra fréttamanna, myndir af þúsundum og milljónum manna sem fylgdust með lendingunni og fyrstu skrefunum á tunglinu. Á þeirri stundu áttaði Buzz Aldrin sig á þýðingu tungllendingarinnar. „Hvílík stund”, hugsaði hann með sér og sagði við Armstrong: „Neil, við misstum af þessu öllu saman.”

Þremur og hálfum degi síðar komu þeir til Houston. Eftir næstum þriggja vikna einangrun var geimförunum loks hleypt út þann 10. ágúst við mikinn fögnuð bandarísks almennings. Skrúðgöngur voru haldnar þeim til heiðurs í New York, Chicago og Los Angeles. Nokkrum vikum síðar var þeim boðið í heiðursskrúðgöngu til Mexíkóborgar.

Kvöldið 13. ágúst var haldinn kvöldverður í Los Angeles þar sem leiðangri Apollo 11 var vel fagnað. Kvöldverðinn sóttu meðal annarra þingmenn, ríkisstjórar og sendiherrar 83 ríkja. Richard Nixon forseti og Spiro Agnew varaforseti heiðruðu geimfaranna. Var þetta upphafið að 45 daga heimsreisu geimfaranna um 25 lönd og heimsóknir til fyrirmenna eins og Elísabetar II Bretlandsdrottningar. 

Markmiðið sem John F. Kennedy forseti hafði sett árið 1961 var í höfn. Bandaríkjunum tókst að senda menn til tunglsins og koma þeim heilum og höldnum til jarðar aftur. Á næstu þremur árum fetuðu tíu aðrir geimfarar í fótspor þeirra Armstrongs og Aldrin.

10. Ítarefni

Myndskeið

Myndasafn

11. Kapphlaupið til tunglsins um Apollo 11

Þáttaröðin Kapphlaupið til tunglsins var á dagskrá Rásar 1 veturinn 2013-14. Hér eru þættirnir fjórir um Apollo 11.

Heimildir

  1. Chaikin, Andrew. 1994. A Man on the Moon: The Voyages of the Apollo Astronauts. Penguin Books, New York.
  2. Special Message to the Congress on Urgent National Needs. John F. Kennedy Presidential Library & Museum.
  3. Jones, Eric M. (ritstjóri). Apollo Lunar Surface Journal. Apollo 11 Crew Information. Sótt 15. júlí 2009.
  4. Hjálmar Sveinsson. 1971. Geimannáll. Almanak hins íslenska þjóðvinafélags 1971. Hið íslenska þjóðvinafélag, Reykjavík.

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2010). Apollo 11: Fyrsta tungllendingin. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/apollo-11. Sótt DAGSETNING.