Gravity Recovery and Interior Laboratory (GRAIL)

  • grail-geimfar
    Sýn listamanns á GRAIL geimförin á braut um tunglið. Mynd: NASA

Yfirlit

Helstu upplýsingar
Skotið á loft: 10. september 2011
Eldflaug:
Delta II
Massi:
132,6 kg
Tegund:
Brautarfar
Braut:
Pólbraut í 50 km hæð
Hnöttur:
Tunglið
Geimferðastofnun: NASA / JPL
Heimasíða:
GRAIL

Tveimur geimförum, GRAIL-A og GRAIL-B, var skotið á loft með Delta II eldflaug frá Canaveralhöfða í Flórída í þann 10. september 2011. Ferðalagið til tunglsins tók þrjá og hálfan mánuð og er ferðast í gegnum Lagrange punkt 1. Þetta var gert til þess að draga úr eldsneytisþörf geimfarsins, gefa mönnum lengri tíma til að prófa geimförin, lengja skotgluggann sem opnaðist 8. september 2011 og var 26 daga langur, og forðast truflun af völdum tunglmyrkvanna 10. desember 2011 og 4. júní 2012.

Bæði geimför nálguðust tunglið undir suðurpólnum í byrjun janúar 2012. Brautartilfærslur komu þeim á nærri hringlaga pólbraut í um 50 km hæð yfir tunglinu og með 113 mínútna umferðartíma. Leiðangurinn stendur stutt yfir (270 daga) en þar af fara 90 dagar í kortlagningu þyngdarsviðsins (frá mars og fram í maí). Í leiðangurslok verða geimförin látin rekast á yfirborð tunglsins.

Tæknin á bak við GRAIL var fyrst prófuð í Gravity Recovery and Climate Experiment (GRACE) gervitunglinu árið 2002. GRACE gervitunglið mældi breytingar á þyngdarsviði jarðar sem hljótast af færslu massa innan hennar eins og bráðnun íss á pólsvæðunum og breytingum á sjávarstraumum. GRAIL er útbúið svipuðum mælitækjum og GRACE en þó einfaldari útfærslum. GRAIL mun þó útbúa nákvæmara kort af þyngdarsviði tunglsins en GRACE gerði af þyngdarsviði jarðar. Ástæðan er sú að tunglið hefur engan lofthjúp sem gerir gervitunglunum kleift að vera á lægri braut.

Markmið

grail-hreinherbergi
GRAIL-A lyft í hreinherberginu þar sem geimförin tvö voru sett saman. Mynd: NASA/KSC

Meginmarkmið leiðangursins eru að:

  • Ákvarða uppbyggingu innviða tunglsins frá skorpu niður í kjarna

  • Skilja ósamhverfa varmaþróun tunglsins

  • Finna út uppbyggingu árekstradælda á tunglinu og uppruna þéttinga

  • Setja mörk á stærð innri kjarna tunglsins

  • Bera saman þekkinguna á tunglinu við aðra berghnetti í sólkerfinu

GRAIL-A og GRAIL-B munu fljúga í einfaldri röð í kringum tunglið með 175 til 225 km millibili. Á hringferðunum skiptast þau á örbylgjumerkjum sem mælir nákvæmlega fjarlægðina milli þeirra. Þegar annað geimfarið fer yfir svæði með sterkara eða veikara þyngdarsvið breytist fjarlægðin milli þeirra lítillega (minnkar eða eykst). Mælingarnar verða sendar til jarðar og geta vísindamenn notað þær til þess að kortleggja þyngdarsviðið betur en nokkru sinni fyrr. Á þennan hátt er hægt að draga upp mynd af innviðum tunglsins. Með því vonast vísindamenn til að svara spurningum um tunglið og skilja betur myndun og þróun jarðar og annarra berghnatta í sólkerfinu

MoonKAM

Grunnskólanemar í Bandaríkjunum geta tekið þátt í verkefninu. Á báðum gervitunglum eru myndavélar og geta nemendur óskað eftir að myndir verði teknar af sérstökum svæðum. Myndirnar verða settar á vefinn og geta nemendur notað þær til að rannsaka hálendið, tunglhöfin, gíga og fleira í landslagi tunglsins.

Tengt efni

Heimildir

  1. GRAIL - Heimasíða leiðangurs. Sótt 26.07.11

  2. GRAIL MoonKAM. Sótt 26.07.11

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2011). Gravity Recovery and Interior Recovery (GRAIL). Stjörnufræðivefurinn http://www.stjornufraedi.is/solkerfid-large/geimferdir/gravity-recovery-and-interior-laboratory/ sótt (DAGSETNING)