InSight

  • Teikning af InSight jarðelisfræðikannanum á Mars
    Teikning af InSight jarðelisfræðikannanum á Mars
Helstu upplýsingar
Skotið á loft: 5. maí 2018
Lending: 26. nóvember 2018
Eldflaug: ULA Atlas V
Massi:
?
Tegund:
Lendingarfar
Hnöttur:
Mars
Geimferðastofnun: NASA
Heimasíða: InSight

InSight lýtur stjórn Jet Propulsion Laboratory (JPL) í Kaliforníu og er hluti af Discovery geimáætlun NASA. Í maí árið 2011 var InSight eitt þriggja geimfara sem NASA valdi til frekari athugunar. Hin tvö voru:

  • Titan Mare Explorer (TiME) sem lenda átti í einu af metanstöðuvötnum Títans, stærsta tungls Satúrnusar og fljóta þar um hríð við rannsóknir.

  • Comet Hopper sem lenda átti á halastjörnunni Wirtanen nokkrum sinnum og fylgjast með breytingum á henni þegar hún nálgast sólina.

Þann 20. ágúst 2012 ákvað NASA að velja InSight geimfarið úr þessum hópi.

Í rannsóknarhópnum eru vísindamenn og verkfræðingar frá ýmsum löndum, þar á meðal Bandaríkjunum, Frakklandi, Þýskalandi, Austurríki, Belgíu, Kanada, Japan, Sviss og Bretlandi. Yfirumsjón með rannsóknunum hefur Bruce Banerdt, jarðeðlisfræðingur hjá JPL.

Í fyrri Marsleiðöngrum hefur sjónum fyrst og fremst verið beint að yfirborði Mars og sögu þess með rannsóknum á gljúfrum, eldfjöllum, bergi og jarðvegi. Með InSight er í fyrsta sinn gerð tilraun til að rannsaka þróun reikistjörnunnar og innviði hennar.

InSight byggir að mörgu leyti á Phoenix geimfarinu, þótt rannsóknirnar séu gerólíkar. Farið mun lenda á sama hátt og Phoenix með hjálp eldflauga (lendingin er ekkert í líkingu við lendingu Marsjeppanna) á flatlendi við miðbaug reikistjörnunnar til að hámarka orkunýtnina en farið verður knúið sólarrafhlöðum.

InSight var upphaflega kallað Geophysical Monitoring Station (GMES) en NASA óskaði eftir að því yrði breytt, þar sem sama nafn var notað fyrir stjarneðlisfræðitungl sem þá var í þróun en hefur nú verið aflagt.

Markmið

InSight verður kyrrstætt lendingarfar á Mars. InSight er jarðeðlisfræðikanni sem hefur það helsta markmið að rannsaka þau ferli sem mótuðu bergreikistjörnur sólkerfisins, þar á meðal jarðar. Það verður gert með því, að fylgjast náið með skjaálftavirkni á Mars, mæla varmaflutning, -flæði og hita í reikistjörnunni, rannsaka skorpuhreyfingar og loftsteinaárekstra.

Í InSight leiðangrinum verða gerðar sex rannsóknir á og undir yfirborði Mars til að varpa ljósi á þá sögu sem mótaði bergreikistjörnurnar í innra sólkerfinu. InSight á að:

  • Ákvarða stærð, gerð og ástand (fljótandi/fast) kjarna Mars

  • Ákvarða þykkt og gerð skorpu Mars.

  • Ákvarða gerð möttuls Mars. 

  • Mæla stærð, tíðni og dreifingu skjálftavirkninnar á Mars.

  • Mæla tíðni loftsteinaárekstra á yfirborð Mars.

Mælitæki

Í InSight verða fjögur mælitæki:

  • Seismic Experiment for Interior Structure (SEIS) er skjálftamælir. Tækið mun mælinga á skorpuhreyfingum og innri virkni Mars til að skilja betur sögu reikistjörnunnar og uppbyggingu hennar. Franska geimvísindastofnunin CNES leggur til tækið með þátttöku annarra stofnana í Frakklandi, Sviss, Þýskalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum.

  • Heat Flow and Physical Properties Package (HP3) mælir varmaflæði úr innviðum reikistjörnunnar. Tækið mun bora fimm metra niður í yfirborðið og mæla þar hve mikill hiti streymir úr kjarna Mars. Þannig verður hægt að varpa ljósi á varmasögu reikistjörnunnar. Þýska geimvísindastofnunin DLR leggur tækið til.

Auk þessara tækja verður gerð tilraun sem nefnist Rotation and Interior Structure Experiment (RISE). Í tilrauninni verður fjarskiptakerfi geimfarsins notað til að mæla nákvæmlega Dopplerhrif í merkjunum sem send eru milli InSight og jarðar. Með því að fylgjast með vaggi reikistjörnunnar geta vísindamenn áttað sig betur á uppbyggingu innviða Mars.

Á InSight verður myndavél, svipuð Navcam myndavélunum á Mersjeppunum Spirit, Opportunity og Curiosity. Vélin verður föst á arm lendingarfarsins og tekur svarthvítar myndir af farinu sjálfu og svæðinu í kring.

Önnur myndavél, svipuð Hazcam vélunum á Marsjeppunum, verður undir skrokki lendingarfarsins. Sú vél hefur 120 gráðu sjónsvið og tekur myndir af svæðinu þar sem HP3 borar.

Heimildir

  1. Vefsíða InSight

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). InSight. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/solkerfid/geimferdir/insight (sótt: DAGSETNING).