Mangalyaan
Mars Orbiter Mission
Yfirlit
Skotið á loft: | 5. nóvember 2013 |
Komutími: |
24. september 2014 |
Eldflaug: |
PSLV |
Massi: |
1.350 |
Tegund: |
Brautarfar / tæknitilraun |
Hnöttur: |
Mars |
Geimferðastofnun: | ISRO |
Heimasíða: |
http://www.isro.org/ |
Mangalyaan var skotið á loft frá Sriharikota eyju í Andra Pradesh ríki á austurströnd Indlands, við Bengalflóa, þann 5. nóvember 2013 kl. 09:08 að íslenskum tíma, með Polar Satellite Launch Vehicle eldflauginni. Farið fer fyrst á sporöskjulaga braut um jörðina (215.000 x 600 km) en heldur frá henni 26. nóvember, um það leyti sem Mars næst jörðinni.
Við komuna til Mars var geimfarinu komið fyrir á mjög ílangri braut um reikistjörnuna. Minnsta hæð er um 500 km en mesta hæð um 80.000 km.
1. Kostnaður
Indverska ríkið samþykkti verkefnið þann 3. ágúst árið 2012. Heildarkostnaður við leiðangurinn nemur 83 milljónum bandaríkjadala. Geimferðin kostar hvern Indverja tæplega tíu krónur, dreift yfir nokkurra ára tímabil.
2. Markmið
Mangalyaan skotið á loft þann 5. nóvember 2013 |
Meginmarkmið Mangalyaan, fyrsta leiðangurs Indverja til Mars, er að þróa tæknina sem þarf til þess að hanna, skipuleggja, stjórna og starfrækja leiðangur út í sólkerfið. Verkfræðileg markmið leiðangursins eru að:
-
Gera tilfærslur á braut geimfarsins þannig að það komist frá jörðinni og á braut um Mars.
-
Þróa reiknilíkön til þess að greina og reikna út braut og afstöðu geimfarsins.
-
Stjórna siglingu geimfarsins, sjá um að viðhalda afli, samskiptum, varmastjórnun og starfsemi mælitækjanna á öllum stigum leiðangursins.
-
Setja upp sjálfvirk ferli sem grípa í taumana ef ófyrirsjáanlegir atburðir verða.
Mangalyaan fær orku sína úr þremur 1,4 x 1,8 metra sólarhlöðum sem saman framleiða um 750 watta afl.
3. Mælitæki
Um borð í Mangalyaan verða nokkur mælitæki:
-
Litmyndavél
-
Innrauð varmamyndavél
-
Lyman-alfa ljósmælir
-
Úthvolfsmælir
-
Metan-nemi
Markmið Mangalyaan eru fyrst og fremst verkfræðileg. Vísindarannsóknir munu aðallega beinast að lofthjúpi Mars og markmið þeirra líkjast mjög markmiðum MAVEN geimfars NASA.
Heimildir
-
Mangalyaan, India's 2013 Mars mission, is now under construction. Bloggsíða Emily Lakdawalla hjá Planetary Society.
-
Mangalyaan update: Testing of main engine underway. Bloggsíða Emily Lakdawalla hjá Planetary Society.
-
Updates on ISRO's Mars Orbiter Mission: five instruments to be delivered in March. Bloggsíða Emily Lakdawalla hjá Planetary Society.
Höf. Sævar Helgi Bragason