Mariner 9

Geimfar sem komst á braut um Mars árið 1971

  • Mariner 9
    Mariner 9

Upphaflega var Mariner 9 ætlað að eiga systurfar, Mariner 8. Tæpum sex mínútum eftir að Mariner 8 var skotið á loft slökknaði eldflaugin og geimfarið féll í Atlantshafið, um 560 km norður af Púertó Ríkó. Mariner 9 vó meira systurför þess Mariner 6 og 7 til samans, sem flugu framhjá Mars árið 1969, enda var því ætlað að komast á braut um Mars en það krefst umtalsvert meira eldsneytis.

Markmið

Um borð í Mariner 9 voru svipuð mælitæki og flugu í Mariner 6 og 7. Mariner 9 var ætlað að draga í fyrsta sinn upp heildarmynd af reikistjörnunni Mars og var langmetnaðarfyllsti Marsleiðangur á þessum tíma. Fylgja átti eftir rannsóknum Mariner 6 og 7 og gera ítarlegri athuganir á uppbyggingu efnasamsetningu og loftþrýstingi lofthjúpsins. Geimfarið átti ennfremur að kortlegga yfir 70% reikistjörnunnar í meiri upplausn en nokkru sinni áður úr minnst 1500 km hæð. Mariner 9 átti einnig að leita eftir ummerkjum um eldvirkni og ljósmynda fylgitunglin Fóbos og Deimos.

Niðurstöður

Mariner 9 stóðst fyllilega væntingar vísindamanna að öllu leyti og gott betur. Þegar geimfarið komst leiðarenda í nóvember 1971 geysaði gríðarlegur rykstormur sem huldi yfirborðið að nánast öllu leyti. Þá kom berlega í ljós ótvíræður kostur þess að hafa geimfar á braut um reikistjörnu í stað þess að fljúga eingöngu framhjá henni. Því var unnt að endurforrita hugbúnaðinn í geimfarinu og ákváðu vísindamenn bíða eftir að rykstorminum lægði. Kortlaggning reikistjörnunnar hófst því ekki fyrr en í janúar 1972. Eftir tæpt ár á braut um Mars hafði Mariner 9 sent 7329 ljósmyndir sem náðu yfir 80% yfirborðsins og leiddu ansi margt forvitnilegt í ljós.

Myndirnar sýndu svo ekki var um villst að yfirborðið var geysilega fjölbreytt og áhugavert eins og reikistjörnufræðingar höfðu vonast eftir. Á myndunum sáust uppþornaðir árfarvegir, gígar, gríðarstór eldfjöll eins og Ólympusfjall, gljúfrakerfi á stærð Bandaríkin, pólhettur, vísbendingar um vind- og vatnsborið set, veðrakerfi, ísský og staðbundna rykstorma svo fátt eitt sé nefnt. Þornaðir árfarvegir bentu til þess að eitt sinn hafi fljótandi vatn runnið um yfirborð Mars og hugmyndin um mögulegt líf á Mars gekk í endurnýjun lífdaga.

Þrátt fyrir að Mariner 9 hafi byllt þekkingu manna á Mars var ljóst að leiðangurinn vakti upp enn fleiri spurningar; spurningar sem best yrði svarað með lendingarförum. Í leiðangri Mariner 9 kom ennfremur í ljós að loftþrýstingurinn á Mars er milli 2,8 og 10,3 millibör. Þekking á loftþrýstingnum gerði verkfræðingum kleift að hanna örugga lendingaraðferð. Þannig greiddu uppgötvanir Mariner 9 götu Viking leiðangrana árið 1976. Gljúfrakerfið risavaxna var síðar nefnt Marinergljúfrin eða Marinerdalirnir, geimfarinu til heiðurs.

Þegar eldsneytið um borð var uppurið slökktu verkfræðingar NASA á geimfarinu þann 27. október 1972. Mariner 9 er enn á braut um Mars og verður það nokkur ár til viðbótar. Talið er að árið 2022 eða skömmu síðar muni geimfarið falla inn í lofthjúpinn og brenna þar upp að hluta til að minnsta kosti.

Heimildir:

  1. Mariner 9. National Space Science Data Center. NASA. Sótt 13.06.08.
  2. The Mariner Mars Missions. National Space Science Data Center. NASA. Sótt 13.06.08.

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2010). Mariner 9. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/solkerfid/geimferdir/mariner-9 (sótt: DAGSETNING).