OSIRIS-REx (gervitungl)

  • OSIRIS-REx, Origins Spectral Interpretation Resource Identification Security Regolith Explorer, smástirni, 1999 RQ36
    Sýn listamanns á OSIRIS-REx við smástirnið 1999 RQ36. Mynd: NASA
Helstu upplýsingar
Skotið á loft: 2016
Lending:
2023
Massi:
1529 kg
Tegund:
Brautarfar / Sýnasöfnunarfar
Hnöttur:
Smástirnið Bennu
Geimferðastofnun: NASA
Heimasíða:
OSIRIS-REx

OSIRIS-REx (Origins, Spectral Interpretation, Resource Identification, Security-Regolith Explorer) er gervitungl sem rannsakaði og sótti berghulusýni af smástirninu Bennu í október 2020. Sýnasöfnunarhylkið á að lenda aftur í eyðimörkinni í Utah hinn 24. september 2023.

OSIRIS-REx var þriðji leiðangurinn í New Frontiers verkefni NASA á eftir New Horizons sem heimsótti Plútó árið 2015 og síðar hnött í  Kuipersbeltinu. og Juno sem var skotið á loft í ágúst 2011 og fór á pólbraut um Júpíter. NASA valdi OSIRIS-REx úr hópi þriggja mögulegra leiðangra sem snerust annars vegar um sýnasöfnunarferð á fjærhlið tunglsins og leiðangurs til Venusar hins vegar.

Leiðangurinn

OSIRIS-REx var skotið á loft 8. september árið 2016 frá Canaveralhöfða í Flórída. Ferðalagið til smástirnisins tók fjögur ár en þegar þangað var komið hófst kortlagning og leit að heppilegum sýnasöfnunarstað.

Eftir að sýnununum hafði verið safnað voru þau geymd í sérstöku hylki. Förinni er þá heitið aftur til jarðar þar sem hylkið losnar frá geimfarinu og fellur í gegnum lofthjúpinn á svipaðan hátt á þegar sýnasöfnunarhylkið úr Stardust leiðangrinum sneri aftur með agnir úr halastjörnunni Wild 2 árið 2006. Hylkið lendir svo heilu og höldnu á svæði bandaríska hersins í eyðimörkinni í Utah árið 2023. Sýnin verða geymd og rannsökuð í Johnson Space Center, í sömu geimferðamiðstöð og sýnin frá tunglferðunum eru geymd.

Smástirnið Bennu

(101955) Bennu er 560 metra breitt jarðnándarsmástirni sem fannst árið 1999 í LINEAR verkefinu. Smástirnið hefur lítið breyst frá myndun sólkerfisins fyrir um 4,6 milljörðum ára og veitir okkur þar af leiðandi svipmynd af sólkerfinu þá. Bennu er líklega kolefnisríkt en kolefni er lykilfrumefni í lífi. Lífrænar sameindir hafa fundist í loftsteinum og halastjörnum en það þykir benda til að hráefni lífs geti að einhverju leyti orðið til í geimnum. Stjörnufræðingar vilja vita hvort slík efni séu líka á Bennu.

OSIRIS-REx á að mæla Yarkovsky áhrifin á Bennu. Smástirnið gleypir sólarljós og gefur við það frá sér hita. Hitinn myndar kraft sem getur hliðrað til smástirninu og þannig breytt braut þess. Ýtikrafturinn vex með tíma en er ójafn sökum lögunar smástirnisins, vaggs, efnasamsetningu og snúnings. Vilji vísindamenn spá fyrir um braut smástirnis sem nálgast jörðina og gæti jafnvel rekist á hana verðum við að skilja hvernig þessi Yarkovsky áhrif breytast.

Tengt efni

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2023). OSIRIS-REx (geimfar). Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornufraedi.is/solkerfid/geimferdir/osiris-rex (sótt: DAGSETNING).