Argyre dældin
Yfirlit
Argyre dældin nær um 5,2 km undir meðalhæð yfirborðsins. Hún er því öllu grynnri en Hellas dældin. Dældin myndaðist, líkt og Hellas dældin, fyrir meira en 4 milljörðum ára eða á Nóaskeiðinu í jarðsögu Mars, þegar stórt smástirni rakst á reikistjörnuna. Allt í kringum dældina eru stórir fjallshryggir sem streyma út frá henni en einnig stórir árekstragígar sem mynduðust eftir á. Á gagnstæðri hlið reikistjörnunnar er Útópía-sléttan þar sem Viking 2 lenti árið 1976.
Frá dældinni liggja þrír stórir árfarvegir sem virðast hafa flætt frá suðri og austri inn í gegnum gígbrúnina og ofan í dældina. Fjórði stóri árfarvegurinn virðist hafa flætt út úr norðurbrúnni í átt að Chryse sléttunni. Á botni dældarinnar er lagskipt efni; set sem sennilega myndaðist þegar vatnið hvarf smám saman og skildi uppleyst efni eftir sig.
Gígurinn Galle
Á austurhlið Argyre er gígurinn Galle – nefndur eftir þýska stjörnufræðingnum Johann Gottfried Galle - sem minnir einna helst á broskall. Gígurinn er 230 km í þvermál og var fyrst ljósmyndaður af Viking 1 brautarfarinu. Gígurinn er eitt margra forvitnilegra mynstra á yfirborði Mars.
Mynd Mars Express geimfarsins af brosmilda gígnum Galle. Mynd: ESA/DLR/FU Berlin (G. Neukum) |
Hvernig vitna skal í þessa grein
Sævar Helgi Bragason (2010). Argyre dældin. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/solkerfid-large/mars/argyre-daeldin (sótt: DAGSETNING)