Þarsisbungan

Tharsis bulge

  • Þarsisbungan, eldfjöll á Mars, Ólympusfjall, Tharsis, Tarsis
    Kort af Þarsisbungunni á Mars

Á Þarsis eru fjögur risaeldfjöll, Ólympusfjall þeirra stærst í norðvestri, þá Ascraeusfjall, síðan Pavonisfjall og loks Arsiafjall, talið frá norðri til suðurs, allt dyngjur. Önnur smærri eru inn á milli eins og Biblis Patera og Ulysess Patera. Austan Ascraeusfjall er hið 150 km breiða Þarsis Þolus og norðan þess þrjú smærri eldfjöll, þau Ceraunius Þolus, Uranius Þolus og Uranius Patera. Við norðurbrún svæðisins er svo risaadyngjan Alba Patera.

Þarsisbungan myndaðist við landris þegar möttulstrókur úr innviðum reikistjörnunnar steig upp. Við landrisið teygðist á skorpunni og Marinergljúfrin mynduðust. Á gangstæðri hlið reikistjörnunnar er smærri bunga, Arabia Terra, sem gæti hafa myndast af völdum þess gríðarlega massa sem er á Þarsis.

Arsiafjall, Pavonisfjall og Ascraeusfjall mynda nánast beina 1500 km langa línu. Milli þeirra er nokkurn veginn jöfn vegalengd, um 700 km og hæð þeirra er svipuð og hæð Ólympusfjalls. Hins vegar sitja eldfjöllin á Þarsisbungunni á nærri 10 km þykkum hraunlögum svo raunveruleg hæð þeirra er um 15 km. Öll virðast þau hafa myndast á svipuðum tíma og voru virk í langan tíma. Arsiafjall virðist lítið eitt eldra en Pavonisfjall sem aftur virðist örlítið eldra en Ascraeusfjall. Það bendir til þess að eldvirknin á Þarsissvæðinu hafi færst norður á bóginn með tímanum.

Ascraeusfjall

Ascraeusfjall er eitt hæsta eldfjall sólkerfisins og nyrsta eldfjallið á Þarsisbungunni á Mars. Það rís 18 km upp úr meðalhæð yfirborðsins og er 460 km í þvermál. Ascraeusfjall virðist yngst af dyngjunum þremur sem mynda beina lína á Þarsisbungunni.

Ascraeusfjall, Ascraeus Mons
Mynd frá Mars Express sem sýnir fimm misgamlar öskjumyndanir í Ascraeusfjalli. Aldur miðöskjunnar er sennilega um hundrað milljón ár.

Pavonisfjall

Pavonisfjall er að finna milli Ascraeusfjalls í norðri og Arsiafjalls í suðri á Þarsisbungunni á Mars. Nafn fjallsins er dregið af latneska heitinu yfir páfugl. Fjallið gæti því kallast Páfuglsfjall á íslensku. Pavonisfjall rís um 14 km upp úr meðalhæð yfirborðsins og fannst á myndum sem Mariner 9 tók árið 1971. Í vesturhlíðum fjallsins eru keðja dælda sem mynduðust þegar þak hrauntraðar gaf sig.

Pavonisfjall
Mynd frá Mars Global Surveyor af Pavonisfjalli sem tekin var í desember 2003.

Arsiafjall

Arsiafjall er syðst dyngjanna þriggja á Þarsisbungunni, sunnan Pavonisfjalls. Fjallið er sýnilegt við góðar aðstæður frá jörðinni og var það ítalinn Giovanni Schiaparelli sem nefndi það eftir skóginum Arsia Silva. Arsiafjall er 435 km í þvermál og rís 16 km yfir meðalhæð yfirborðsins en aðeins 9 km yfir svæðið í kring. Á tindi fjallsins er 110 km breið askja.

Þegar vetur gengur í garð á suðurhvelinu verður til veðurfyrirbrigði ár hvert sem sést aðeins yfir Arsiafjalli. Þegar sólarljós hitar hlíðar fjallsins rís loftið og tekur með sér ryk. Að lokum safnast þetta loft yfir öskju fjallsins og þéttist en getur náð 15 til 30 km hæð yfir fjallinu. Þetta rykský myndast aðeins á stuttu tímabili yfir Arsiafjalli en svipuð ský hafa ekki sést yfir hinum eldfjöllunum á svæðinu.

Árið 2007 fundust sjö hellar á Arsiafjalli á myndum sem Mars Odyssey geimfarið tók. Hellarnir voru kallaðir Dena, Chloe, Wendy, Annie, Abbey, Nikki og Jeanne, eftir eiginkonum vísindamannanna sem fundu þá. Hellarnir eru milli 100 til 250 metra breiðir og einn þeirra, Dena, er talinn teygja sig nærri 130 metra undir yfirborð reikistjörnunnar.

Arsiafjall
Á Arsiafjalli er ein risastór 130 milljón ára askja

Biblis Patera

Biblis Patera er eitt tveggja eldfjalla á miðju Þarsisbungunnar á Mars. Fjallið er staðsett nánast hálfa leið milli Ólympusfjalls og Þarisfjallanna þriggja. Biblis Patera er næstum 170 km langt og meira en 100 km breitt. Tindur þess rís um 3 km upp úr meðalhæð yfirborðsins og á tindinum er 53 km breið og 4,5 km djúp askja. Útlit öskjunnar bendir til þess að hún hafi fallið nokkrum sinnum saman. Fjallið er líklega milli 2 og 2,8 milljarða ára gamalt en umhverfis það eru aðrir umtalsvert yngri hraunstraumar sem eiga rætur að rekja til Pavonisfjalls í austri.

Biblis Patera
Þessa mynd tók Mars Express geimfarið af öskju Biblis Patera. Útlit öskjunnar bendir til þess að hún hafi hrunið nokkrum sinnum. Sprungurnar eða sigdældirnar í öskjunni hafa líklega myndast við landris Þarsis.

Ulysses Patera

Ulysses Patera er dyngja austan við Biblis Patera á miðri Þarsisbungunni á Mars. Fjallið er um 100 km í þvermál og rís ekki nema um 2 til 3 km upp fyrir meðalhæð yfirborðsins en á tindi þess er 55 km breið askja. Fjallið hefur að mestu leyti grafist undir yngra hraun frá Pavonisfjalli líkt og Biblis Patera. Í gegnum fjallið liggja einnig sigdældir sem bendir til einhverra skorpuhreyfinga og á öskjunni eru tveir stórir árekstragígar. Svo stórir gígar eru tiltölulega sjaldgæfir fyrir utan gígóttu hálendissvæðin á suðurhveli Mars. Tilvist þeirra bendir til þess að eldfjallið sé mjög gamalt, sennilega í kringum 3,4 milljarða ára. 

Ulysses Patera
Hæðakort MOLA í Mars Global Surveyor af Þarsisbungunni sem sýnir staðsetninu Ulysses Patera.

Þarsis þolus

Þarsis Þolus er 150 km breitt og 8 km hátt eldfjall á Þarsisbungunni á Mars. Á tindi fjallsins er um 50 km breið askja. Fjallið er einstakt af eldfjöllunum á Þarsis þar sem það virðist hafa afmyndast af völdum skorpuhreyfinga við landris bungunnar. Þannig eru austur- og vesturhlíðar þess mun brattari en hlíðar annarra dyngja á Þarsis, eða frá 4° upp í 30°. Gígatalning á fjallinu bendir til þess að fjallið sé frekar gamalt eða milli tveggja og þriggja milljarða ára. Fjallið er að hluta til grafið undir yngra hrauni frá Ascraeusfjalli, svipað og Biblis Patera og Ulysses Patera eru að mestu grafin undir hraun frá Pavonisfjalli.

Alba Patera

Alba Patera er eitt sérkennilegasta eldfjall Mars. Fjallið er ekki á Þarsisbungunni sjálfri heldur rétt norðan hennar á láglendinu. Alba Patera er gríðarstór dyngja, rúmlega 1600 km í þvermál. Fjallið er því stærsta eldfjall sólkerfisins að flatarmáli. Þrátt fyrir það er Alba Patera óhemju flatt og rís aðeins um 6 km yfir meðalhæð yfirborðsins.

Eldfjallið er umlukið stóru sprungukerfi frá Þarsis. Allar sprungurnar virðast stefna í sömu átt en ganga ekki í gegnum miðbik fjallsins. Hraunstraumarnir í hlíðum fjallsins eru mjög þykkir, sumir allt að 50 metrar, en ná sömuleiðis yfir mjög langar vegalengir. Sumir hraunflákarnir eru yfir 100 km langir og aðrir vel yfir 300 km langir. Þetta bendir til þess að kvikan úr fjallinu hafi verið mjög þunnfljótandi og gosin sennilegast mjög langvinn.

Alba Patera
Alba Patera er mjög flatt fjall en þó risastórt og fellur vel inn í umhverfið á mynd b) sem sett er saman úr myndum sem Viking geimförin tóku árið 1976. Mynd a) sýnir fjallið betur enda hæðarkort frá MOLA.

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2010). Þarsisbungan. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/solkerfid-large/mars/tharsisbungan (sótt: DAGSETNING).