Nix og Hýdra (fylgitungl Plútós)

  • plútó, karon, nix, hýdra
    Plútó og tunglin Karon, Nix og Hýdra

Yfirlit

Tölulegar upplýsingar
Uppgötvað af:
Hubblessjónaukinn
Uppgötvuð árið:
Júní 2005
Meðalfjarlægð frá Plútó: 48.708 km (Nix)
64.780 km (Hýdra)
Umferðartími um Plútó: 24,9 jarðdagar (Nix)
38,2 jarðdagar (Hýdra)
Þvermál:
46-137 km (Nix)
100-140 km (Hýdra)
Eðlismassi:
Óþekktur
Endurskinshlutfall:
0,04-0,35
Sýndarbirtustig:
+23,4 til +23,7

Tunglin fundust á myndum sem teknar voru með Hubblessjónaukanum í 15. og 18. maí á þessu ári. Plútó er þar af leiðandi fyrsti hnötturinn í Kuipersbeltinu svonefnda sem hefur fleiri en eitt tungl á sveimi við sig.

Mjög lítið er vitað um þessi nýfundnu tunglin. Þó er vitað að bæði tunglin eru á næstum hringlaga brautum umhverfis Plútó, í sama brautarfleti og Karon, en mun utar eða í tæplega 49.000 og 64.000 km fjarlægð frá Plútó (Karon er til samanburðar í um 20.000 km). Sé fjarlægðin rétt áætluð er umferðartími þeirra (sá tími sem það tekur þau að ljúka einni hringferð um Plútó) um það bil 25 og 38 dagar.

Nix er af 23. birtustigi en Hýdra er mun daufari. Plútó er með birtustigið +14 og um 4000 sinnum bjartari en þau og Karon 600 sinnum bjartari. Tunglin týnast þar af leiðandi í birtunni frá Plútó og Karoni sem skýrir hvers vegna þau hafa því ekki fundist fyrr en nú. Talið er að Karon hafi myndast á sambærilegan hátt og tunglið okkar er talið hafa myndast; við árekstur Plútós og annars hnattar. Sú staðreynd að tunglin tvö liggja í sama fleti og Karon þykir benda til þess að öll tunglin þrjú hafi myndast á sama tíma.

Nix og Hýdra
Plútó, Karon, Nix og Hýdra

Stærð tunglanna er ekki þekkt enn sem komið er. Útreikningar benda til þess að Nix sé á bilinu 46 til 137 km í þvermál en Hýdra sé 100 til 140 km í þvermál. Til samanburðar er Karon um 1170 km í þvermál og Plútó um 2274 km í þvermál. Þessi mikla óvissa á stærð tunglanna er vegna óþekkts endurskinshlutfalls. Ef tunglin hafa hærra endurskinshlutfall eru þau í smærri kantinum en stærri ef endurskinshlutfallið er lægra.

Hugsanlegt er að fleiri tungl séu á sveimi í kringum Plútó. Aftur á móti var leitað nokkuð gaumgæfilega að þessu sinni og eru stjörnufræðingar nokkuð vissir um að Plútó hafi ekki fleiri tungl sem eru yfir 20 km í þvermál.

Segja má að þessa uppgötvun megi rekja þrjú ár aftur í tímann. Skömmu eftir að NASA ákvað að ráðast í New Horizons leiðangurinn til Plútó, ákváðu stjörnufræðingarnir sem fundu tunglin tvö að sækja um tíma á Hubblessjónaukanum í þeirri von að finna fleiri tungl við Plútó, sem og að læra meira um þennan fjarlæga hnött.

Beiðni stjörnufræðinganna var hafnað nokkrum sinnum af stjórnendum Hubblessjónaukans. Það var svo ekki fyrr en á síðasta ári sem verkefnið var loks samþykkt í kjölfar bilunar í einu tæki sjónaukans, sem olli því að fresta varð sumum verkefnum og rúm var fyrir þetta verkefni.

Leitin fór fram 15. og 18. maí 2005 þegar Plútó var vel staðsettur fyrir athuganir. Myndir voru teknar af ríflega tveggja milljón km breiðu svæði en utar nær ekki þyngdaráhrif Plútós. Stjörnufræðingarnir áttu frekar von á því að finna eitt eða fleiri dauf tungl í talsverðri fjarlægð frá Plútó í stað þeirra tveggja sem fundust svona nærri hnettinum.

Strax í kjölfarið var reynt að staðfesta uppgötvunina með hjálp Keck og Geimini-sjónaukanna á Mauna Kea á Hawaii og Very Large Telescope ESO í Chile. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir sá enginn sjónaukanna tunglin tvö en ástæðan er sú að á þeim tíma sem athuganirnar fóru fram, var Plútó mjög lágt á lofti þannig að sjónaukarnir gátu ekki greint svona dauf fyrirbæri. Staðfesting fékkst svo loks í síðustu viku, hinn 24. október, þegar stjörnufræðingarnir Marc Buie og Eliot Young fundu tunglin á myndum sem Hubblessjónaukinn tók árið 2002 af Plútó.

Heimild

  1. Fréttatilkynning frá Southwest Research Institute

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2010). Nix og Hýdra (fylgitungl Plútós). Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/solkerfid-large/pluto/nix-og-hydra (sótt: DAGSETNING).