Kvartilaskipti

  • Tunglið, tunglvik, tunglvagg, kvartilaskipti
    Kvartilaskipti tunglsins og tunglvik yfir einn tunglmánuð. Mynd: Wikimedia Commons

Á himninum sýnast bæði sólin og tunglið ganga með sólbaugnum frá vestri til austurs miðað við fastastjörnurnar. Sólin er reyndar öllu lengur að ganga yfir himinninn en tunglið eða eitt ár á meðan tunglið er aðeins fjórar vikur. Á einum mánuði sjáum við kvartilaskipti á tunglinu þegar það vex og dvínar.

Skuggi jarðar er ekki ástæða kvartilaskipta eins og margir halda. Einu skiptin sem jörðin varpar skugga á tunglið er við tunglmyrkva. Tunglmyrkvar verða aðeins þegar tungl er fullt, þ.e.a.s. þegar jörðin er milli tungls og sólar og tunglið gengur inn í jarðskuggann.

Skýringin á bak við kvartilaskiptin er sáraeinföld. Tunglið er hnöttótt og á öllum stundum er annar helmingur þess, sá er snýr að sólinni, baðaður ljósi á meðan hinn helmingurinn, sá sem snýr frá sólinni, er myrkvaður eins og þegar nótt er á jörðinni. Þegar tunglið snýst umhverfis jörðina sjáum við misstóran hluta af upplýsta helmingi tunglsins — hve mikinn ræðst af uppröðun sólar, tungls og jarðar.

Tunglið, kvartilaskipti, nýtt tungl, fullt tungl, hálf tungl, vaxandi tungl, minnkandi tungl, tunglfylling
Vaxandi sigð á mynd frá 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í Chile. Mynd: ESO/Andy Strappazzon

Þegar tunglið er milli jarðar og sólar snýr næturhlið þess að okkur. Þá er talað um nýtt tungl. Nýtt tungl rís með sólinni við sólarupprás og sest við sólsetur. Nýtt tungl sést þar af leiðandi ekki á himninum.

Þegar tunglið heldur áfram á braut sinni í kringum sólina fer það vaxandi. Þá er gjarnan talað um tungl í fyllingu. Tunglið er vaxandi sigð þegar innan við helmingur þess er upplýstur. Frá norðurhveli jarðar vex tunglið frá hægri til vinstri en öfugt á suðurhvelinu. Vaxandi mánasigð sést alltaf á kvöldin, skömmu eftir sólsetur. Þegar tunglið er vaxandi (eða minnkandi) sigð sést oft jarðskin á næturhlið þess. Jarðskinið má rekja til endurvarps sólarljóss af daghlið jarðar.

Um það bil viku eftir nýtt tungl sjáum við helminginn af upplýsta hluta tunglsins og helminginn af óupplýsta. Það köllum við hálft vaxandi tungl. Tunglið er hálft vaxandi á himninum þegar fjórðungi af hringferð þess umhverfis jörðina er lokið. Því kallast hálft vaxandi tungl líka fyrsta kvartil því þá er fjórðungur liðinn af tunglmánuðinum. Hálft vaxandi tungl rís og sest um það bil sex klukkustundum á undan sólinni; tunglris er í kringum hádegi og tunglsetur í kringum miðnætti.

Stuttu eftir fyrsta kvartil, þegar meira en helmingur tunglsins er upplýstur, er vaxandi gleitt tungl eða gleiðmáni. Tunglið er þá sífellt lengur á himninum á kvöldin og næturnar.

Einni viku eftir fyrsta kvartil — tveimur vikum eftir nýtt tungl — er tunglið á gagnstæðri hlið jarðar frá sólu. Með öðrum orðum er jörðin milli tungls og sólar. Þá snýr allur upplýsti helmingur tunglsins að okkur — öll daghliðin — og er þá fullt tungl. Fullt tungl er á lofti alla nóttina: Það rís alltaf við sólsetur og sest við sólarupprás.

Næstu tvær vikur fer tunglið minnkandi. Þá sjáum við sífellt minna af upplýsta hluta þess. Á norðurhveli dvínar tunglið frá hægri til vinstri en öfugt á suðurhveli jarðar. Viku eftir fullt tungl er tunglið hálft minnkandi eða á þriðja kvartili. Tveimur vikum eftir fullt tungl er svo aftur nýtt tungl. Minnkandi tungl kemur alltaf upp á himinninn seint á kvöldin, síðla nætur eða árla morguns. Því er tunglið alltaf minnkandi þegar þú sérð það á morgnana.

Tunglið er um fjórar vikur að ljúka einni umferð um jörðina. Tíminn milli nýrra tungla eða fullra tungla er því fjórar vikur. Staða tunglsins miðað við sólina á himinhvolfinu breytist stöðugt. Við miðum klukkur okkar við sólina og sjáum þess vegna tunglið rísa og setjast á mismunandi tímum á hverjum degi. Að meðaltali rís tunglið og sest um það bil 50 mínútum seinna hvern dag.

Tunglið, kvartilaskipti, nýtt tungl, fullt tungl, hálf tungl, vaxandi tungl, minnkandi tungl, tunglfylling
Tunglið vex og dvínar á himninum þegar það snýst í kringum jörðina. Frá jörðinni sjáum við misstóran hluta af upplýstu hlið tunglsins eftir því hvar á braut sinni um jörðina miðað tunglið er miðað við sólina. Á myndinni er líka sýndur munurinn á stjarnbundna og sólbundna tunglmánuðinum (grænt). Myndin gildir um norðurhvel jarðar og er ekki í réttum hlutföllum. Mynd: Wikimedia Commons.

Tengt efni

Heimildir

  1. Þorsteinn Sæmundsson (1972). Stjörnufræði – Rímfræði. Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins, Reykjavík.
  2. Thierry Legault og Serge Brunier (2006). New Atlas of the Moon. Firefly Books, New York.
  3. Roger Freedman og William Kaufmann (2008). Universe, 8. útgáfa. W. H. Freeman & Company, New York.
  4. Pasachoff, Jay M (1998). Astronomy: From the Earth to the Universe, 5. útgáfa. Sounders College Publishing, New York.

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2011). Kvartilaskipti. Stjörnufræðivefurinn http://www.stjornuskodun.is/solkerfid-large/tunglid/kvartilaskipti sótt (DAGSETNING)