Nóvember 2023
Í nóvember skín Júpíter skærast á kvöldhimninum en Venus á morgunhimninum. Júpíter er í gagnstöðu 3. nóvember og því á lofti frá sólsetri til sólarupprásar. Því er kjörið að skoða Júpíter með sjónauka í nóvember.
HELST Á HIMNI Í NÓVEMBER 2023
6. nóvember Tunglið skammt frá Regúlusi og Venusi á morgunhimninum í suðaustri
9. nóvember Glæsileg samstaða Venusar og sigðarlaga tungls á morgunhimni í suðaustri
18. nóvember Loftsteinadrífan Leonítar í hámarki að morgni
20. nóvember Hálft vaxandi tungl skammt frá Satúrnusi á kvöldhimninum
25. nóvember Mjög falleg samstaða gleiðs vaxandi tungls og Júpíters
TUNGLIÐ
Nánari upplýsingar um tunglstöðu hvers dags má finna undir Tunglið í dag.
Tunglið | Dagsetning | Kvartil | Fróðleikur |
---|---|---|---|
5. nóvember kl. 08:37 |
Þriðja kvartil (minnkandi) |
Rís í kringum miðnætti og er í suðri við sólarupprás. Góður tími til að skoða gígana í sjónauka. | |
13. nóvember kl. 09:27 |
Nýtt tungl | Milli Jarðar og sólar og sést því ekki á himni. | |
20. nóvember kl. 10:50 |
Fyrsta kvartil (vaxandi) |
Rís í kringum hádegi og er á suðurhimni við sólsetur. Góður tími til að skoða gígana í sjónauka. | |
27. nóvember kl. 09:16 |
Fullt tungl | Rís við sólsetur, er hæst á himni um miðnætti, sést alla nóttina |
- Tungl fjærst Jörðu: 6. nóvember - 404.569 km
- Tungl næst Jörðu: 21. nóvember - 369.818 km
NORÐURLJÓS
Á nýjum vef sem opnaður verður árið 2024, icelandatnight.is, verða aðgengilegar langbestu upplýsingarnar um geimveðrið og norðurljósavirkni, skýjahuluspá fyrir Ísland og annað sem sjá má á himni.
REIKISTJÖRNUR Á LOFTI
Merkúríus er ekki á lofti.
Venus er morgunstjarna í Meyjunni. Hún er lang skærasta „stjarna“ himins og sést vel í austri við birtingu. Að morgni 9. nóvember verður glæsileg samstaða Venusar og tunglsins. Í lok mánaðar verður Venus nálægt Spíka, björtustu stjörnu Meyjunnar.
Venus og tunglið að morgni 9. nóvember kl. 08:00
Mars er ekki á lofti.
Júpíter er kvöldstjarna í Hrútnum. Hann er í gagnstöðu 3. nóvember og er því á lofti allar myrkurstundir. Að morgni (og kvöldið) 25. nóvember á Júpíter himneskt stefnumót við tunglið. Með sjónauka sjást þrjú til fjögur Galíleótungl og skýjabelti í andrúmsloftinu.
Tunglið og Júpíter á kvöldhimninum 25. nóvember
Satúrnus er kvöldstjarna í Vatnsberanum. Í nóvember liggur hann best við athugun um klukkan 20, þá hæstur á lofti í suðri. Að kvöldi 20. nóvember verður tunglið rétt fyrir neðan Satúrnus. Með sjónauka sjást hringarnir og að minnsta kosti eitt tungl, Títan.
Satúrnus og tunglið að morgni 20. nóvember 2023
Úranus er kvöldstjarna í Nautinu. Hann er í gagnstöðu 13. nóvember og þá á lofti allar myrkurstundir. Nota þarf sjónauka til að koma auga á hann.
Neptúnus er kvöldstjarna í Fiskunum. Nota þarf sjónauka til að sjá hann.
LOFTSTEINADRÍFUR
Í nóvember eru tvær loftsteinadrífur í hámarki, Tárítar (sem skiptast í norður- og suður-Táríta) og Leonítar. Tárítar ná hámarki milli 5.-6. og 12.-13. nóvember. Ef þú horfir í átt að Ljónsmerkinu gætirðu séð ögn fleiri stjörnuhröp en alla jafna þessa daga, kannski 5-10 á klukkustund.
Leonítar eru í hámark aðfaranótt 18. nóvember. Drífan dregur nafn sitt af Ljósnmerkinu sem rís eftir miðnætti og er því best að virða hana fyrir sér árla morguns. Þegar best lætur má búast við að sjá 10 til 15 stjörnuhröp á klukkustund.
LÆRÐU MEIRA
Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskylduna er leiðarvísir um stjörnuhiminninn yfir Íslandi.
Í bókinni eru kort þar sem merkt eru áhugaverð fyrirbæri að skoða með handsjónaukum eða litlum stjörnusjónaukum.
VANTAR ÞIG STJÖRNUSJÓNAUKA?
VILT ÞÚ KOMAST Í STJÖRNUSKOÐUN?
Á Hótel Rangá er besta aðstaða landsins til stjörnuskoðunar.
Í litlu húsi með afrennanlegu þaki eru tveir fyrsta flokks rafdrifnir og tölvustýrðir sjónaukar. Stjörnuskoðunarhúsið er opið öll heiðskír kvöld milli kl. 21 og 22:30. Þangað eru öll velkomin og er aðgangur ókeypis, þótt auðvitað sé skemmtilegast að gera sér glaðan dag og snæða kvöldverð á staðnum. Um eina og hálfa klukkustund tekur að aka frá höfuðborgarsvæðinu á Hótel Rangá.
Ég mæli með að fjölskyldur komi á föstudegi eða laugardegi svo yngsta fólkið sé ekki þreytt í skólanum daginn eftir.
Sævar Helgi Bragason