Október 2023

  • Hvað sést á stjörnuhimninum í október?
    Hvað sést á stjörnuhimninum í október?

Í október er stjörnuskoðunartímabilið hafið fyrir alvöru. Vetrarbrautin okkar sést enn vel á kvöldin þegar tunglskins nýtur ekki og orðið er dimmt. Í október 2023 eru reikistjörnurnar Júpíter og Satúrnus áberandi á kvöldhimninum og Venus skín skært á morgunhimninum. Þá fáum við örlítinn deildarmyrkva á tungli undir lok mánaðarins.

HELST Á HIMNI Í SEPTEMBER 2023

1. október Júpíter er bjarta stjarnan við hlið tunglsins.

9. október  Venus og Regúlus í Ljóninu mynda fallegt par á morgunhimninum

10. október Tunglið, Venus og Regúlus saman á morgunhimninum.

14. október Hringmyrkvi á sólu sjáanlegur frá Bandaríkjunum. Myrkvinn sést ekki frá Íslandi.

21. október Loftsteinadrífan Óríonítar í hámarki

23. október Tunglið rétt fyrir neðan Satúrnus á kvöldhimninum

28. október Deildarmyrkvi á tungli sjáanlegur frá Íslandi

29. október Tunglið rétt fyrir ofan Júpíter.

TUNGLIÐ

Nánari upplýsingar um tunglstöðu hvers dags má finna undir Tunglið í dag.

Tunglið Dagsetning Kvartil Fróðleikur
Tunglid-thridja-kvartil 6. október
kl. 13:48
Þriðja kvartil
(minnkandi)
Rís í kringum miðnætti og er í suðri við sólarupprás. Góður tími til að skoða gígana í sjónauka.
Nytt-tungl 14. október
kl. 17:55
Nýtt tungl Milli Jarðar og sólar og sést því ekki á himni.
Tunglid-fyrsta-kvartil 22. október
kl. 03:29
Fyrsta kvartil
(vaxandi)
Rís í kringum hádegi og er á suðurhimni við sólsetur. Góður tími til að skoða gígana í sjónauka.
Fullt-tungl 28. október
kl. 20:24
Fullt tungl Rís við sólsetur, er hæst á himni um miðnætti, sést alla nóttina
  • Tungl fjærst Jörðu: 10. október - 404.425 km
  • Tungl næst Jörðu: 26. október - 364.873 km

NORÐURLJÓS

Norðurljósin eru að meðaltali tíðust í kringum jafndægur, þ.e. september/október og mars/apríl. Á auroraforecast.is eru bestu upplýsingarnar um geimveðrið og norðurljósavirkni og skýjahuluspá fyrir Ísland.

REIKISTJÖRNUR Á LOFTI

Merkúríus er morgunstjarna í Meyjunni í blábyrjun mánaðarins en nálgast sólina svo erfitt er að koma auga á hann. 

Venus er morgunstjarna í Ljóninu, lang skærasta „stjarna“ himins og sést vel í austri við birtingu. Að morgni 10. október er mjög falleg samstaða tunglsins og Venusar með Regúlus, skærustu stjörnu Ljónsins á milli. Líttu eftir henni í austri fyrir sólarupprás.

Tunglid-venus-regulus-10okt23

Tunglið, Regúlus og Venus að morgni þriðjudags 10. október

Mars er ekki á lofti.

Júpíter er kvöldstjarna í Hrútnum. Að kvöldi 1. október á Júpíter himneskt stefnumót við tunglið sem endurtekur sig 28. október.

Tunglid-jupiter-28okt23

Tunglið við Júpíter laugardagskvöldið 28. október 2023.

Satúrnus er kvöldstjarna í Vatnsberanum. Í október liggur hann best við athugun milli klukkan 21 og 22 þá hæstur á lofti í suðri. Milli 23 og 24. október verður tunglið skammt frá.

Tunglid-saturnus-24okt2023

Tunglið við Satúrnus þriðjudagskvöldið 24. október 2023

Úranus er kvöldstjarna í Nautinu. Nota þarf sjónauka til að koma auga á hann.

Neptúnus er kvöldstjarna í Fiskunum. Nota þarf sjónauka til að sjá hann.

LOFTSTEINADRÍFUR

Í október er loftsteinadrífan Óríonítar í hámarki. Þegar best lætur má búast við því að sjá 10 til 20 stjörnuhröp á klukkustund eftir miðnætti, þegar stjörnumerkið Óríon er komið á loft. Óríonítar eru ísagnir sem rekja má til slóðarinnar sem halastjarnan Halley skilur eftir sig.

Stjornuskodun-scaledLÆRÐU MEIRA

Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskylduna er leiðarvísir um stjörnuhiminninn yfir Íslandi.

Í bókinni eru kort þar sem merkt eru áhugaverð fyrirbæri að skoða með handsjónaukum eða litlum stjörnusjónaukum.

VANTAR ÞIG STJÖRNUSJÓNAUKA?

VILT ÞÚ KOMAST Í STJÖRNUSKOÐUN?

Á Hótel Rangá er besta aðstaða landsins til stjörnuskoðunar

Í litlu húsi með afrennanlegu þaki eru tveir fyrsta flokks rafdrifnir og tölvustýrðir sjónaukar. Stjörnuskoðunarhúsið er opið öll heiðskír kvöld milli kl. 21 og 22:30. Þangað eru öll velkomin og er aðgangur ókeypis, þótt auðvitað sé skemmtilegast að gera sér glaðan dag og snæða kvöldverð á staðnum. Um eina og hálfa klukkustund tekur að aka frá höfuðborgarsvæðinu á Hótel Rangá.

Ég mæli með að fjölskyldur komi á föstudegi eða laugardegi svo yngsta fólkið sé ekki þreytt í skólanum daginn eftir.

Sævar Helgi Bragason