Tölvustýrðir sjónaukar
Tölvustýrður sjónauki er vissulega fær um að staðsetja þúsundir stjarnfræðilegra fyrirbæra úr innbyggðum gagnagrunni, en aðeins eftir að hann hefur verið stilltur rétt inn á himinninn sem þú ert undir. Þú sem eigandi tölvustýrða sjónaukans þarft að hjálpa tölvunni að átta sig á því hvernig allt snýr með því að slá inn nauðsynlegar grunnupplýsingar í tölvuna og síðan beina sjónaukanum á tvær til þrjár stillistjörnur. Einungis þá getur tölvan áttað sig á því hvernig himinninn birtist þér og getur þá fyrst hjálpað þér við að finna fyrirbærin á himninum.
Það er staðreynd að það er ekkert einfaldara að nota tölvustýrða sjónauka en sjónauka sem þú stjórnar með höndunum fyrr en þú ert búin(n) að læra á hann og himinninn. Án þekkingar á himninum getur tölvustýrður sjónauki skapað pirring þegar hann virkar ekki eins og hann á að virka. Þá er allt eins líklegt að þú gefist upp og finnist þetta skemmtilega áhugamál erfitt.
Ef þú ert nýbúin(n) að fjárfesta í tölvustýrðum sjónauka ættir þú að lesa leiðarvísinn mjög vel, en þú munt ef til vill líka þurfa á aukaaðstoð að halda. Þess vegna erum við hér til að hjálpa þér. Með leiðarvísinn innan handar og hollráð frá okkur ættir þú að hafa allt sem til þarf svo að stjörnuskoðunin þín verði ánægjuleg.
Lestu leiðarvísinn vel
Bandarísku fyrirtækin Meade og Celestron eru tveir stærstu framleiðendur tölvustýrðra stjörnusjónauka í heiminum í dag. Hjá Celestron kallast tölvustýringin NexStar en Autostar hjá Meade. Báðar tölvustýringarnar eru mjög nákvæmar og vinna sitt verk vel á sambærilegan hátt um leið og búið er að átta sig á því hvernig þær virka.
Leiðarvísirinn sem fylgdi með sjónaukanum ætti að gefa þér nokkra hugmynd um þau skref sem þú þarft að taka. Mikilvægt er að lesa leiðarvísinn vel og prófa sig áfram. Leiðarvísirinn fleytir þér langt og ef þú lest hann vel og vandlega ætti það að vera leikur einn að stilla sjónaukann. Þriðja skrefið er samt ekki endilega að fara út og prófa sjónaukann. Við höfum prófað fjölmargar tölvustýrða sjónauka og komist um leið að því að mjög gagnlegt er að prufukeyra nýjan sjónauka heima í stofu. Ástæðan er sú að miklu einfaldara er að átta sig á stilliferlinu þegar þú sérð hvað sjónaukinn er að gera og styðjast um leið við leiðarvísinn.
Að stilla sjónaukann
Þegar þú ert búin(n) að lesa leiðarvísinn og setja sjónaukann saman er næsta skref að tengja lófatölvuna (fjarstýringuna) við sjónaukastæðið og kveikja á því. Lófatölvan leiðbeinir þér í gegnum fyrstu skrefin en mikilvægt er að hafa leiðarvísinn við hendurnar í fyrsta skiptið.
Fyrsta verk þitt eftir að hafa kveikt á sjónaukanum er að slá inn tíma- og dagsetningu, staðsetningu (lengdar- og breiddargráða) og viðeigandi tímabelti. Einfaldast er að stilla tíma- og dagsetningu; þú lítur einfaldlega á nálæga klukku. Ekki er nauðsynlegt að tímasetningin sé hárnákvæm; mínúta eða tvær til og frá breytir engu. Því næst slærðu inn dagsetninguna, en hún er oftast mánuður/dagur/ár á bandarískan máta.
Næst þarftu að segja sjónaukanum hvar þú ert í heiminum. Þetta þýðir að þú þarft að slá inn breiddargráðu (e. latitude) og lengdargráðu (e. longitude). Íslenskir bæir eru venjulega ekki í gagnagrunnum tölvanna svo þú þarft að slá inn þessar tölur sjálf(ur). Aftur er ekki nauðsynlegt að tölurnar séu hárnákvæmar þótt það sé vitaskuld kostur. Mundu að tilgreina breiddargráðurnar í (N)orður og lengdargráðuna í (V)estur.
Eftir staðsetninguna er komið að tímabeltinu. Rétt tímabelti er fundið með því að skrolla niður listann með UP (6) og DOWN (9) hnöppunum á lófatölvunni og velja það sem við á. Á Íslandi er valinn Standard Time eða staðaltími og tímabeltið er Universal Time ða heimstími. Mikilvægt er að ekki sé stillt á Daylight Saving Time því þá verður klukkan röng og hefur það mikil áhrif þegar við stillum inn sjónaukann.
Upplýsingar um tímann, dagsetninguna og staðsetningu þína geymast í lófatölvunni. Ekki þarf að slá inn nýja tíma- og dagsetningu fyrr en þú ferð næst í stjörnuskoðun. Ekki þarf heldur að breyta lengdar- og breiddargráðunum nema þú hverfir verulega frá fyrri stjörnuskoðunarstað.
Að öllum þessum skrefum loknum þarftu að stilla sjónaukanum rétt upp. Hér er aftur lykilatriði að kynna sér hvernig það er er gert með því að lesa leiðarvísinn. Tölvustýringin gerir ráð fyrir því að sjónaukinn snúi rétt þegar tölvan útbýr líkan af himninum. Þetta þýðir að venjulega að beina þarf sjónaukanum í norðurátt og stilla halla sjónaukatúbunar rétt. Enn og aftur er sagt hvernig þetta er gert í leiðarvísi sjónaukans. Nýrri sjónaukar eins og NexStar SLT, NexStar SE og CPC-línan frá Celestron koma með SkyAlign þar sem ekki er þörf á að stilla sjónaukanum upp á sérstakan hátt (við mælum samt með því að það sé gert). Mundu hins vegar að tölvan í sjónaukanum veit ekki hvort sjónaukinn beinist í rétta eða ranga átt og stillir sig inn á himinninn eins og rétt sé að öllu staðið, jafnvel þótt svo sé ekki.
Á sumum sjónaukum, til dæmis Advance Series GT og CGE frá Celestron; SkyView Pro, Sirius og Atlas frá Orion og flestum tölvustýrðum sjónaukum frá Meade þarf að setja sjónaukann í það sem kallast Home Position. Það er gert með því að losa um hæðarstillinguna (e. altitude, upp og niður) og áttarhornsstillinguna (e. azimuth, hægri og vinstri) og sjónaukanum beint í átt að pólstjörnunni (í norður). Á flestum sjónaukum er einhvers konar merki hvernig þetta er gert. Á NexStar SE, Advance Series GT og CGE frá Celestron er þetta merkt með límmiða sem á stendur INDEX. Læsa á sjónaukanum á þessum stillingum. Sjónaukatúban sjálf á að jafnstilla með hallamáli eða einfaldlega augunum ef hallamál er ekki við höndina.
Sjónaukinn stilltur inn á himinninn
Þegar þú ert búin(n) að segja tölvunni hvar hann er staddur og hvenær, vinnur tölvan úr þessum upplýsingum og leiðbeinir þér að næsta skrefi: að velja stjörnur fyrir stillinguna inn á himinninn. Þegar sjónaukinn er stilltur á þessar stjörnur fær tölvan síðustu upplýsingarnar sem hún þarf til að útbúa líkan af himninum og gera henni þar með kleyft að finna nákvæmlega þau fyrirbæri sem þú óskar eftir.
Á þessu stigi ætti nafn fyrstu stjörnunnar sem valin er að standa á skjánum. Um leið og þú smellir á ENTER ætti sjónaukinn að snúa sér sjálfkrafa að þessari stjörnu. Sjónaukinn stöðvast um leið og hann er kominn á þann stað sem hann heldur að stjarnan sé.
En er sjónaukinn í raun og veru á réttum stað? Líklega ekki en ef þú kannt ekki utanbókar hvar allar björtustu stjörnurnar á himninum eru er best að styðjast við Stjörnukort mánaðarins.
Þegar sjónaukinn hættir að hreyfast skaltu líta á stjörnukortið til þess að sjá hvar stjarnan sem leitað er að er. Ef tölvan valdi til dæmis Betelgás í Óríon – og Óríon er að rísa í austri – skaltu kanna hvort sjónaukinn beinist í rétt átt. Ef svo er, frábært! Það er merki þess að allt virkar eins og það á að virka.
Ef stjarnan er falin bakvið hús, tré eða fjall eru líkur á að þú náir ekki að stilla sjónaukann nákvæmlega. Venjulega gefur tölvan upp aðrar stjörnur til að stilla sjónaukann (smelltu á UNDO á NexStar en DOWN á Autostar) en fjöldi góðra stillistjarna er takmarkaður og oft verður stillingin ekki eins nákvæm ef önnur stjarna er valin.
Jafnvel þótt þú hafir gert allt nákvæmlega hingað til, stillt þrífótinn, sjónaukann og slegið hárrétt inn allar upplýsingar sem sjónaukinn þarf á að halda, er næstum öruggt að stillistjarnan er ekki sýnileg í sjónsviði sjónaukans í fyrstu - ekki einu sinni í miðaranum.
Sjónaukinn er nánast örugglega ekki bilaður og þarf að öllum líkindum ekki á viðgerð að halda. Ef sjónaukinn er meira en 15° frá réttri stjörnu er réttast að kíkja í leiðarvísinn, kanna uppsetningarferlið og endurtaka stilliferlið. Ef sjónaukinn virðist nálægt réttri stjörnu, innan við 15°, er líklega ekkert alvarlegt að.
Tölvan biður þig um að stilla stjörnuna í miðju leitarsjónaukans og það gerir þú með því að horfa í gegnum hann. Smelltu á ENTER þegar stjarnan er nokkurn veginn í miðju leitarsjónaukans. Því næst áttu að miðjustilla stjörnuna í sjónsviði sjónaukans sjálfs og þá fyrst þarftu að kíkja í hann. Best er að nota það augngler sem gefur minnstu stækkun og víðasta sjónsviðið. Það er nefnilega miklu einfaldara að miðjustilla við 50-falda stækkun heldur en 100-falda. Sé stjarnan ekki í miðju sjónsviðsins skaltu nota örvahnappana og færa stjörnuna inn í sjónsviðið með hjálp leitarsjónaukans. Sé stjarnan loks í miðjunni skaltu smella á ALIGN, ef þú ert að nota sjónauka frá Celestron, annars ENTER ef þú ert að nota Autostar frá Meade.
Tölvan þarf að minnsta kosti eina stjörnu í viðbót til að ljúka við líkan sitt af himninum og biður þig um að endurtaka ferlið með annarri stjörnu og hugsanlega þeirri þriðju. Þetta veltur allt á þeirri stilliaðferð sem notuð er. Þegar þessu er lokið reiknar tölvan út í örstutta stund og sýnir Align Successful á skjánum ef allt hefur heppnast.
Align failed
Hvað ef sjónaukinn virðist ekki hitta nákvæmlega á fyrirbærin sem valin eru, jafnvel þótt sjónaukinn hafi verið rétt stilltur inn á himinninn? Ástæðan fyrir þessu er yfirleitt ónákvæmni eða mistök í stilliferlinu. Ef þetta gerist er best að slökkva á sjónaukanum og endurtaka stilliferlið, lið fyrir lið með aðstoð leiðarvísisins og hafa hollráðin í huga.
En hvað ef þú færð skilaboðið Align Failed á skjáinn? Hafðu engar áhyggjur af því. Þú þarft að hefja ferlið upp á nýtt og fínstilla sjónaukann betur. Mundu að markmiðið í byrjun er að læra að stilla sjónaukann. Gættu þess aðeins að fylgja vel því sem segir í leiðarvísinum.
Ef seinni tilraunin heppnaðist er tími til kominn að beina sjónaukanum á eitthvert fyrirbæri. Engu máli skiptir hvaða fyrirbæri það er en við mælum með einhverju björtu og áberandi, til dæmis reikistjörnu eða tunglinu. Hvernig þetta er gert veltur á sjónaukategundinni. Á Celestron sjónaukum er hægt að renna í gegnum lista af fyrirbærum með því að smella á LIST hnappann (8) en á OBJECTS hnappann á Meade sjónaukum. Ef sjónaukinn hreyfist og beinist nokkurn veginn í rétta átt er allt í góðu lagi.
Þetta kann að virðast langt og strangt og flókið ferli en tekur aðeins um 5 til 10 mínútur þegar þú ert komin(n) upp á lagið með það. Eftir því sem þú gerir þetta oftar, því einfaldara og hraðvirkara verður ferlið. Eftir örfá skipti verða öll glæsilegustu fyrirbæri himinsins innan seilingar.
Hollráð
Tölvustýring sjónaukans er einungis jafn nákvæm og stilling hans er. Með því að fylgja vel leiðarvísinum og hafa nokkur hollráð í huga er hægt að draga úr líkum þess að sjónaukinn hitti ekki á réttu fyrirbærin:
-
Passaðu að þrífóturinn halli lítið sem ekkert. Notaðu hallamál til að stilla hann af. Sé þrífóturinn vel stilltur er líklegra en ekki að sjónaukinn hitti nákvæmlega á fyrirbærið sem þú vilt skoða, hvort sem það er tunglið, Satúrnus eða fjarlæg vetrarbraut, án þess að þú þurfir að færa fyrirbærið sjálf(ur) í miðjuna.
-
Stilltu miðarann vel. Passaðu að rauði punkturinn í miðaranum beinist nokkurn veginn að miðju fyrirbærisins og að fyrirbærið sé þá í sjónsviði sjónaukans. Vel stilltur miðari sparar heilmikinn tíma.
-
Mundu að velja stillistjörnur sem eru eins langt frá hvor annarri á himninum og mögulegt er. Best er ef þriðja stillistjarnan liggur ekki í beinni línu milli hinna tveggja.
-
Vertu viss um að miðjusetja fyrirbæri með sömu lokafærslu eins og áttina sem sjónaukinn stefndi sjálfkrafa í. Ef sjónaukinn, sem dæmi, stöðvast eftir að hafa færst til hægri og upp, ættir þú að miðjusetja öll fyrirbærin þrjú í augnglerinu með því að nota örvahnappana sem benda til hægri og upp. Hafðu lítinn hraða á mótordrifinu (6 eða minna). Nálgastu stjörnuna úr þessari átt þegar þú horfir í gegnum augnglerið. Þessi aðferð tryggir nákvæmustu stillinguna.
-
Notaðu augngler með litla stækkun og vítt sjónsvið til að finna stjörnuna en skiptu síðan í augngler með meiri stækkun og þrengra sjónsvið. Affókusaðu stillistjörnuna þannig að hún fylli því sem næst upp í sjónsviðið. Ljósbletturinn verður þannig næst miðjunni.
GPS sjónaukar
Sumir stjörnusjónaukar frá Meade og Celestron, til dæmis CPC frá Celestron og LX90GPS frá Meade, koma með GPS staðsetningartæki sem hjálpar til við stilla sjónaukann. Slíkur sjónauki sér um að koma upplýsingum til tölvunnar nokkurn veginn sjálfur en það eina sem þú þarft að gera er að stilla tímabeltið og breyta Daylight Savings Time í Standard Time. GPS stjörnusjónaukar tengjast gervitunglum um leið og kveikt er á þeim. Þeir hlaða niður öllum nauðsynlegum upplýsingum sem sjónaukinn þarf til að stilla sig inn á örfáum mínútum.
Hægt er kaupa og tengja GPS-tæki við nánast alla tölvustýrða sjónauka frá Celestron og Meade. GPS-tæki er hins vegar alls engin nauðsyn fyrir tölvustýrða sjónauka.
Hvernig vitna skal í þessa grein
- Sævar Helgi Bragason (2008). Tölvustýrðir sjónaukar. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/bunadur/tolvustyrdir-sjonaukar. (Sótt: DAGSETNING).