M27 - Dymbilþokan í Litlarefi

  • M27, Dymbilþokan, Litlirefur, Vulpecula
    M27 - Dymbilþokan í Litlarefi
Helstu upplýsingar
Tegund: Hringþoka
Stjörnulengd:
19klst 59mín 36,34sek
Stjörnubreidd:
+22° 43′ 16,09″
Fjarlægð:
1.240 ljósár
Sýndarbirtustig:
+7,5
Hornstærð:
8x5,6 bogamínútur
Radíus:
1,4 ljósár
Stjörnumerki: Litlirefur
Önnur skráarnöfn:
NGC 6853

Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier uppgötvaði Dymbilþokuna þann 12. júlí 1764. Í skrá sinni lýsir Messier fyrirbærinu með eftirfarandi hætti:

(12. júlí, 1764) Þoka án stjörnu, uppgötvuð í Litlarefi, milli framfótanna tveggja, og mjög nærri fjórtándu stjörnu þess stjörnumerkis, af fimmta birtustigi samkvæmt Flamsteed; maður getur séð hana vel með venjulegum sjónauka; hún birtist sívalningslaga og hún inniheldur enga stjörnu. M. Messier hefur tilkynnt stöðu hennar á korti af halastjörnunni 1779, sem grafin var í hefti Akademíunar sama ár. Yfirfarið 31. janúar 1781. (þverm. 4')

Nafnið „Dumb-bell“ má rekja til lýsingar enska stjörnufræðingsins Johns Herschel á þokunni frá 17. ágúst 1828. Þar segir Herschel að þokan sé „eins og dymbill í laginu, með sporskjulaga útlínur útfylltar af daufu þokuljósi.“

Stjarnan í miðju þokunnar er af birtustigi +13,5. Stjarnan er hvítur dvergur og mjög heit eða um 85.000 Kelvin. Líklegt er að mjög dauf gul fylgistjarna af birtustigi +17 sé á sveimi í kringum stjörnuna. Segja má að þegar við horfum á M27 séum við að horfa á örlög sólarinnar okkar í framtíðinni en hún deyr á svipaðan hátt.

Árið 2003 tók Hubblessjónaukinn mynd af M27 og fékkst nokkuð nákvæm mæling á fjarlægðinni sem hafði ekki verið þekkt með vissu. Samkvæmt gögnum Hubbles er M27 í tæplega 1240 ljósára fjarlægð og teygir þokan sig 0,8 ljósár út í geiminn (48.000 stjarnfræðieiningar). Þokan stækkar um eina bogasekúndu á öld sem þýðir að aldur hennar líkast til um 48.000 ár.

Sé þokan í rúmlega 1.240 ljósára fjarlægð er hún 100 sinnum bjartari en sólin okkar. Stjarnan í miðjunni er þó einungis þriðjungur af birtu sólar og fylgistjarnan 100 sinnum daufari en sólin okkar. Sú staðreynd að þokan er svo miklu bjartari en stjarnan sjálf segir okkur að stjarnan sendi mestmegnis frá sér háorkugeislun í ósýnilega hluta rafsegulrófsins. Gasið í þokunni dregur geislunina í sig og sendir aftur frá sér aftur að hluta til í formi sýnilegs ljóss.

Vel sýnileg í gegnum sjónauka

Við horfum nokkurn veginn beint á miðbaugsflöt þokunnar, þ.e.a.s. beint framan í hana. Ef við horfðum beint ofan á hana, þ.e.a.s. á pólsvæði hennar, líktist hún væntanlega hringþokunni M57 í Hörpunni. Birtustig þokunnar er +7,4 og stærðin á við hálft sýndarþvermál tunglsins. Þokan er því stór og björt og þannig mjög vel sýnileg í góðum handsjónauka, til dæmis 7x50 eða stærri, og í litlum stjörnusjónaukum við sæmilegar aðstæður. M27 er þar af leiðandi meðal allra glæsilegustu fyrirbæra himinsins.

Í gegnum skarpan og góðan stjörnusjónauka sést lögun þokunnar mjög vel. Líkt og flestar hringþokur sendir M27 aðallega frá sér grænt ljós og því getur verið hjálplegt að nota OIII-síu eða UHC-síu til að auka skerpu og draga fram smáatriði sem ella væri erfiðara að greina.

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). M27 - Dymbilþokan í Litlarefi. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/m27-dymbilthokan-i-litlarefi (sótt: DAGSETNING).