Messier 100

Þyrilþoka í Bereníkuhaddi

  • Messier 100, M100, Þyrilvetrarbraut, Bereníkuhaddur
    Messier 100 er þyrilvetrarbraut í stjörnumerkinu Bereníkuhaddi. Hún liggur í um 50 milljón ljósára fjarlægð. Þessi mynd sýnir kjarnann og innstu hluta þyrilarmanna í áður óséðri upplausn.
Helstu upplýsingar
Tegund: Þyrilþoka
 Gerð: SAB(s)bc
Stjörnulengd:
12klst 22mín 54,9s
Stjörnubreidd:
+15° 49′ 21"
Fjarlægð:
50 milljón ljósár
Sjónstefnuhraði:
1571 ± 1 km/s
Sýndarbirtustig:
+10,1
Stjörnumerki: Bereníkuhaddur
Önnur skráarnöfn:
NGC 4321

Franski stjörnufræðingurinn Pierre Méchain uppgötvaði þokuna 15. mars 1781. Á sama tíma fann hann Messier 98 og Messier 99. Landi hans og vinur Charles Messier skrásetti þokuna 13. apríl sama ár, skömmu áður en hann lauk við gerð þriðju og síðustu útgáfu skráar sinnar. Messier sagði að erfitt væri að greina þokuna sökum þess hve dauf hún er. Um svipað leyti náði William Herschel að greina bjartar stjörnuþyrpingar í þokunni. Skömmu fyrir 1850 hafði William Parsons, lávarður af Rosse, komist að því að Messier 100 var þyrilþoka.

Messier 100 er í rúmlega 50 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er tignarleg þyrilþoka, svipuð vetrarbrautinni okkar, sem við horfum ofan á og hefur tvo áberandi arma sem einkennast af ungum, björtum, bláum stjörnum og nokkrum daufari örmum. M100 er ein bjartasta vetrarbrautin í Meyjarþyrpingunni.

Hingað til hafa fimm sprengistjörnur sést í M100, seinast árið 2006. Í einum þyrilarmi vetrarbrautarinnar er eitt yngsta svarthol sem vitað er um í grennd við okkur en það er afurð stjörnu sem sást springa 15. apríl árið 1979.

Messier 100 varð fræg á fyrri hluta níunda áratugarins þegar birtar voru tvær myndir af henni fyrir og eftir viðgerð á Hubblessjónaukanum. Myndirnar sýndu stórkostlegar umbætur á sjón Hubbles.

Á himninum

Nota þarf stjörnukort af Bereníkuhaddi til að finna Messier 100 á himninum. Hún sést best á vorin, þegar Bereníkuhaddur er hátt á lofti. Vetrarbrautin sést með handsjónaukum en nýtur sýn best í gegnum stjörnusjónauka. Litlir stjörnusjónaukar sýna daufan, sporöskjulaga blett með ójafna birtu. Við góðar aðstæður er hægt að greina þyrilarmana í gegnum fjögurra tommu sjónauka og stærri.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 100. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-100 (sótt: DAGSETNING).