Messier 101

Þyrilþoka í Stórabirni

  • Vetrarbraut, M101, Hubblessjónaukinn
    Vetrarbrautin M101
Helstu upplýsingar
Tegund: Þyrilþoka
 Gerð: SAB(rs)cd
Stjörnulengd:
14klst 03mín 12,6s
Stjörnubreidd:
+54° 20′ 57"
Fjarlægð:
21 milljón ljósár
Sjónstefnuhraði:
241 ± 2 km/s
Sýndarbirtustig:
+7,86
Stjörnumerki: Stóribjörn
Önnur skráarnöfn:
NGC 5457

Franski stjörnufræðingurinn Pierre Méchain uppgötvaði þokuna 27. mars 1781 og skrásetti landi hans og vinur Charles Messier þokuna sama dag. Méchain lýsti henni sem mjög daufri en stórri þoku án stjarna milli vinstri handar Hjarðmannsins og rófu Stórabjarnar. Árið 1784 tók William Herschel eftir að þokan var flekkótt. Skömmu fyrir 1850 hafði William Parsons, lávarður af Rosse, svo komist að því að Messier 101 var þyrilþoka.

Messier 101 er í rúmlega 20 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er bjartasta vetrarbrautin í samnefndum hópi að minnsta kosti 9 vetrarbrauta. M101 er tignarleg þyrilþoka sem við horfum ofan á, svipuð vetrarbrautinni okkar en þónokkru stærri eða um 170.000 ljósár í þvermál. Í örmunum eru mjög stórar og bjartar ljómþokur sem eru fæðingarstaðir stjarna.

Hingað til hafa fjórar sprengistjörnur sést í M101, seinast árið 2011. SN 2011fd fannst á myndum sem teknar voru með sjónauka á Palomarfjalli í Bandaríkjunum 24. ágúst 2011 og var því upphaflega kölluð PTF 11kly. Sprengistjarnan var af gerð Ia og var upphaflega hvítur dvergur. Sýndarbirtustig hennar var mest +9,9 sem þýðir að hún var vel sýnileg í gegnum áhugamannasjónauka. Í raun varð hún 2.500 milljón sinnum bjartari en sólin okkar.

Á himninum

Mjög auðvelt er að finna Messier 101 á himinum. Notaðu stjörnukort af Stórabirni til að finna öftustu stjörnuna í Karlsvagninum, Eta. Vetrarbrautin er svo til jafn langt í norður frá Eta og næstu stjörnu í Karlsvagninum, Zeta og myndar jafnarma þríhyrning við þær.

Messier 101 sést sem daufur þokublettur með handsjónauka. Meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka þarf til að greina þyrilarmana við góðar aðstæður.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 101. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-101 (sótt: DAGSETNING).