Messier 102

Linsulaga vetrarbraut í Drekanum

  • NGC 5866, linsulaga vetrarbraut, lenticular galaxy
    NGC 5866 í Drekanum er linsulaga vetrarbraut
Helstu upplýsingar
Tegund: Þyrilþoka
 Gerð: SAB(rs)cd
Stjörnulengd:
14klst 03mín 12,6s
Stjörnubreidd:
+54° 20′ 57"
Fjarlægð:
21 milljón ljósár
Sjónstefnuhraði:
241 ± 2 km/s
Sýndarbirtustig:
+7,86
Stjörnumerki: Drekinn
Önnur skráarnöfn:
NGC 5866

Nokkur vafi leikur á hvort NGC 5866 sé í raun Messier 102. Líklega fann franski stjörnufræðingurinn Pierre Méchain vetrarbrautina í mars árið 1781 eða mögulega landi hans og vinur Charles Messier skömmu síðar. Messier skráði fyrirbærið í sína eigin útgáfu af skrá sinni, án þess að sannreyna staðsetninguna sem Méchain gaf upp eða skoða hana sjálfur.

Tveimur árum síðar dró Méchain uppgötvun sína til baka og sagðist hafa skoðað Messier 101 en ekki NGC 5866. Hugsanlegt er að Messier hafi skoðað NGC 5866 og mælt hnit hennar á himninum en þau skeika næstum fimm gráður í vestur af vetrarbrautinni. Þeir sem manna fróðastir eru um Messier fyrirbærin vilja þó margir meina að Messier hafi einfaldlega gert mistök við skráningu. Ef hvorki Méchain né Messier sáu NGC 5866 er ljóst að William Herschel sá hana fyrstur þann 5. maí árið 1788.

NGC 5866 er í um 50 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni og líklega um 70.000 ljósár í þvermál. Þvert í gegnum hana liggur áberandi rykslæða sem er mjög óvenjulegt í tilviki linsuþoka en mjög algengt í þyrilþokum. Þess vegna er hugsanlegt að NGC 5866 sé ekki linsuþoka heldur þyrilþoka.

NGC 5866 er bjartasta vetrarbrautin í samnefndum hópi vetrarbrauta. Engar sprengistjörnur hafa sést hingað til í henni.

Á himninum

Auðvelt er að finna NGC 5866 á himninum með hjálp stjörnukorts af Drekanum. Hún er um það bil þrjár gráður suðvestur frá Jóta í Drekanum í átt að stjörnunni Eta í Stórabirni (Alkaid) eða Þeta í Hjarðmanninum. Stjarna af birtustigi +5,21 er nálægt í suðri.

Vetrarbrautin er sýnileg í gegnum fjögurra tommu sjónauka en stærri sjónauka þarf til að greina smáatriði eins og rykslæðuna eða kornótta áferð ytri hluta þokunnar.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 102. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-102 (sótt: DAGSETNING).