Messier 11

Villiandarþyrpingin í Skildinum

  • Messier 11 eða Villiandarþyrpingin í Skildinum. Mynd: ESO
    Messier 11 eða Villiandarþyrpingin í Skildinum. Mynd: ESO
Helstu upplýsingar
Tegund: Lausþyrping
Stjörnulengd:
18klst 51,1mín
Stjörnubreidd:
-06° 16′
Fjarlægð:
6.200 ljósár
Sýndarbirtustig:
+6,3
Stjörnumerki: Skjöldurinn
Önnur skráarnöfn:
NGC 6705

Þýski stjörnufræðingurinn Gottfried Kirch við stjörnustöð Berlínar uppgötvaði þyrpinguna árið 1681 Árið 1733 sá breski stjörnufræðingurinn William Derham fyrstur manna stakar stjörnur í henni. Frakkinn Charles Messier bætti henni í skrá sína árið 1764.

Villiandarþyrpingin er ein stærsta og þéttasta lausþyrping sem þekkist. Í henni eru hátt í 3.000 stjörnur en um 500 eru bjartari en 14. birtustig. Athugandi í miðju þyrpingarinnar sæi nokkur hundruð stjörnur álíka bjartar og stjarnan Vega. Aldur hennar er áætlaður um 250 milljónir ára. Nafn hennar má rekja til þess að björtu stjörnur hennar mynda þríhyrning sem minnir á andahóp í oddaflugi.

Villiandarþyrpingin er í rúmlega 6.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni og er um 23 ljósár að þvermáli.

Á himninum

Við allra bestu aðstæður sést Villiandarþyrpingin með berum augum nokkrar gráður suðvestur af stjörnunni ß í Skildinum. Hún er það sunnarlega á himinhvolfinu að hún kemst aldrei mjög hátt yfir sjóndeildarhringinn. Þyrpingin er mjög falleg í gegnum handsjónauka og glæsileg í gegnum stjörnusjónauka við litla stækkun. Gott er að nota stjörnukort til að finna hana.

Tengt efni

Heimildir

  1. Messier 11, SEDS Messier pages

  2. en.wikipedia.org/wiki/Wild_Duck_Cluster

  3. Villiendur á flugi í lausþyrpingu — ESO.org

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 11. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-11 (sótt: DAGSETNING).